135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[01:04]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja í upphafi máls míns að það er mjög miður hvernig þetta mál hefur borið að og ég tek undir orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér rétt á undan mér, það eru nákvæmlega engin rök fyrir því að þvinga fram afgreiðslu á þessu þingskapamáli í bullandi ágreiningi við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn með því móti sem hér er lagt upp með. Það hljóta að vera forseta Alþingis, hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, mikil vonbrigði hvernig þessu fyrsta missiri fyrsta þingvetrarins lýkur.

Ég sem nýr þingmaður sem hefur störf á þessum vinnustað rek mig á margt sem er mjög gott í störfum Alþingis en líka á margt miður gott, eins og á öllum vinnustöðum. Maður veltir fyrir sér hvernig hlutirnir megi fara betur, hvað manni finnst í rauninni að í daglegum störfum þingsins, árangri þess, lagasetningu, rannsóknum á málum, afgreiðslu fjárlaga, eftirliti með þeim stofnunum sem Alþingi ber að hafa eftirlit með og með aðhaldi gagnvart framkvæmdarvaldinu, ríkisstjórninni.

Hvað má betur fara þarna? Nokkur atriði hafa verið tínd til við þessa umræðu í kvöld, m.a. að undirbúningur lagasetningar sé ekki nægilega vandaður. Af þeim ástæðum hefur hæstv. forsætisráðherra gefið út leiðbeiningar um það hvernig skuli nú að slíku standa svo að betur megi fara en það er alveg ljóst af undirbúningi þessa máls að ekki hefur verið farið eftir því plaggi.

Hér hefur líka verið nefnd sú tímapressa sem ríkisstjórn leggur á mál oft og tíðum og þær málaskriður sem falla inn á þingið fyrir þinghlé, mál sem berast bæði seint og illa frá ríkisstjórn.

Loks hefur verið nefnt að virðingarleysi ríki fyrir tillöguflutningi almennra þingmála, þ.e. annarra en þeirra sem koma ofan úr Stjórnarráði og ráðherrar setja inn með þeim hætti sem gagnrýnt hefur verið og ég hef nefnt.

Gagnrýnin á störf þingsins hvað varðar lagasetningu hefur einkum beinst að meiri hlutanum á Alþingi og ríkisstjórn hverju sinni en í þessu máli sem við nú ræðum, þar sem allar þessar athugasemdir eiga við ef grannt er skoðað, hittir gagnrýnin fyrir verkstjórann á Alþingi, hæstv. forseta Alþingis. Ég ætla að koma betur að því í máli mínu aðeins síðar en það er ljóst þegar maður gengur inn á þennan vinnustað að það er gríðarlega margt sem má betur fara í störfum þingsins.

Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum þegar menn tala hér hátt og lengi um að ásetningurinn með þessu þingskapafrumvarpi sé að nútímavæða Alþingi, eins og það var orðað fyrr í dag, að laga Alþingi að breyttum tíðaranda, hverfa til nútímahátta í störfum Alþingis o.s.frv. Þessi orð hafa flutningsmenn þessa frumvarps til nýrra þingskapalaga notað yfir frumvarpið og tilganginn í dag og aðallega er þar verið að ræða um takmarkanir á ræðutíma. Þetta á að vera að nútímavæða en ef grannt er skoðað eru þessir flutningsmenn pikkfastir í fortíðinni. Allt aftur til ársins 1999 hafa menn rakið hér sorgir sínar yfir því að hafa ekki getað komið fyrr á takmörkunum á ræðutíma. Nú heitir það, átta árum síðar, að nútímavæða starfsemi þingsins.

Hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur talað um það úr þessum ræðustól að það hafi verið algjör ósvinna, ég man ekki hvort það var á þinginu 1998 eða 1999, að tveir þingmenn, þingflokkur með tvo þingmenn, skuli hafa fengið jafnlangan tíma í eldhúsdagsumræðum og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem hafði 26 þingmenn.

Þegar grannt er skoðað og hlustað aðeins ofan í tóninn á þeim sem hér hafa talað dúkkar þetta alltaf upp, eitthvað sem gerðist á árinu 1999. Það er algjörlega fjarri mér að taka undir það. Eins og ég sagði fyrr í kvöld í andsvörum er það auðvitað þetta þing sem á að skoða þingsköpin, og það á að gera það vissulega með tilliti til framtíðar og með tilliti til þess að nútímavæða störf þingsins.

Því nefni ég þetta að það er dapurlegt þegar maður skoðar þær tillögur sem eru lagðar fram að í þeim skuli vera eitt allsherjargat sem snýr að nefndasviðinu sem er auðvitað það sem þarf virkilega að styrkja og breyta í störfum Alþingis til að gera störfin öll skilvirkari, lagasetninguna markvissari og þar með stytta ræðutíma í þingsal.

Af því tilefni vek ég, frú forseti, athygli á blaðsíðu 12, fylgiskjali II í nefndaráliti minni hluta í allsherjarnefnd þar sem raktar eru hugmyndir Vinstri grænna um eflingu Alþingis og bætta starfsaðstöðu þingmanna óháð þingskapabreytingunum eins og þær eru lagðar fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndasvið Alþingis verði endurskipulagt og stóreflt og liður í því verði að bæta sérstaklega starfsaðstöðu stjórnarandstöðu. Undir nefndasvið heyri sérstakar deildir, svið eða skrifstofur sem komið verði á fót. Til að byrja með mætti hugsa sér að þar yrði hagskrifstofa (fjárlög og ríkisfjármál, skattar, viðskiptamál, efnahagsmál og hagstjórn o.fl.); í framhaldinu yrði komið á fót laga- og félagsmálaskrifstofu (stjórnarskrá og lagasetning, mannréttindamál, dóms- og sakamál, velferðarmál o.fl.); alþjóðaskrifstofu sem sinnti EES, WTO og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum og væri utanríkismálanefnd og þinginu almennt til stuðnings; og umhverfis- og atvinnuvegaskrifstofu (umhverfisvernd og auðlindir, atvinnuvegir, nýsköpun og byggðamál o.fl.).“

Hér er í hugmyndum að málamiðlun sem lögð var fyrir hv. allsherjarnefnd frá Atla Gíslasyni, fulltrúa Vinstri grænna í allsherjarnefnd, komið að kjarna málsins. Þetta er það sem þarf að breyta til þess að gera störf Alþingis markvissari. Það þarf að styrkja nefndasviðið. Ég er alveg sannfærð um að ef það yrði gert mundi margt í verklagi í þessum sal breytast.

Ég ætla ekki að fjalla mikið um ræðutímann, frú forseti. Það er vissulega mjög mikilvægt að skerða ekki málfrelsi þingmanna og ég tek undir það að stjórnarandstöðunni í þeirri stöðu sem hún er í nú í dag, miðað við þann ofurstyrkleika sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa í þinginu, veitir ekki af að geta nýtt sér málfrelsið eins og þurfa þykir.

Mér finnst mjög dapurlegt, frú forseti, að svo virðist sem hv. þingmenn bæði Framsóknarflokks og Frjálslyndra hafi gleymt því hvert fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var á sumarþingi í sumar þegar meiri hlutinn knúði fram breytingu á þingskapalögum, aðra í röðinni á þessu ári, án minnsta tillits til verklags sem áður hafði verið viðhaft og án minnsta tillits til minni hlutans sem þá var stjórnarandstaðan sameinuð. Í þessu ljósi ber að skoða tillögu okkar vinstri grænna um aukinn meiri hluta til að fá hér fram afbrigði. Mér þykir miður að hafa ekki heyrt neinn fulltrúa Framsóknarflokks eða Frjálslyndra taka undir þá tillögu, ekki síst í ljósi þess sem gerðist í sumar.

Frú forseti. Það er hlálegt að umræður um þingsköp sem að sögn flutningsmanna er ætlað að koma í veg fyrir næturfundi skuli einmitt vera hér til umræðu á síðasta degi þingsins, samkvæmt starfsáætlun — eða á ég að segja síðustu nóttinni? Það er talað um mikinn og vandaðan undirbúning og marga fundi í allsherjarnefnd. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þingskapafrumvarpið var sent allsherjarnefnd fimmtudaginn 6. desember sl. Þegar við þingmenn mættum hér til vinnu í morgun var 13. desember, þ.e. ein vika hafði þarna liðið, fimm vinnudagar, og mér er til efs að sú tímalengd geti borið vott um vandaða vinnu í svo stóru máli og þegar svona mikill ágreiningur ríkir um það eins og hér hefur komið fram.

Ég minni líka á það, frú forseti, að þingsköp Alþingis eru sá rammi sem þingmenn starfa eftir en þau hafa víðtækari áhrif með því að þau eru í rauninni fyrirmynd að verklagi og fundarsköpum í félögum um allt land. Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um virðingu Alþingis og álit almennings á störfum þingsins. Hingað koma í hverri viku skólanemar af öllum skólastigum til að kynnast starfsháttum Alþingis og nýlega hefur verið opnað skólaver til að nemarnir geti kynnst störfunum af eigin raun. Þar er væntanlega ætlunin að kynna þingsköp Alþingis og, eins og ég segi, þau munu hafa víðtækari áhrif en bara innanvert í þessum sal.

Hvað varðar umræður um virðingu Alþingis er ég þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar séu stoltir af Alþingi Íslendinga og sé annt um virðingu þingsins. Hér veit nánast hvert mannsbarn að Alþingi er eitt elsta þjóðþing veraldar, saga þess er löng og merk. Hún byggir á sterkum hefðum. Þetta er elsta stofnun landsins og um leið sú æðsta. Þetta er sú mynd sem ég held að flestir vilji hafa af Alþingi Íslendinga. Og þetta er sú mynd sem við sem hér störfum viljum gjarnan viðhalda og styrkja.

Ég átti þess kost snemma í haust að taka á móti hópi nemenda Menntaskólans í Reykjavík, og splunkunýjum þingmanni var falið að kynna þeim störf þingmanna einmitt hér þessum sal. Ég leitaði þá fanga í eigin reynslu sem og í bæklingi Alþingis sem gefinn hefur verið út um Alþingi Íslendinga. Ég lagði auðvitað áherslu á það við þessi ungmenni að vinnan í þinginu færi minnst fram hér í salnum og að sú mynd sem sést í sjónvarpi og blöðum af þunnskipuðum ráðherrabekkjum og fáum þingmönnum í sal væri ekki rétt mynd af störfum Alþingis, vinnan sjálf færi fram annars staðar, hún færi fram í nefndum þingsins þar sem þingmenn ræddu mál í viðræðum sín í milli og með beinum viðræðum við hagsmunaaðila, veltu upp ýmsum hliðum og kölluðu eftir formlegu áliti frá mönnum og að þangað kæmu gestir frá félagasamtökum, fyrirtækjum og sveitarfélögum — hagsmunaaðilum sem væri hlustað á.

Ég hafði líka svolítið gaman af því að benda þessum nemendum úr Menntaskólanum í Reykjavík á það að hér sætu ekki einungis lögfræðingar með stúdentspróf frá MR, eins og áður var, og lék mér að því að biðja þá um að geta upp á því hverjir væru hér í hópi alþingismanna — stærðfræðingar, sjómenn, hagfræðingar, jarðfræðingar, prestar, líffræðingar, bændur. Alþingi er og á að vera þverskurður af íslensku þjóðinni. Í dag er auðvitað einn mjög alvarlegur halli á því, hlutfall kvenna sem er mjög skert. Myndin sem er dregin upp af Alþingi almennt er í heild svolítið skökk að þessu leyti. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir lögfræðingnum sem væntanlega er með stúdentspróf úr MR og er hér næstur á mælendaskrá. (Gripið fram í: Málamiðlunar…) En ég var að segja frá því hvernig ég nálgaðist það að kynna Alþingi fyrir þessum hópi ungmenna úr menntaskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Ég lagði á það áherslu að í þessum sal færi fram lýðræðisleg umræða og menn tækjust á í fullri alvöru um grundvallarmál eftir skoðun sinni og sannfæringu en menn gerðu það í bróðerni og af virðingu. Ég hlýt að spyrja mig í dag hvort sú mynd sem ég dró upp af störfum á Alþingi sé sönn. Atburðir dagsins í dag hafa því miður orðið á þann veg að ég hlýt að segja að svo er ekki, a.m.k. ekki í þessu máli.

Hér eru sannarlega þunnskipaðir bekkir ráðherra og fáir þingmenn í sal enda er, frú forseti, klukkan tuttugu mínútur gengin í tvö að nóttu, á aðventunni. Skyldu þingmenn og ráðherrar, ég tala nú ekki um forseta Alþingis, vera að hlusta og fylgjast með umræðunni? Ég veit það ekki. Ég ætla að leyfa mér að vona það. Vann allsherjarnefnd vinnuna sína vel? Voru kallaðir til gestir? Var leitað álits? Hvað var gert með álit starfsmanna Alþingis sem barst nefndinni? Talsmenn þessa frumvarps hafa ekki fjallað mikið um það hér, þær kröfur sem maður hlýtur að gera til framsetningar frumvarps af þessu tagi. Frumvarpið sem hér liggur fyrir uppfyllir þær á engan hátt.

Það er miður, eins og ég sagði áðan, að í þessu efni er ekki eins og venjulega við ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi að sakast, heldur á forseti Alþingis hér beinan hlut að máli, verkstjóri okkar á Alþingi, og vinnutæki hans eru einmitt þingsköpin. Mig langar, frú forseti, til að vitna aðeins um það hvernig Alþingi kynnir störf sín í þessu riti hér og kannski sérstaklega störf þingsins.

Í fyrsta kafla þessa bæklings um Alþingi sem ber heitið Alþingi og lýðræðið er lögð á það áhersla að kjósendur og fulltrúar þeirra beri ábyrgð á að varðveita virkt lýðræði í landinu og að Alþingi sé hornsteinn lýðræðis. Um störf forseta segir, með leyfi forseta:

„Þingforsetinn stýrir störfum Alþingis. Oft þarf hann að sætta ólík sjónarmið og gæta hagsmuna margra. Þannig getur þingforseti ekki látið sjónarmið eigin flokks ráða gerðum sínum heldur verður hann að gæta þess að tekið sé á erindum allra þingmanna af sanngirni og réttsýni.“

Ég verð að segja, frú forseti, að sú mynd sem hér er dregin upp af hlutverki og störfum forseta Alþingis stenst ekki atburði dagsins. Þetta er einhver glansmynd sem við þingmenn höfum vissulega verið ákaflega meðvirkir í að sýna og varðveita og við höfum upp til hópa ekki talið það efla virðingu Alþingis að ræða mikið hér eða opinbera ágreining við forseta þingsins um störf forsetans eða það sem miður fer í störfum þingsins innanvert.

Mér þykir mjög miður að óhreini þvotturinn hafi verið borinn á torg með þessum hætti eins og hér hefur verið gert í þessu frumvarpi í dag þar sem stór meiri hluti í þinginu er að þvinga í gegn breytingar á þingsköpum án þess að virða álit stærsta stjórnarandstöðuflokksins og tillögur okkar um málamiðlanir. Og mér þykir miður að ekki hafi verið leita sátta af hálfu forseta þingsins um þetta, heldur hefur það þvert á móti verið hlutverk þingmanna Vinstri grænna, formanns okkar þingflokks og fulltrúa okkar í allsherjarnefnd og formanns flokksins, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, Atla Gíslasonar og Steingríms J. Sigfússonar, að leita eftir því að ná fram sátt og málamiðlun um nær hvert einasta atriði þessa máls. Og ég hlýt að lýsa ábyrgð á hendur forseta Alþingis vegna þeirrar óeiningar sem hér er uppi um þessi mál. Sú mynd og það andlit sem uppi er af Alþingi eftir atburði dagsins er af meiri hluta sem einskis svífst í að beita minni hlutann ofurvaldi sínu eins og reyndar gerðist hér á sumarþinginu.

Það hefur sem sagt, frú forseti, fallið aðeins á glansmyndina, þessa sem ég dró hér upp við nemendurna úr Menntaskólanum í Reykjavík í haust og á þá mynd sem Alþingi gefur gjarnan af sjálfu sér eins og í því ágæta plaggi sem ég las hér upp úr. En það er ekki ábyrgð okkar, þingmanna Vinstri grænna, að málum er svo komið og það er heldur ekki hlutverk okkar úr þessu, frú forseti, að fægja myndina fyrir næstu sýningu. Það verða aðrir að ganga í þau verk.

Hv. þm. Atli Gíslason kallaði viðbrögðin sem hafa kallað fram þetta frumvarp lýðræðisþreytu. Við umræðurnar hér fyrr í kvöld, og þá á ég sérstaklega við andsvör frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, kom í ljós að hin hliðin á teningnum lýðræðisþreytu er valdhroki, því miður.

Ég vona að meiri hlutinn á Alþingi sjái að sér, hætti þeirri óbilgirni sem ég tel hann hafa sýnt. Ég vek athygli á breytingartillagnaskjali okkar þskj. 525, á bráðabirgðaákvæðinu í 9. lið þar sem við leggjum til að í framhaldi af setningu laga þessara skuli „skipa starfshóp fulltrúa allra þingflokka sem ásamt fulltrúum frá yfirstjórn skrifstofu Alþingis og Félagi starfsmanna Alþingis stýri úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í samfélagi nútímans. Tillögur sínar til úrbóta skal starfshópurinn leggja fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok 2008“.

Ég tel mjög brýnt að hefja slík störf. Þau hefðu þurft að vera undanfari þessa frumvarps sem við erum að tala um en voru það því miður ekki. Það er rétta leiðin og ég tel, frú forseti, að mikið verk sé óunnið enn í því að breyta og bæta vinnubrögð á Alþingi og að það frumvarp sem hér liggur fyrir muni ekki tomma mikið í þeim efnum.