135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, mikið átakamál eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna. Upp í hugann koma ýmsar sögur og ýmis atvik frá átta ára þingreynslu þeirrar sem hér stendur. Það gæti verið gaman að skiptast á svolitlum reynslusögum, nokkrar hafa komið fram í ræðum þingmanna í dag. Sannarlega búa þingmenn yfir mikilli reynslu í þessum efnum og menn hafa ýmsa fjöruna sopið í átökum sem hér hafa farið fram. Það sannast fyrir mér aftur og aftur sem góður vinur minn sagði þegar hann komst að því að ég væri að gefa kost á mér í kosningum til Alþingis en þá sagði hann: „Já, ætlarðu að fara út í pólitík, hún er skrýtin tík þessi pólitík.“ Hún er það vissulega, hæstv. forseti.

Þegar við ræðum um Alþingi Íslendinga, sem er vinnustaður okkar sem hér störfum, staður þar sem við verjum mér liggur við að segja megninu af vökutíma okkar yfir vetrartímann, þá skiptir það okkur verulegu máli hvernig bragur er á öllum vinnubrögðum hér. Alveg á sama hátt og það skiptir okkur öll máli hvernig áferðin er á heimili okkar, hversu vel er þrifið, hversu vel okkur gengur að strauja, hversu vel okkur gengur að hlúa að börnunum okkar og fjölskyldunni, hversu vel okkur gengur að halda reglu á matmálstímum og þannig mætti áfram telja. Reglurnar innan þessara veggja eru okkur öllum jafnmikilvægar og reglurnar heima hjá okkur. Það er eðlilegt að við viljum koma skikki á hluti hér en það er ekki eðlilegt að knýja það skikk fram í gríðarlegum ágreiningi milli manna eða hópa og í þessu tilfelli flokka. Það er ekki góður bragur á því, það er slæmur bragur á því og það kann ekki góðri lukku að stýra um framhaldið. Ekki frekar en að húsbóndinn á heimilinu ráði öllu um heimilisbraginn eða húsmóðirin ráði öllu um það hvernig matmálstímum sé háttað eða hvernig þrifið sé eða straujað. Eins og það er skylda okkar að komast að samkomulagi inni á heimilum okkar um þann brag sem þar á að ríkja er það líka skylda okkar að komast að samkomulagi um þann brag sem hér á að ríkja varðandi vinnubrögð.

Það að hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, skyldi hafa gefist upp í þeirri vinnu að ná sáttum um niðurstöðu eru mér gríðarleg vonbrigði og okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er sá hópur hér innan þings, sá hópur í þessari fjölskyldu sem er ósáttur við það sem er gerast hér. Við teljum að við höfum boðið fram ákveðnar málamiðlunartillögur. Það má vel gera athugasemdir við að þær hafi komið seint fram, við tökum þeirri gagnrýni og bregðumst við henni en það er ekki hægt að halda því fram að við höfum ekki lagt eitthvað til málanna eða komið til móts við þær kröfur sem á okkur stóðu. Mér finnst satt að segja að til þess að standa vörð um fagmennsku í vinnubrögðum hefðu allir hlutaðeigandi og þeir sem stýra hér för átt að reyna til þrautar. Síðast í dag var hæstv. forseta boðið að taka 2. umr. um þetta mál á snörpum og snaggaralegum fundi, á einhverjum umsömdum tíma, en geyma 3. umr. fram að því að þing kæmi saman eftir jól. Því var hafnað. Það eru mér mjög mikil vonbrigði, virðulegi forseti, að þeirri tillögu skyldi hafa verið hafnað í dag. Ég undirstrika það að mér eru það mikil vonbrigði að yfirstjórn þingsins skyldi ekki leggja í örlítið lengri leiðangur eða leggja á sig örlítið meira en hún á endanum var tilbúin til til þess að menn gætu staðið hér sæmilega sáttir og þá meina ég allir hóparnir sem hér starfa. Það er ekki góður bragur á því að beygja þann sem óánægður er undir sitt vald. Það er það ekki og það var óþarfi í þessu máli.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að vinnuaðferðin sem beitt hefur verið eða það vinnuferli sem við höfum farið í gegnum upp á síðkastið lýsir kannski í hnotskurn því sem að er í stjórn þingsins, í stjórn vinnubragðanna. Það er auðvitað allt of oft, finnst mér sem hef starfað í stjórnarandstöðu í átta ár, sem maður lendir í því að þurfa að kvarta undan því hvernig unnið er hér og að það skuli ekki oftar vera leitað eftir samstöðu um vinnubrögð. Mér finnst t.d. afleitt hversu lengi þetta mál var trúnaðarmál. Ég held að ég fari rétt með, þegar ég reyni að rifja það upp, að í fyrsta skipti sem ég sá einhvern pappír um málið var langt liðið á október, sennilega var komið um eða fram yfir mánaðamótin október/nóvember sem ég sá fyrst pappír sem stimplaður var trúnaðarmál. Ég fékk ekki tækifæri til að lesa hann í gegn, mér var kynnt innihaldið og síðan var mér sagt að málið væri enn á trúnaðarstigi milli þingflokksformanna og enn væri verið að reyna að finna leiðir til að leysa úr ágreiningi.

Ég hef líka heyrt að í einhverjum þingflokkum hafi menn ekki fengið að sjá frumvarpið fyrr en tveir dagar voru í að það yrði lagt fram. Það er enginn bragur á þessu og það er ekki eðlilegt að hleypa fólki ekki að í ríkari mæli en gert var í þessu máli. Við buðum það, fyrir tilstilli varaformanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í byrjun nóvember að fá hæstv. forseta Alþingis á þingflokksfund til að ræða atriði þessa máls við allan þingflokkinn en því var hafnað. Mér voru það mikil vonbrigði. Það að forðast að tala við alla hlutaðeigandi kann ekki góðri lukku að stýra, það lýsir ekki tryggri, öruggri eða framsækinni verkstjórn heldur þvert á móti einhvers konar ótta og gefur til kynna einhvers konar stíflur í boðleiðum. Það verður ekki þægilegt vinnuandrúmsloft ef stíflur eru í boðleiðum á milli manna á flóknum vinnustað þar sem menn tala um sín hjartans mál og bera þau á borð aftur og aftur, tala um sína pólitík og reyna að koma henni til skila, ekki bara hér hvert við annað heldur líka út til almennings sem við erum fulltrúar fyrir á löggjafarsamkomunni.

Í hólf og gólf fjalla þingsköp Alþingis um gæði löggjafarstarfs, við erum að fjalla um það hversu vel okkur getur tekist til við að setja lög. Stöndum við vel að vígi í þeim efnum? Erum við stolt af þeirri löggjöf sem við höfum unnið, t.d. á þeim tíma sem er nálægt okkur í tíma, á síðustu 8–10 árum? Umboðsmaður Alþingis segir okkur að við stöndum okkur ekki vel, ég les það út úr skýrslum hans, að við hleypum allt of oft í gegn löggjöf sem meinbugir eru á, eins og umboðsmaður orðar það. Í nýjustu skýrslu umboðsmanns Alþingis kemur fram samantekt sem umboðsmaður gerði á ákveðnu tímabili, þ.e. árabilinu frá 2002–2006, en þá gerði hann ákveðna greiningu á þeim viðfangsefnum sem koma til kasta hans. Greiningin á þeim viðfangsefnum birtist í síðustu skýrslu og hann segir að hún ætti að vera Alþingi ákveðinn leiðarvísir um það hvar þurfi að huga að umbótum í löggjöf sem og við ráðstöfun fjármuna til starfsemi stjórnsýslunnar þannig að hún sé í samræmi við þær ákvarðanir og stefnumörkun sem Alþingi hefur samþykkt eða kýs að stjórnsýslan fylgi í störfum sínum. Þegar þau mál eru skoðuð sem umboðsmaður fékk til umfjöllunar á þessum fimm árum þá sýnir samantektin alls 179 mál og þau voru þess eðlis þegar grannt er skoðað að 23 þeirra varða beinlínis meinbugi á lögum. Það er nokkuð hátt hlutfall, virðulegi forseti. Þótt meiri hluti athugasemda umboðsmanns eða 51,6% hafi beinst að formreglum en ekki efnisreglum, formreglum sem eru þá einkum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, þá beinist samt stórt hlutfall að efnisreglunum og er ástæða, að hans mati, til að staðnæmast sérstaklega við það í skýrslunni hversu hátt hlutfall þessara athugasemda er vegna efnisreglna sem eru innihald laga en þar er um hlutfallið 23,4% að ræða af heildinni.

Ég held að skilaboðin sem umboðsmaður sendir okkur séu afar skýr, ég les það a.m.k. þannig að í allt of mörgum tilfellum sé lagasetning hér á einhvern hátt óljós, ónógar skýringar fylgi í lögskýringargögnum með löggjöfinni og þar fram eftir götunum. Það er sem sagt full þörf á að bæta gæði löggjafarstarfsins. Ég held að við séum öll jafnmikið af vilja gerð til að reyna að átta okkur á hvar skórinn kreppir í þeim efnum en leiðin sem hér er valin er ekki sú vænlegasta til að tryggja gæði löggjafarstarfsins. Það er gríðarlega margt sem hægt er að gera til að bæta gæði löggjafarstarfsins áður en farið er í það að skerða ræðutímann. Satt að segja hefur mér fundist þessi þráhyggja, liggur mér við að segja, hjá ákveðnu fólki sem tengist þessari ræðutímastyttingu þvælast fyrir okkur og gera okkur erfitt fyrir við að tala um kjarna málsins sem er að bæta gæði löggjafarstarfsins.

Ég vil leyfa mér að nefna nokkra hluti sem hægt væri að gera án þess að fara út í að stytta ræðutímann og gætu orðið til þess að bæta gæði löggjafarstarfsins. Ég nefni t.d. seinaganginn hjá ríkisstjórninni við að koma með mál til þingsins, ég held að hvern einasta vetur sem ég hef starfað á þinginu hafi verið kvartað undan því af þingmönnum í stjórn og stjórnarandstöðu að stjórnarfrumvörp komi seint og illa fram og það sé allt of algengt að slík frumvörp komi fram löngu eftir að allir frestir samkvæmt þingskapalögum eru liðnir. Ef ný ríkisstjórn hefði sameinast um að leggja fram stjórnarfrumvörp í tæka tíð til að þau gætu fengið faglega umfjöllum í þingnefndum, þótt ekki hefði verið gert neitt annað en það hefðum við verið að bæta gæði löggjafarstarfsins. Af hverju er fókusinn ekki á því?

Við getum líka talað um vinnuna við fjárlagafrumvarpið, ég er alveg sannfærð um að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur rétt fyrir sér í þeim efnum að bæta þurfi vinnubrögðin varðandi fjárlagafrumvarpið. Hvaða vit er í því að fjárlagafrumvarpið standi hér galopið eins og óútfylltur tékki fyrir ríkisstjórnina í tæpa þrjá mánuði og ríkisstjórnin nýti sér innkomu sína bæði við 2. og 3. umr. með einhverjar breytingar þegar eðlilegra væri að þingið fjallaði um tillögur ríkisstjórnarinnar sem koma fram í frumvarpinu, þ.e. að ríkisstjórnin afhendi þinginu frumvarpið í þeirri bók sem dreift er hér 1. október og síðan sýslaði þingið og eingöngu þingið með þær tillögur sem á eftir kæmu en ekki ríkisstjórnin? Fleiri atriði gæti ég nefnd úr ræðum hv. þm. Gunnars Svavarssonar þar sem hann hefur talið að pottur sé brotinn í þessu starfi, löggjafarstarfinu sem tengist fjárlögunum. Við erum ekki að fjalla um það, við erum heldur ekki að tala um hvernig nefndarfundir fara fram. Við höfum ekki talað mikið um möguleika á opnum nefndarfundum eða strúktúr nefndarfundanna. Það gerist allt of sjaldan á nefndarfundum, eftir að gestir hafa verið kallaðir inn og umsagnir yfirfarnar, að nefndin gefi sér tíma til að fjalla um málið málefnalega og taka púlsinn á því hvar ágreiningur liggi, hvort hann sé þess eðlis að það sé erfitt að leysa hann eða auðvelt. Ég á reyndar ánægjulegar endurminningar úr starfi allsherjarnefndar undir stjórn Bjarna Benediktssonar á síðasta kjörtímabili. Hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði sig mjög fram um það í erfiðum málum að ná öllum að borðinu, finna alla snertifleti og alla ágreiningspunkta líka og lagði sig verulega fram um það, oft á fleiri en einum og fleiri en tveimur fundum þar sem aðeins nefndin sat og reyndi að ná niðurstöðu. Mér fannst vinnubrögð undir hans stjórn á síðasta þingi vera alveg til fyrirmyndar. Hann náði oft góðum árangri þó svo á endanum skildu leiðir í einhverjum ákveðnum tilfellum. Mér finnst nefndirnar allt of sjaldan gefa sér þennan tíma eða vinna á þessum nótum.

Þarna eru ákveðin atriði sem stendur upp á okkur öll að lagfæra og við getum svo auðveldlega gert. En við erum ekki að tala um það, nei, við erum bara að tala um styttingu á ræðutíma. Það er þessi þráhyggjutilhneiging að því er virðist að festa sig bara í því að ræða um ræðutímann. Við höfum nefnt það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það væri kannski eðlilegt að gera stjórnsýsluúttekt á þinginu, á störfum þingsins. Ég teldi það afskaplega skynsamlega lausn og að við mundum fá talsverðar upplýsingar í gegnum slíkt. En við erum ekki að tala um það, nei, við erum bara að tala um styttingu á ræðutíma.

Hæstv. forseti. Ég held því líka fram að þarfagreiningunni hafi verið ábótavant hér, þ.e. á hverju væri helst þörf og hverju væri helst þörf á að breyta. Engin slík þarfagreining lá fyrir þegar þetta frumvarp var samið. Mér er til efs að allsherjarnefnd hafi farið ofan í t.d. mjög efnismiklar ritgerðir sem starfsmenn þingsins hafa verið að gera í námi sínu meðfram vinnu. Ég nefni efnismikla ritgerð um fjárlagagerð, sem einn af starfsmönnum þingsins gerði fyrir tveimur, þremur árum, kannski fjórum. Ég minnist annarrar ritgerðar sem fjallaði um ánægju þingmanna með störf starfsmanna þingsins, rekstrarskrifstofu og þjónustuþátta þingsins. Ég minnist líka nýlegrar ritgerðar sem einn af starfsmönnum okkar gerði varðandi upplýsingasviðið og hlutverk upplýsingasviðs í löggjafarsamkundum, ekki bara á Íslandi heldur víðar í nágrannalöndum okkar. Allar eru þessar úttektir afar efnismiklar og hefðu getað auðgað mjög opna umræðu um það hvar skórinn kreppir og hvar við ættum að bera niður í breytingum til að lagfæra gæði löggjafarstarfsins og bæta það.

Ég get líka nefnt hvernig dagskrárliðirnir Umræður utan dagskrár og Athugasemdir um störf þingsins hafa þróast. Ég held að við gætum bætt okkur talsvert þar. Ég teldi að við gætum skapað mjög fjörugar og skemmtilegar utandagskrárumræður ef við hefðum þær nógu oft og nógu margar og við fleyguðum hér fundi iðulega með utandagskrárumræðum. Eins og greinin er í þingskapalögunum um utandagskrárumræður er beinlínis gert ráð fyrir því að þar komi skyndilega inn beiðnir frá þingmönnum um umræður utan dagskrár um einhver atriði sem ekki þola að bíða eftir að verða sett á dagskrá þingsins. Talað er um tvo klukkutíma, ef ég man rétt, sem frest til að koma slíkri umræðu á og ekkert endilega að ráðherrar séu alltaf viðstaddir. Við getum búið til alls kyns varíanta út frá þeim þingskapalögum sem við búum við í dag varðandi utandagskrárumræðurnar og fengið þetta snarpa samtal sem okkur finnst skemmtilegt í þingsal. Stundum tökumst við á um mál sem er mjög erfitt eðli málsins samkvæmt að taka snarpar og snöggar umræður um og allt í stuttum 5 mínútna ræðum. Við erum kannski, eins og ég sagði áðan, að koma okkar hjartans málum á framfæri, miklum rökstuðningi eftir ítarlega skoðun á flóknum málum. Það eru mál sem eru ekki til þess fallin að taka snarpar umræður um eða sem hentar að gera í 5 mínútna ræðum. Ég held að við höfum lokað augunum fyrir því að hér þurfi að vera fjölbreytilegar umræður, við höfum ýmsar leiðir í núgildandi þingskapalögum til að praktísera alls kyns fjölbreytni. Til þess þurfum við að tala saman og til þess þurfum við að láta af styttingu ræðutímaþráhyggjunnar.

Ég hef nefnt hér nokkuð margar leiðir sem ég hefði talið að væru færar til þess að gera umræður hér öðruvísi og skilvirkari en þær eru í dag. Ég lýsi því yfir að til þess hefur verið vilji hjá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ef menn hefðu ekki fest sig svona mikið í þessari einu kröfu um styttingu ræðutímans hefði verið hægt að skapa ýmislegt sem ekki hefur verið hægt vegna þeirrar einstefnu sem ríkt hefur.

Mig langar til að gera hér örstutt að umræðuefni, hæstv. forseti, hugtakið málþóf. Ég varð sjálf fyrir því að fá tilvitnun í fyrirsögn í Fréttablaðinu í eitthvað sem ég hafði sagt við blaðamann um málþófið, ég man ekki fyrirsögnina nákvæmlega en hún var eitthvað á þá leið að ég vildi halda í réttinn til málþófs. Ég fékk athugasemdir um hvort ég teldi að ég hefði verið nógu gáfuleg í formúleringum þarna. Þegar grannt er skoðað og dýpra hugsað er svar mitt við þeirri spurningu já, ég held að ég hafi bara verið nokkuð gáfuleg. Ég fékk staðfestingu á því þegar ég las leiðara Fréttablaðsins á föstudaginn var, skrifaðan af Svanborgu Sigmarsdóttur þar sem hún fjallar um breytingar á þingsköpum Alþingis og fyrirsögn hennar í þessum leiðara er Málþóf er tæki til virks aðhalds. Svanborg færði mér heim sanninn um að ég hefði haft rétt fyrir mér í því að vilja halda í réttinn til málþófs. Ég held því nefnilega fram að hugtakið málþóf hafi verið notað yfir ranga hluti í þessum þingsal og í umræðu í fjölmiðlum. Orðið málþóf hafi verið notað yfir hluti sem eru í mínum huga efnismikil rökræða en málþóf er að skilningi Svanborgar Sigmarsdóttur eftirfarandi svo ég vitni til leiðarans í Fréttablaðinu á föstudaginn var en þar segir Svanborg, með leyfi forseta:

„Með öðrum orðum á að útiloka málþóf frá Alþingi og takmarka þannig réttmætt tæki stjórnarandstöðu til að sinna hlutverki sínu þegar henni finnst meiri hluti þings, eða ríkisstjórn, fara offari.

Málþóf er eitt helsta vopn stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórninni, enda lítill munur á meiri hluta Alþingis og ríkisstjórn hér á landi. Eins og þingmenn Vinstri grænna hafa réttilega bent á þarf lítil stjórnarandstaða nú enn fremur á því að halda að hafa einhver vopn.“

Hún heldur áfram, með leyfi forseta:

„Fulltrúar meiri hlutans hafa blásið á gagnrýni Vinstri grænna, meðal annars með þeim rökum að málþófsræður séu svo leiðinlegar eða lítið upplýsandi. Í þessu felst reginmisskilningur á eðli málþófs, eða hótana um málþóf. Það er ekki tilgangur málþófs, hvorki hérlendis né á erlendum þingum að standa í rökræðu. Tilgangurinn er að nota eitt af fáum vopnum sem stjórnarandstaðan hefur til að fá meiri hlutann til að gera breytingar á umdeildum lögum, eða jafnvel að draga frumvörp til baka. Langar ræður og málþóf eru ekki vísbending um að alþingismenn séu ekki starfi sínu vaxnir, heldur einmitt að þingmennirnir séu að nota þá kosti sem lýðræðið býður upp á til að standa í fæturna þegar nauðsyn krefur.“

Hæstv. forseti. Mér líkar þessi tilvitnun. Mér líkar þessi hugsun hjá blaðamanninum. Hún hljómar við þá hugsun sem er innra með mér og við höfum nefnt, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð, að í örfáum tilfellum á síðustu árum hefur málþófið einmitt skilað árangri og við höfum nefnt lagasetningu um Ríkisútvarp og vatnalögin. Sömu tvö dæmi nefnir blaðamaðurinn Svanborg Sigmarsdóttir í leiðara sínum og niðurlag leiðarans hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skiljanlegt að þingmenn vilji nútímavæða störf þingsins, meðal annars með því að takmarka kvöld- og næturfundi. En þægindi þingmanna eiga ekki að koma niður á lýðræði. Gott lýðræði snýst ekki bara um að verða við vilja meiri hlutans, heldur einnig að leyfa fjölbreytileika skoðana og aðhald með þeim sem valdið hafa. Með skynsamlegri notkun á málþófi eða hótunum um málþóf er hægt að veita meiri hluta Alþingis virkt aðhald.“

Svo mörg voru þau orð blaðamannsins Svanborgar Sigmarsdóttur, hæstv. forseti. Mér finnst hún hafa mikið til síns máls og mér finnst starfsmenn Alþingis hafa það líka í umsögn sem þeir sendu allsherjarnefnd. Þeir fjalla ekki um málþófið sem tæki. Þeir fjalla miklu frekar um hugmyndafræðina sem liggur að baki því frumvarpi sem hér um ræðir og þeim aðferðum sem beitt var við vinnsluna. Mér finnst mjög alvarlegt, hæstv. forseti, þegar við fáum að heyra það frá Félagi starfsmanna Alþingis að ekkert samráð hafi verið haft við félagið og þau efist um að markmið frumvarpsins náist með þeim aðferðum sem þar eru tíundaðar. Mér finnst þetta vera rödd sem við eigum að hlusta á. Við erum mjög fús til að þakka starfsmönnum Alþingis fyrir afskaplega óeigingjarnt starf og við gerum það iðulega í ræðum og alltaf í lok hvers þings. Fjárlaganefnd og nefndarmenn þakka starfsmönnum þingsins við lok fjárlagavinnu á hverju einasta ári og við erum öll afar þakklát mjög fórnfúsu starfi starfsmanna Alþingis. Við áttum okkur auðvitað á því að þau vinna undir alveg sama vinnuálagi og við og kannski meira vinnuálagi því að þau gáfu aldrei kost á sér til starfa í pólitík. Það gerðum við. Við fórum að starfa í stjórnmálaflokkum og gáfum kost á okkur í kosningum og fengum fylgi kjósenda til að standa hér á löggjafarsamkundunni og vinna þau störf sem við erum að vinna. Svo ræður Alþingi, stofnunin Alþingi, til sín starfsfólk og mér finnst dapurlegt að finna það á starfsmönnum Alþingis að samráðið við þá við breytingar á reglunum sem hér er unnið eftir sé ekkert. Mér finnst það einn af þeim þáttum sem er dapurlegur í þessu máli og í vinnubrögðunum við það. Mér finnst það mjög alvarlegt og mér finnst það fara gegn því sem við í sjálfu sér höfum praktíserað hér, að sýna þakklæti og virðingu því fólki sem starfar hér.

Ég hefði haft gaman af að heyra hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, fara yfir þessa umsögn frá Félagi starfsmanna Alþingis og fá að heyra hvernig umræðan í nefndinni var um þau atriði sem starfsmennirnir benda okkur á í mikilli vinsemd og af mikilli fagmennsku, því að mér finnst umsögnin afar hógvær og mjög málefnaleg og rétt. Mér finnst það t.d. rétt ábending þegar starfsmennirnir segja að markmiðin með frumvarpinu hefðu þurft að vera mælanlegri þannig að hægt væri að meta á hlutlægan hátt hvort þau náist. Ég hefði vilja heyra hvaða umræða fór fram um þetta atriði í allsherjarnefnd.

Mér finnst líka athyglisvert að starfsmenn skulu segja að í frumvarpinu sé engin trygging fyrir því að vinnutíminn verði mannsæmandi eða fjölskylduvænni. Mér finnst athyglisvert að starfsmenn skulu benda á það. Það er reyndar samhljóma við það sem við höfum bent á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Síðan benda starfsmennirnir á sumarorlofstímabilið og ákveðin vandkvæði sem kæmu upp fyrirsjáanlega að þeirra mati og ég dreg ekki í efa að þeir hafi rétta sýn til þess máls. Ég sé því ekki fram á annað en að við séum að kalla yfir okkur erfiðleika, a.m.k. ef við ætlum að búa við þann starfsmannafjölda sem við búum við í dag. Verði þessi leið farin og reynslan verður sú sem starfsmenn Alþingis benda á í umsögn sinni þá erum við að tala um að fjölga þurfi starfsmönnum umtalsvert ef við ætlum ekki að auka óheyrilega álagið á þá starfsmenn sem eru.

Það mætti líka nefna atriði sem starfsmennirnir benda á í umsögn sinni, t.d. er varða stór og flókin mál þar sem gera þarf margar og flóknar breytingartillögur þá er talað um að nauðsynlegt sé að nefndir gefi starfsmönnum Alþingis þann tíma sem þörf er á til að undirbúa t.d. stöðuskjöl sem við höfum iðulega kallað eftir í slíkum málum. 5. gr. í frumvarpsins kveður á um það að þingmaður eða ráðherra geti óskað þess að mál gangi aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og það ákvæði gæti kallað fram gríðarlega vinnu vegna þess að það þurfi að búa til ný stöðuskjöl eða fara í pappírsvinnu sem tekur tíma. og Við þurfum að átta okkur á því að þetta ferli muni taka meiri tíma og það þurfi að gefa starfsfólki eðlilegt svigrúm til að ganga frá málunum. Hér kunna að vera innbyggðir ákveðnir hlutir í frumvarpinu sjálfu sem ekki eru til þess fallnir að flýta fyrir eða hraða færibandinu, hraða vinnslunni. Ég held að við séum að gleyma því að fara ofan í saumana á þessum atriðum sem starfsfólk Alþingis bendir okkur á. Einnig get ég nefnt atriði sem starfsmannafélagið bendir okkur á og leggur mikla áherslu á að starfsmenn séu hafðir með í ráðum við þá endurskoðun sem fara eigi fram innan þriggja ára, úr því að ekki var haft samráð við starfsmennina í þessari lotu þá biðja þau engu að síður náðarsamlegast um að það verði gert að þremur árum liðnum þegar bráðabirgðaákvæðið gengur í garð og endurskoðun kemur til með að fara fram. Að lokum hefur starfsmannafélagið efasemdir um að sú útfærsla sem er í frumvarpinu um að pólitískir aðstoðarmenn þingmanna og formanna stjórnarandstöðuflokkanna eigi að vera starfsmenn skrifstofu Alþingis gangi upp. Mér finnst það líka réttmæt ábending sem ég hefði haldið að við þyrftum að fara betur ofan í saumana á en gefinn er tími til hér.

Hæstv. forseti. Megininntakið í ræðu minni hefur verið það að hér hafi verið beitt vinnubrögðum sem ekki var þörf á að beita. Það var ekkert sem knúði yfirstjórn þingsins til að beita þeim vinnubrögðum sem beitt var. Við hefðum getað gert mjög mikið af róttækum breytingum sem hefðu bætt löggjafarstarfið án þess að fara í styttinguna á ræðutímanum. Mér þykir mjög miður að það hafi ekki verið gert og að ekki hafi verið reynt til þrautar að fá alla sátta á síðustu dögum þingsins rétt fyrir jól. Tækifærin voru við hvert fótmál en það var gengið yfir þau og mér þykir það mjög miður. Með þeim orðum lýk ég máli mínu, hæstv. forseti.