135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:28]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég á einhvern hátt misskilið málflutning Vinstri grænna í þessu máli þykir mér það leitt og bið afsökunar á því. Hins vegar hefur mér þótt málflutningur þeirra vera í þá veru að best væri að hafa takmarkanirnar sem minnstar, a.m.k. var málflutningurinn lengi vel á þá leið að ekki ætti að vera um neinar takmarkanir að ræða í 2. umr. og það væri afskaplega mikilvægt.

Það kann að vera að ég hafi ekki hlýtt nægilega vel á mál hv. þingmanns en mér fannst hún tala um þetta tvennt í sömu andrá, annars vegar gæði lagasetningar og hins vegar þann mikilvæga rétt að hafa uppi langar umræður a.m.k. við 2. umr. ef ekki þá 3. Þannig skildi ég málflutninginn. Ég lagði áherslu á það í máli mínu áðan að ég teldi að það væru aðrir þættir í frumvarpinu sem skiptu miklu meira máli um gæði lagasetningar en ræðutíminn sem slíkur.

Loks verð ég að geta þess, enda þótt Vinstri grænir hafi talað um þær breytingar sem boðaðar hafa verið á starfsaðstöðu þingmanna eins og þær væru fremur léttvægar, að þessar þingskapabreytingar eru ekki einstök aðgerð heldur eru þær hugsaðar í ákveðnu samhengi við það að bæta starfsaðstöðu þingmanna og mér finnst óviðeigandi að tala um það sem verslunarvöru eða hrossakaup eða hvernig menn hafa orðað það. Það er alveg ljóst að þeir sem að frumvarpinu standa eru jafnframt fúsir til þess og hafa fullan vilja til þess að bæta starfsaðstöðu þingmanna og þegar hafa verið boðuð ákveðin skref í þeim efnum. Hins vegar eru þetta ekki endanleg skref og í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því er boðað að þarna sé aðeins um að ræða áfanga á leið.