135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:53]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson, takk fyrir góð orð í minn garð. Almennt er það örugglega svo, sem við báðir þekkjum úr félagsmálum, að til er fólk sem þrífst á því að tala mikið og lengi. Það gildir ekki bara í þinginu, það gildir í félagsmálum úti í bæ. Það gildir ekki bara um einn flokk, það gildir um alla flokka að fólk stendur upp bara til að tala.

Ég held að hér gildi sömu lögmál og á vettvangi fótboltans um hvort fólk þrífist, hvort það endist og hvort það gagnist. Menn geta talað og talað og svo ég taki aftur tilvitnun úr fótboltanum þá geta menn líka æft og æft en þeir eru aldrei neitt betri. Það endar með því að þeir komast aldrei í lið. Þar gilda sömu lögmál.