135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einnig kom fram í ræðu hv. þingmanns hvernig málum er hagað á Evrópuráðsþinginu. Ég hef setið þar undanfarin fjögur ár sem aðalmaður í Íslandsdeild Alþingis og þekki fyrirkomulagið og tek undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns um það.

Þar er auðvitað líka tilgangurinn sá að ræða mál, skiptast á skoðunum og ljúka umræðu um niðurstöðu. Auðvitað á það að vera á öllum þjóðþingum, ekki bara á Evrópuráðsþingi þar sem þingmenn úr 47 Evrópuþingum koma saman. Þess vegna er fráleitt að hafa það fyrirkomulag sem hér hefur gilt, að þingmenn geti dögum saman haldið máli í gíslingu með innihaldslausum ræðum sem gera ekkert annað en að misbjóða réttindum annarra.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði fram í ræðu hv. þingmanns að menn ættu kannski að athuga breytingar á þingsköpum frá síðustu öld, vildi ég koma því að, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að það er alveg rétt. Forsætisnefnd Alþingis lagði fram frumvarp um breytingar á þingsköpum árið 1999 með þeim tillögum um (Forseti hringir.) ræðutíma sem nú eru gerðar. Einn af flutningsmönnum var hv. þm. Ragnar Arnalds sem þá hafði setið 32 ár á Alþingi.