135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:52]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams. Ég heyri og finn að þar er mikill reynslubrunnur á ferð. Hann hefur starfað lengi á Alþingi, tekið þátt í félagsmálum eins og við mörg hver hér höfum gert.

Í máli hv. ræðumanns kom fram að reynsla hans væri sú, og mín reyndar líka, að langar ræður skiluðu ekki alltaf miklu í félagsmálum. Það gera hins vegar hinar stuttu, gagnorðu ræður sem eru rökrænar og þar sem farið er yfir hlutina.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Ellert Schram einmitt vegna ræðutímans sem verið hefur þó nokkuð til umræðu: Getur verið að ákveðnir flokkar þrífist bókstaflega á því að geta talað og talað burt séð frá því hvað þeir segja?

Getur verið að einstakir stjórnmálamenn nærist og lifi á því að vera í umhverfi sem þessu? Við þekkjum fullt af einstaklingum í félagsmálunum sem ástunda það. Þess vegna langar mig að spyrja að þessu: Getur verið að það sé nauðsynlegt ákveðnum stjórnmálaöflum að hafa þetta úrræði en fara ekki yfir málin með rökrænum hætti?