135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti, nokkur atriði. Ég geri mér grein fyrir því að það frumvarp sem var lagt fram 1999 var umdeilt og rengi ekki að það var umdeilt í fleiri flokkum en þeim flokki sem nú er Vinstri grænir, hygg að hafi verið óháðir á þeim tíma ef ég man rétt.

Staðreyndin er hins vegar sú að þessar tillögur hafa verið lengi í gerjun, það var það sem ég var að benda á. Þessar hugmyndir hafa verið lengi í umræðu, hafa átt sér langan meðgöngutíma og allan þann tíma hafa af og til komið upp umræður um þetta, m.a. á síðasta kjörtímabili þó að ekki væri farið fram með frumvarp að þessu leyti. Hæstv. núverandi forseti þingsins hefur lagt fram þessa tillögu og hefur frá því á sumarmánuðum verið að ræða þessi mál við formenn þingflokka, formenn flokka, forsætisnefnd og fleiri aðila. Þetta mál hefur átt sér langan aðdraganda, það er ekki eins og það detti hér af himnum ofan eða eigi að koma mönnum á óvart.

Það sem hefur hins vegar verið athyglisvert í þessu er að á síðustu missirum hefur alltaf strandað á Vinstri grænum sem hafa dregið línu í sandinn, ef svo má segja, um að ekki eigi að takmarka ræðutíma með þeim hætti sem tillögur hafa gengið út á. Vinstri grænir hafa í rauninni einangrast mjög mikið í þeirri afstöðu sinni. Það er kannski í ljósi þess og í ljósi þess hvernig sá flokkur hefur einangrast í þessu máli sem hann hefur talið sig knúinn til þess nú á síðustu dögum að leggja fram einhverjar tillögur um nokkrar takmarkanir með þeim hætti sem voru kynntar t.d. hér á þriðjudag.

Aðalatriðið í þessu máli er það að eftir sem áður verður málfrelsi þingmanna tryggt með margvíslegum hætti. Möguleikar manna til að koma sjónarmiðum að verða ekki skertir, menn verða bara að gera það í styttra máli en áður.