135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:56]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú engu að svara, engri spurningu var beint til mín. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þau sjónarmið mín að efla þurfi stöðu og hlutverk nefndanna. Ég held að það sé eitt aðalviðfangsefni þingsins á komandi missirum því að þar er vettvangurinn.

Menn hafa stundum talað um rannsóknarnefndir þótt það hafi nú ekki enn þá ratað inn í þingsköpin eða fengist viðurkennt. Það gæti þá orðið vísir að einhverjum rannsóknum ef nefndirnar fengju meiri tíma og meira vægi og væru jafnvel fyrir opnari tjöldum en þær eru núna.

Þingsköpin og starf þingsins hafa að mörgu leyti komið í veg fyrir að nefndirnar hafi fengið nægilegt ráðrúm til þess að sinna verkum sínum. Fólk þarf auðvitað að hafa tíma til að lesa gögn, setja sig inn í mál og geta setið lengur en klukkutíma hverju sinni og rökrætt hlutina. Nefndirnar þurfa að fá það svigrúm.

Enginn vafi er á að vegur Alþingis mun styrkjast. Þau mál sem héðan eru afgreidd munu verða vandaðri og þingmenn sem eru í viðkomandi nefndum verða betur að sér. Þeir verða sterkari á svellinu, bæði inn á við og út á við. Þeir munu örugglega ávinna sér virðingu með þeim störfum þótt ekki sé allt til sýnis héðan úr ræðustól.