135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Nú er langt liðið á kvöld og við fjöllum í þessari umræðu um frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis. Fyrr í dag fór fram stutt umræða um störf þingsins um það hvernig þetta mál bar allt að og hvernig það var sett á dagskrá. Við höfðum gert athugasemdir við það, þingmenn Vinstri grænna, hve skammur tími hafði verið gefinn frá því að málið var tekið út úr hv. allsherjarnefnd og þar til það var komið hér á dagskrá miðað við það að ætlast var til að við lykjum vinnu við nefndarálit og þær breytingartillögur sem við höfðum kynnt í nefndinni og að starfsfólki þingsins gæfist ráðrúm til að ljúka vinnu við þær og koma þeim í dreifingu í þingsal.

Í umræðunni fyrr í dag sagði ég að ég harmaði það mjög með hvaða hætti þetta mál er komið á dagskrá og til umræðu í þinginu. Það er ekki vegna þess að ég vilji ekki ræða um frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum heldur harma ég að ekki skuli vera fullkomin samstaða um það meðal þeirra stjórnmálaflokka sem starfa á hinu háa Alþingi. Það er vegna þess að við fjöllum hér um grundvallarsamskiptareglur, grundvallarreglur um það hvernig störf ganga fyrir sig í þinginu. Ég tel afskaplega þýðingarmikið að um slíkar grundvallarleikreglur sé góð samstaða og sátt burt séð frá því að menn takist á um stjórnmál og efnisinnihald þeirra tillagna sem hingað koma í formi lagafrumvarpa, þingsályktunartillagna eða í öðru formi, vegna þess að það er eðlilegur hluti af stjórnmálaumræðunni, af stjórnmálalífinu að tekist sé á um slíka hluti. En það er vont ef menn vinna ekki eftir leikreglum sem allir eru þokkalega ásáttir við að gildi.

Sagt hefur verið í umræðunni og hér á göngum þegar þessi mál hefur borið á góma — því að þessi mál hafa vissulega verið mikið til umræðu og ekkert minna á göngunum og í kaffistofu en í þingsal — að ekki sé eðlilegt að níu manna þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi eitthvert úrslitavald um það hvernig þessum málum er háttað þegar 54 þingmenn annarra flokka séu væntanlega á annarri skoðun. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að meiri hlutinn ráði að lokum en hér erum við, eins og ég sagði áðan, að fjalla um þær leikreglur sem við ætlum að vinna eftir og afstaða mín er sú að þá sé ákaflega þýðingarmikið að allir geti skrifað upp á leikreglurnar og ekki sé skynsamlegt að meiri hlutinn, jafnvel þó að hann sé 54 þingmenn, taki ákvörðun sem hluti þingsins er ekki sáttur við. Mér finnst það skipta máli fyrir þingið sjálft þegar hluti þess er ekki sáttur við þær leikreglur sem þar gilda og það skiptir engu máli í mínum huga hvaða hluti það er. Mér finnst að í því tilliti eigi menn að leggja mjög hart að sér við að ná sameiginlegri niðurstöðu og teygja sig langt. Við í þingflokki Vinstri grænna höfum verið reiðubúin til að teygja okkur langt og þær hugmyndir og tillögur sem við höfum sett fram í þessu efni hafa aldrei verið settar fram sem úrslitakostir, aldrei, það hefur ævinlega komið fram. Við höfum alltaf verið opin fyrir því að aðrir kæmu á móti og segðu: Við skulum ræða þennan hlut eða þennan hlut.

Ég innti hv. þm. Siv Friðleifsdóttur eftir því fyrr í kvöld eftir ræðu hennar hvort henni hugnaðist eitthvað í þeim tillögum sem við hefðum sett fram og bað hana þá að horfa fram hjá ákveðnum ræðutíma, sem hefur verið sérstakt deilumál, vegna þess að ég held að í þeim tillögum sé margt sem þessi 54 þingmanna meiri hluti, sem þegar er farið að tala um hér, getur skrifað upp á. Þá veltir maður því fyrir sér líka hvort komið hefði til álita að reyna að sáttum um aðra hluti og leyfa ágreiningnum um ræðutímann að koma fram við atkvæðagreiðslu jafnvel þótt menn reyndu að leysa aðra hluti í sátt og samlyndi, leyfa ræðutímaágreiningnum að birtast hér. Hefði það skaðað málið?

Annar hlutur í þessu er hraðinn. Sumir segja að þetta mál sé búið að vera í gerjun hér í mörg, mörg ár og þess vegna hafi verið orðið tímabært að afgreiða það. Ég var kjörinn til þings í vor, ég hef aldrei komið að umræðu um þetta mál fyrr. Óvenjumargir nýir þingmenn voru kjörnir til setu á Alþingi í vor, frú forseti, 24 af 63, ef ég man rétt. Þeir hafa aldrei komið að umræðu um þetta mál á fyrri stigum og því er að sjálfsögðu tómt mál að tala um það í þessu samhengi frá mínum bæjardyrum séð, heldur þarf að miða við þann tíma sem við höfum haft til að ræða málið núna. Upplýst hefur verið að forseti Alþingis kynnti hugmyndir sínar fyrir þingflokksformönnum og í forsætisnefnd á haustdögum og þær voru þá meira og minna fullmótaðar og ekki gefið mikið svigrúm til að koma með nýja vinkla inn í þá hugmyndafræði sem þar lá að baki.

Ég tel að byrja hefði átt á því að fulltrúar allra flokka settust niður í einhvers konar nefndarstarfi, hvort sem það væri í forsætisnefnd eða í samstarfi forseta með þingflokksformönnum, í sérnefnd eða hvernig sem það hefði verkað, menn hefðu komið að auðu borði, allir aðilar máls hefðu getað komið og sagt: Hvað teljum við að lagfæra þurfi í þingsköpunum, hvað þarf að laga í starfinu og umgjörðinni utan um starfið á Alþingi? Þannig hefðu menn unnið sig áfram og að lokum hefði orðið til einhver afurð, frumvarp til nýrra þingskapalaga, samkomulag um breytta starfshætti, bætta aðstöðu stjórnarandstöðu sem mikið hefur verið rædd í þessu samhengi og mér heyrist flestir tala um að sé mikilvæg. En ég fæ ekki séð að mikil eða stór skref séu stigin í þá átt í því frumvarpi sem meiri hlutinn leggur hér fram, því miður. Ég heyri líka sagt úr herbúðum þeirra, í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mál, að verið sé að koma mjög mikið til móts við stjórnarandstöðuna og bæta aðstöðu hennar og verið sé að koma mjög mikið til móts við sjónarmið Vinstri grænna í þessu samhengi og menn hafi ekki verið reiðubúnir til að teygja sig lengra.

Gott og vel. Þarna erum við ekki öll á einu máli en ég tel og ég er sannfærður um að með lengri tíma, með lengri umþóttunartíma hefði verið hægt að ná góðu samkomulagi ef vilji hefði verið til staðar. Ég hef sjálfur talsvert langa reynslu af því að starfa í stjórnmálum, þó ekki á vettvangi Alþingis en sem borgarfulltrúi í Reykjavík í 13 ár, m.a. gegndi ég þar starfi formanns borgarstjórnarflokks Reykjavíkurlistans og var forseti borgarstjórnar. Ég hef átt þátt í að endurskipuleggja starf borgarstjórnar, m.a. við að takmarka ræðutíma sem er í fyrstu umræðu þar 30 mínútur og síðan 10 mínútur. Þar voru líka gerðar miklar breytingar á starfsháttum borgarstjórnar og starfsaðstæðum borgarfulltrúa sem ég beitti mér sérstaklega fyrir í samstöðu allra flokka. Raunar var það svo þegar ég var forseti borgarstjórnar að félögum mínum í meiri hlutanum blöskraði stundum hvað ég hlustaði mikið á minni hlutann, sem þá var Sjálfstæðisflokkurinn. Mér fannst mikilvægt að hafa ekki síst minni hlutann með í ráðum þegar verið var að fjalla um allt sem lýtur að starfsumhverfi þannig að enginn gæti fyllst tortryggni eða fengið það á tilfinninguna að meiri hlutinn ætlaði að valta yfir minni hlutann í slíkum málum.

Reyndar gerðist það síðan að ég var fyrstur manna í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur kjörinn forseti með öllum atkvæðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn og F-listinn ákváðu að styðja mig í því starfi eftir að við höfðum gengið í gegnum svona ferli þar sem allir flokkar voru kallaðir að. Það var gríðarlega tímafrekt, því ætla ég ekki að leyna, að efna til svo mikils samráðs sem það hafði í för með sér. En ég er sannfærður um að maður uppskar eins og maður hafði sáð til. Þetta var ég að reyna að benda forseta Alþingis á við 1. umr. um þetta mál, að menn þurfa að leggja verulega mikið á sig og það hvílir mjög mikið á þeim sem valinn er til æðstu metorða, ef svo má segja, á vettvangi kjörinna fulltrúa. Hér er það forseti Alþingis. Mér þykir leitt að forseti Alþingis skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu en vonandi er hann einhvers staðar í húsi og heyrir það sem hér fer fram.

Ég upplýsti það við 1. umr. að ég hefði ljáð núverandi forseta Alþingis atkvæði mitt í kosningu sem þó var leynileg þegar forseti Alþingis var kjörinn. Það voru nokkrir þingmenn úr mínum þingflokki sem gerðu það, m.a. ég, vegna þess að ég vildi gjarnan setja traust mitt á þann sem stjórnarmeirihlutinn hafði tilnefnt sem forseta. Ég vildi gjarnan að hann nyti trausts fyrir fram og það yrði þá að koma í ljós hvort hann stæði undir því trausti.

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það að ef sú staða kæmi nú upp á nýjan leik að það ætti að kjósa hér forseta Alþingis, þá er ég ekki sannfærður um að ég mundi greiða atkvæði með sama hætti með þeim einstaklingi sem núna gegnir þessu ábyrgðarmikla starfi vegna þess að ég er sjálfur persónulega ósáttur við það hvernig að undirbúningi þessa máls hefur verið staðið og mér finnst forseti ekki hafa lagt sig nægilega mikið fram. Ekki heldur eftir að honum átti að vera orðið fullkomlega ljóst að af hálfu okkar vinstri grænna var ríkur vilji til þess að skapa breiða samstöðu og koma til móts við sjónarmið annarra aðila í þessu tilliti.

Af því hér er verið að ræða um undirbúninginn, þá vil ég vekja máls á því að forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis hafa í sameiningu gefið út skjal, plagg sem heitir Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, skrifar inngang að þessu plaggi þar sem segir í upphafi, með leyfi forseta:

„„Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða,“ er haft eftir Njáli Þorgeirssyni í Njáls sögu. Það má til sanns vegar færa að lögin skapa umgjörðina um samfélag okkar og mikilvægt er að hún sé sem einföldust og skýrust og leggi ekki óþarfa hömlur á athafnafrelsi borgaranna.“

Í þessari handbók er áfram fjallað um það hvernig við tryggjum góða og vandaða lagasetningu. Hvernig ríkisstjórnin þarf að standa að málum til þess að þau frumvörp sem hún leggur fram hér á Alþingi séu sem skýrust og vönduðust til þess að auðvelda Alþingi störf sín og til þess að koma í veg fyrir eða draga úr hættum á mistökum sem því miður gerast í lagasetningu hér á Íslandi og umboðsmaður Alþingis, sem við vorum nú að kjósa á ný, endurkjósa hér í dag, hefur bent á.

Það hefði kannski ekki verið úr vegi að hv. allsherjarnefnd hefði fengið umboðsmann Alþingis á sinn fund til að ræða einmitt þetta atriði. En það mun ekki hafa verið gert. (Gripið fram í.) Um það mál er ég ósammála þingmanninum. Það er alltaf gott og hollt að leita í reynslubrunn annarra, (Gripið fram í.) allra, m.a. umboðsmanns Alþingis.

Í handbókinni er farið yfir það hvernig undirbúningi lagafrumvarpa er best háttað og þó að hér sé verið að fjalla fyrst og fremst um stjórnarfrumvörp þá er þessi handbók gefin út einnig af skrifstofu Alþingis. Maður hlýtur að reikna með því að Alþingi sjálft vilji viðhafa jafnvönduð vinnubrögð og ætlast er til að ráðuneytin viðhafi.

Hér er það rakið hversu mikilvægt er að efna til samráðs í undirbúningsferli frumvarpa, samráðs af ýmsum toga, óformlegs samráðs við hagsmunaaðila, sérfróða aðila, jafnvel áður en tillaga verður lögð fram. Hér er lögð áhersla á hversu mikilvægt það er að skilgreina hvað það er sem menn ætla að ná fram með lagafrumvarpi. Er lagafrumvarp nauðsynlegt? Hvað er það sem menn ætla að ná fram? Það á sem sagt að leggja mat á slíka hluti og jafnvel skilgreina einhverja valkosti sem hægt er að fara til að ná þeim markmiðum sem menn setja sér áður en lagafrumvarpið sjálft verður til. Þetta er að mínu mati dæmi um vönduð vinnubrögð sem á að viðhafa við samningu frumvarpa og að mínu mati hefði átt að beita slíkri aðferð við samningu þess frumvarps sem við erum hér að ræða, þ.e. um breytingu á þingsköpum.

Hér hefði verið hægt að leita eftir viðhorfum sérfróðra aðila, eins og þegar hefur verið bent á í umræðunni. Hér hefði verið hægt að leita eftir viðhorfum Félags starfsmanna Alþingis en það var ekki gert. Félag starfsmanna Alþingis taldi sig engu að síður knúið til senda allsherjarnefnd, óumbeðið, umsögn um málið. Enda varðar það hagsmuni félagsmanna í Félagi starfsmanna Alþingis verulega, eðlilega. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur rakið efnisatriðin í umsögn starfsmanna Alþingis.

Mér finnst í raun og veru dapurlegt að meiri hlutinn hér á Alþingi og allsherjarnefndin hafi ekki látið svo lítið að líta á þá umsögn eða fá fulltrúa starfsmanna á sinn fund til að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram eða taka að einhverju leyti tillit til þeirra. Það er í engu gert eftir því sem ég fæ best séð.

Varðandi vinnubrögðin þá vil ég líka segja að það kom fram í umræðunni í dag, m.a. í máli hv. þm. Jóns Magnússonar, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki lagt fram neinar tillögur í þessu máli. Við mótmæltum því hér fyrr í dag og sögðum það ekki rétt og aðrir þingmenn, m.a. hv. formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri staðfestu það sem við sögðum í þeirri umræðu, að við hefðum að sjálfsögðu lagt fram tillögur. Mér finnst að hv. þingmaður Jón Magnússon ætti að koma hér og biðja okkur afsökunar á þessari fullyrðingu í ræðu sinni hér á eftir vegna þess að hún er röng.

Varðandi markmið lagafrumvarpsins sem hér liggur fyrir þá held ég að við getum flest ef ekki öll tekið undir þau. Það er mikilvægt að bæta störfin hér á Alþingi og það hljóta menn í sjálfu sér alltaf að gera hvar sem þeir starfa, að reyna að gera betur en þeir eru að gera á hverjum tíma. Hér er talað um þau meginmarkmið að lengja reglulegan starfstíma Alþingis. Ég tel að það sé löngu tímabært að gera það og hefði helst viljað gera það með þeim hætti að Alþingi kæmi saman 1. september en ekki 1. október eins og hér er lagt til. Hér er farin sú leið að gera ráð fyrir haustþingi, kannski tveimur til þremur vikum í september, en ég hefði talið betra að þingið hæfist hreinlega 1. september og að fjárlagafrumvarp væri tilbúið á þeim tíma. Það yrði meðal annars til þess að betri tími gæfist til vinnu við fjárlagafrumvarp því það er m.a. það sem menn kvarta yfir. Hér er talað um að efla eftirlitshlutverk þingsins. Það er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið og ekki síst er það nú verkefni stjórnarandstöðunnar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi finnst mér skipta máli hvaða viðhorf stjórnarandstaðan á hverjum tíma hefur. Því miður er það svo í þessu máli að stjórnarandstaðan er ekki einhuga. Ég segi því miður. Mér finnst það mjög miður að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ekki náð að vera samstiga í afstöðu sinni í þessu máli.

Það er miður — ekki endilega út af þessu máli sérstaklega, látum það nú vera, það er miður upp á allt framhald, samstarf stjórnarandstöðunnar í öllum öðrum málum sem hún þarf að eiga samstarf um, stór og smá, efnisleg og tæknileg. Þess vegna er þetta mjög bagalegt að mínum dómi. Ekki síst finnst mér það bagalegt þegar leiðir stjórnarandstöðuflokkanna liggja ekki saman, eins og í þessu máli, að þá skuli ekki einu sinni vera skilningur á því í þeim röðum að reyna að koma til móts við okkar sjónarmið sem voru sérstök í þessu máli.

Í þriðja lagi er hér í markmiðsgrein talað um að draga úr kvöld- og næturfundum. Ég tel líka að það sé jákvætt. En því miður þá fæ ég ekki séð að þetta frumvarp geri það. Sömu skoðun hefur Félag starfsmanna Alþingis í sinni umsögn. Þar segir að það sé engin trygging fyrir því í þessu frumvarpi að það muni draga úr kvöld- og næturfundum. Þess vegna höfum við gagnrýnt það sem frumvarpið býður upp á í því efni.

Það er talað um að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefnda. Ég tel það jákvætt að gera umræður markvissari og styttri en verið hefur með nýjum reglum um ræðutíma. Það er kannski það sem hefur verið ágreiningur um, það er ræðutíminn.

Í þeim reglum sem gilda í dag er ótakmarkaður ræðutími í 2. og 3. umferð um lagafrumvörp og í síðari umræðu um þingsályktunartillögur en nú verður farið niður í takmarkaðan ræðutíma. Við höfum sagt að við erum reiðubúin til þess að styðja það að ræðutími verði takmarkaður. Það út af fyrir sig er að sjálfsögðu mjög stórt skref burt séð frá því hvar menn setja viðmiðið varðandi ræðutímann og mér finnst satt að segja þegar menn eru að taka svo stór skref og geta náð saman um það prinsipp út af fyrir sig, þá sé það nánast fáfengilegt að deilan skuli standa um einhverjar mínútur til eða frá. Því það er það sem upp úr þessu máli stendur, að menn skuli ekki vilja gefa sér allan þann tíma sem þarf til að ná niðurstöðu þar um.

Nú er lagt til að umræðutími í 2. umr. um lagafrumvörp verði 20 mínútur, við nefndum 40 mínútur í tillögum okkar. Kannski hefðum við getað mæst þar á miðri leið, hver veit? En á það var ekki látið reyna til neinnar þrautar að mínu viti og mér finnst það fáfengilegt.

Varðandi þær tillögur sem við höfum lagt hér fram, þá hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon farið mjög ítarlega yfir þær og gert þeim góð skil og ég ætla ekki að eyða tíma í að endurtaka það sem þar kom fram.

Ég vil aðeins segja í lokin, frú forseti, að það er talað mikið um virðingu Alþingis og ásýnd Alþingis út á við og að það sé mikilvægt að bæta hana. Í því samhengi er vísað til þess að í skoðanakönnunum hafi oft komið fram að Alþingi nyti ekki nægilegrar virðingar meðal þjóðarinnar í samanburði við ýmsar aðrar stofnanir. Vitaskuld er það mjög bagalegt.

En mér finnst líka mikil einföldun að halda því fram eða trúa því að þar sé fyrst og fremst um það að ræða að það sé ótakmarkaður ræðutími við tilteknar umræður um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur vegna þess að staðreyndin er sú að langar ræður eru undantekning en ekki regla.

Ég held að það sé ekkert síður ýmislegt annað sem háir Alþingi í þessu samhengi, m.a. þetta sem ég hef þegar nefnt, að löggjöf sé oft ábótavant, að vinnubrögð séu óvönduð. Það eru oft miklar lotur hér fyrir jól og á vorin, ekki síst vegna þess að þingmál koma seint inn frá ríkisstjórninni og það er hún sem knýr á um að afgreiða mál fyrir tilteknar dagsetningar. Það á ekki við um þingmannafrumvörp. Það er ekki látið svona með þingmannafrumvörp að það þurfi að koma þeim út fyrir jólahlé eða fyrir sumarleyfi. Þau eru bara látin bíða.

En það eru stjórnarfrumvörpin sem lögð er áhersla á að koma í gegnum afgreiðslu Alþingis fyrir tilteknar dagsetningar. Þá verður til tímapressa. Þá verða oft langir fundir á kvöldin og fram á nætur vegna þess að það er verið að knýja í gegn frumvörp sem því miður koma oft og allt of oft seint fram. Síðan er oft minna að gera, bæði í þingnefndum og hjá starfsfólki Alþingis strax fyrst á haustin, reikna ég með, ég veit a.m.k. hvernig það er í þingnefndum.

Ég held því að þetta hafi mikið að segja varðandi ásýnd Alþingis. Ég held að það hafi mikið að segja um ásýnd Alþingis þegar verið er að ræða mál af þessum toga að það eru fáir þingmenn sem sitja í þingsal og hlýða á umræðuna. Ég hef miklu oftar heyrt það sagt þegar verið er að tala um starfshætti Alþingis, að menn sitji nú aldrei í þessum þingsal og séu að hlusta, miklu oftar en að menn séu endilega að kvarta yfir löngum ræðum. Því eins og ég segi, þær eru fátíðar á Alþingi.

Mín afstaða er því sú að jafnvel þótt ég taki undir þau meginmarkmið sem sett eru fram í frumvarpinu sem forseti Alþingis leggur hér fram ásamt þingflokksformönnum fjögurra flokka, þá tel að þau markmið náist ekki nægilega vel og ég tel að það þurfi að gera meira til þess að ná þeim markmiðum og það sé þá í þá veru sem við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram í okkar tillögum. Ég held að ef menn hefðu gefið sér nægilegt ráðrúm hefði verið hægt að ná góðri sameiginlegri niðurstöðu.

Ekki síst vegna þess að það er ekkert sem knýr á um að þetta frumvarp verði að lögum 1. janúar næstkomandi. Það er ekkert í heiminum sem knýr á um það. Heill og hamingja hinnar íslensku þjóðar er ekki undir því komin að þetta frumvarp verði að lögum 1. janúar næstkomandi. Ef menn hefðu nú brotið odd af oflæti sínu og ákveðið það hér eins og hugmyndir voru uppi um af okkar hálfu, að ljúka 2. umr. um þetta fyrr í kvöld og fresta 3. umr. um málið fram í byrjum þingfunda í janúar, um miðjan janúar, þá hefði verið hægt að ljúka 3. umr. á einum degi eða svo og lögin þess vegna getað tekið gildi 20. janúar, ef út í það hefði verið farið. Hefði þá verið allur munur á því sem hér er lagt upp með, þ.e. að frumvarpið tæki gildi 1. janúar eða 20. eða 25. janúar eða 1. febrúar?

Ég held að menn hafi kastað frá sér tækifæri sem var í stöðunni til þess að ná samkomulagi og ég ætla ekkert að draga dul á það frekar en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Að sjálfsögðu eigum við líka þátt í því að þetta mál hefur lent í ákveðnum hnút. En við erum hér á þessum síðustu sólarhringum að segja það trekk í trekk að við viljum leggja mikið á okkur til að ná samkomulagi en við höfum því miður ekki fundið að sú einlæga ósk okkar að ná samkomulagi allra flokka um þetta mikilvæga mál, þessa mikilvægu umgjörð um þingstörfin, hafi verið endurgoldin.

Það verður hins vegar að koma í ljós hvernig þetta mun reynast verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fram fari endurskoðun á þingsköpum Alþingis innan þriggja ára. Ég hefði talið að þar hefði nú þessi ágæti og mikli meiri hluti komið til móts við okkur með því að fallast á þá tillögu sem við erum með varðandi endurskoðun á þingsköpum en væntanlega verður ekki því að heilsa. Þegar menn eru komnir ofan í skotgrafirnar þá getur leiðin upp úr þeim oft reynst torsótt.