135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, og við erum það ekki. Ef ganga á svo langt í þeim efnum að við teljum það óásættanlegt erum við það ekki og það er ekki verslunarvara af okkar hálfu. Við áttum okkur alveg á því að eigi að takast samkomulag í þessum efnum þurfum við að fallast á einhverjar takmarkanir umfram það sem okkur þætti gott en það eru mörk fyrir því hvert við erum tilbúin til að ganga í þessum efnum. Þá er betra og mér líður betur með það að aðstandendur þessa frumvarps hafi það þá á samviskunni að hafa afgreitt það í ágreiningi við mig heldur en að ég standi að því. Ég ætla ekki hér, væntanlega frekar ofarlega á mínum þingmannsferli, að gera eitthvað sem stríðir gegn samvisku minni í þessum efnum, það er algerlega á hreinu.

Varðandi söguna er rétt að hv. þingmaður hafi það í huga að um frumvarpið sem var kynnt, sem var sýnt, 1999 var ágreiningur og sá ágreiningur var ekki bara í röðum þeirra sem ekki stóðu að flutningnum heldur var vitað að í þingflokkunum á bak við forsætisnefndarfulltrúana var heldur ekki samstaða svo að því sé til haga haldið. Þetta hef ég kannað með samtölum við tiltekna flutningsmenn málsins og ég fullyrði að ég fari rétt með. Það var fjarri því að um það mál væri einhver samstaða þá. Og hvað gerðu menn? Menn létu kyrrt liggja. Það hvarflaði ekki að þeim mönnum sem þá voru aðstandendur málsins að reyna að knýja það í gegn í ágreiningi. Auðvitað hefði verið hægt þá, nákvæmlega eins og núna, að lengja Alþingi um einhverja daga og troða málinu í gegn ef meiri hluti hefði fundist fyrir því, en það gerðu þeir ekki, Ólafur G. Einarsson og félagar sem að flutningi málsins stóðu, þannig að þar er ólíku saman að jafna.

Þetta snýst um málfrelsi, hv. þingmaður, ræðuréttindi, málflutningsréttindi þingmanna, það er deginum ljósara. Við vitum auðvitað að hann getur ekki verið ótakmarkaður og hann hefur aldrei verið það. En reglurnar hafa verið þannig lengi að menn hafa haft rétt til að flytja tvær ræður án tímatakmarkana. (Forseti hringir.) Það er takmarkaður ræðuréttur, takmarkað málfrelsi en það er þó rúmt.