135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[22:00]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson nefndi eitt atriði að því er varðar 1. umr. Ég var þeirrar skoðunar að fara ætti þá leið að stytta tímann í 1. umr., eins og ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi nefnt, að menn komi hér og geri grein fyrir aðalatriðum máls og sjónarmiðum sínum án þess að fara í debatt út af því. Málið fari síðan til meðferðar í nefnd og þegar það kemur aftur hefur það verið lagað til og menn hafa tekið tillit til skoðana hver annars og þá getur hin raunverulega stjórnmálaumræða, um kosti og galla, farið fram.

Frumvarpið er ekki óskatillaga mín en engu að síður held ég að það sé skref í rétta átt.