135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[01:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Orðið er áliðið og fáir þingmenn í húsinu enda hafa þær ræður sem fluttar hafa verið að undanförnu ekki verið það skemmtilegar að þær hafi haldið mörgum þingmönnum hér. Vegna þess hvernig ástandið er fer ég fram á við frú forseta að hún fresti fundinum og að málið verði tekið áfram til umræðu á fundi í fyrramálið. Ég spyr forseta hvort hún telji ekki eðlilegt að fresta fundi vegna þess hve fáir þingmenn eru í salnum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti telur eðlilegt að halda þessari umræðu áfram þangað til henni lýkur.)

Þá veit ég það.

Ég vil byrja á því, og kem þá nokkuð öðruvísi að en þeir ræðumenn sem hingað til hafa talað í umræðunni eða alla vega upp á síðkastið, að þakka forseta þingsins fyrir að hafa átt forgöngu um að hreyfa þingsköpum Alþingis og leggja fram tillögur um þau atriði. Hvað svo sem segja má um þingskapafrumvarpið liggur alveg ljóst fyrir að markmiðið sem stefnt er að með breytingunum sem lagðar eru til eru í fyrsta lagi að koma betri svip á þinghaldið, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gat rækilega um í ræðu sinni að væri æskilegt. Í öðru lagi að skipuleggja þinghaldið betur, í þriðja lagi að gefa þinginu betri kost á að fá upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu og í fjórða lagi að gera störf þingsins skilvirkari. Í fimmta lagi að gera þingmönnum og starfsfólki Alþingis auðveldara að skipuleggja störf sín. Ég tel það skref í rétta átt hvernig staðið hefur verið að frumvarpinu eins og það er nú með breytingartillögunum sem liggja fyrir.

Ég tek undir sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Ég skrifa jafnframt undir nefndarálit meiri hlutans og vísa til sjónarmiðanna sem þar koma fram. Ég vil þó að gefnu tilefni taka fram ákveðin atriði. Í fyrsta lagi hefði ég viljað sjá meiri breytingar á þingsköpum Alþingis en hér eru lagðar til. Ég hefði viljað að sett væru ný ákvæði um starfsemi fastanefnda Alþingis sérstaklega, m.a. hvenær fundir nefndanna skyldu vera opnir og að nánari skilgreiningar kæmu fram á því með hvaða hætti afgreiðslu nefndanna væri háttað í málum sem vísað er til þeirra. Þingmenn sem hafa langa þingreynslu þekkja að stjórnarfrumvörp hafa algjöran forgang. Með sama hætti er það þannig að þingsályktunartillögur komast sjaldnast á dagskrá nefndanna, þær eru sjaldnast afgreiddar út úr nefndunum. Nauðsynlegt er að ákveða að nefndir taki mál í eðlilegri tilvísunarröð nema afbrigða sé leitað sem þá þarf að samþykkja með auknum meiri hluta. Við hefðum í því efni þurft að taka dönsku þingskapalögin til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Til þess að stuðla að vandaðri lagasetningu skiptir gríðarlega miklu máli að starf nefndanna sé þannig að þar sé umgjörð sem býður upp á slíka vinnu. Einnig skiptir máli að þingmönnum sé ekki mismunað, né heldur stjórnarfrumvörpum eða einstökum þingmannafrumvörpum, varðandi með hvaða hætti mál eru tekin fyrir í nefndum.

Fyrir liggur að mjög mikilvægt er að nefndafundir séu í ákveðnum tilvikum, samkvæmt ákveðinni skilgreiningu sem liggur fyrir í þingskapalögum, opnir fyrir almenning og fjölmiðla til þess að fólkið í landinu fái meiri innsýn í störf Alþingis. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Það kann að vera að í kjölfar umræðunnar sem hér fer fram gefist kostur á að taka málin til frekari umræðu eftir áramót. Ég vil líka geta þess að ég hefði viljað ganga mun lengra en gert er í frumvarpinu og breytingartillögunum sem allsherjarnefnd kom sér saman um varðandi takmörkun á ræðutíma. Ég hefði viljað stytta hann enn meira en lagt er til.

Það er misskilningur að með því að takmarka ræðutíma, svo sem lagt er til að litlu leyti, að verið sé að skerða málfrelsið. Þvert á móti má gera ráð fyrir að fleiri þingmenn komist að til að gera grein fyrir máli sínu og það skiptir líka máli. Það hefur líka þýðingu fyrir málfrelsi að sem flestir þingmenn komist að til þess að tjá sig í hinum ýmsu málum.

Vegna málatilbúnaðar og málflutnings sem vinstri grænir hafa haft uppi, og ekki síst vegna þeirra spurninga sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson beindi til mín áðan, finnst mér nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir með hvaða hætti þessa hluti ber að. Formaður þingflokks Vinstri grænna kom að mótun þingskapafrumvarpsins ásamt öðrum flokksformönnum. Ég átta mig ekki á og þekki ekki út í hörgul með hvaða hætti sú vinna fór fram en þar sem ég veit að hv. formaður þingflokks Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, er hér næstur á eftir mér á mælendaskrá getur hann væntanlega gert ítarlega grein fyrir því með hvaða hætti þar var unnið. Ég hefði talið, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að farið hafi verið vel yfir þau mál og sjónarmið sem um ræðir áður en frumvarpið varð til í þeirri mynd sem það var lagt fram á Alþingi og í allsherjarnefnd.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Hverjar voru tillögur vinstri grænna á þeim tíma? Hvað var lagt inn í þá umræðu? Hvað var lagt til að gert yrði varðandi þingskapalögin? Málið kom til meðferðar Alþingis og hefur verið, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir rakti í ræðu sinni áðan, hjá allsherjarnefnd um skamma hríð. Það er ekki spurning um lengd tímans sem mál eru hjá nefndum heldur hvernig nefndin vinnur. Ég verð að segja að ég tel að formaður allsherjarnefndar hafi lagt sig í líma við að farið væri vel yfir málið og kölluð fram sjónarmið einstakra nefndarmanna. Við lok nefndarstarfsins komu fyrst fram hugmyndir frá fulltrúa Vinstri grænna og þá tóku nefndarmenn til við að skoða hvernig náðst gæti samstaða í málinu innan nefndarinnar en því miður tókst það ekki.

Hvað varðar orð mín í morgun vísaði ég til þess að sjónarmið og hvati til að ná samkomulagi komu aldrei frá vinstri grænum. Mér þótti miður að ekki skyldi liggja fyrir um hvað hægt væri að ná samkomulagi þannig að allir flokkar stæðu að því. Nú stendur meiri hluti stjórnarandstöðunnar að þingskapafrumvarpinu og telur að hagsmunum sínum sé betur borgið með lögfestingu þess en án hennar og það er staðreyndin í málinu.

Þegar málið var tekið úr nefndinni fannst mér í sjálfu sér ekkert liggja á og greiddi ekki atkvæði með að því yrði hraðað vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að skoða fleiri atriði. Fyrst og fremst fannst mér nauðsynlegt að skoða atriðin sem ég hef fjallað um varðandi nefndastarfið, umbúnaðinn um það. Það sem mestu máli skiptir varðandi vandaða lagasetningu er góður tími sem nefndirnar hafa til að vinna að málum, að einstakir þingmenn fari yfir málin, grandskoði þau, beri saman bækur sínar í nefndunum og kalli til fulltrúa sem hafa eitthvað til málanna að leggja.

Ég verð að segja að þegar ég settist á sínum tíma inn á þing sem varaþingmaður fyrir margt löngu, þegar enn þá voru hér efri og neðri deild, var eiginlega það fyrsta sem kom mér á óvart hversu vel þingmenn unnu störf sín, hversu vel þeir settu sig inn í málin sem var um að ræða. Ég hafði satt að segja búist við að þar væri um mun yfirborðslegri skoðun á málum að ræða en raun bar vitni. Ég hef einnig tekið eftir því þegar ég sest inn á þing sem kjörinn þingmaður að hin almenna regla er sú að þingmenn gæta þess að fara vel yfir mál og skoða þau. Ég skal alveg gefa vinum mínum í Vinstri grænum þá einkunn að þeir eiga heiður skilinn fyrir hversu faglega þeir vinna lagafrumvörp sín. Þó að ég sé iðulega ósammála þeirri niðurstöðu sem þeir komast að tel ég að þeir séu starfsamir og góðir þingmenn og vinni vel að þeim sjónarmiðum sem þeir standa fyrir og það er annað mál.

Þar sem þingskapafrumvarpið er vinstri grænum svo kært að þeir hafa bæði boðað til blaðamannafundar og tekið það til umræðu í þjóðfélaginu almennt, kom mér nokkuð á óvart að nákvæmar tillögur þeirra lægju ekki fyrir fyrr en raun bar vitni og að nefndarálitið frá minni hluta allsherjarnefndar skyldi fyrst sjá dagsins ljós klukkan 18 í dag. Öll efnisatriði málsins voru fyrir löngu ljós og þess vegna fannst mér vægast sagt nokkuð sérstakt að vinstri grænir skyldu ekki hafa mótað tillögur sínar nákvæmlega. Þeir þurftu heilan þingdag til að ganga frá nefndaráliti í málinu sem, eins og ég benti á, þeir höfðu í raun haft góðan tíma til að gera. Ég get ekki gert að því að mér finnst alltaf nokkur ljóður á ráði manna í umræðu þegar þeir setja sig í fórnarlambshlutverkið, fjalla um mál út frá yfirborðinu en víkja ekki að helstu efnisatriðum þar.

Í ræðu sinni sagði hv. þm. Atli Gíslason, sem stendur að minnihlutaáliti allsherjarnefndar um frumvarpið, að þeim hefði verið gefinn hálfur dagur til að vinna nefndarálitið. Hv. þingmaður sagði að málsmeðferð allsherjarnefndar kallaði á óvönduð vinnubrögð en hvorugt er rétt. Í fyrsta lagi var gefinn mun lengri tími til að vinna nefndarálitið, afstaðan lá ljós fyrir alllöngu áður og málsmeðferð allsherjarnefndar var síður en svo óvönduð. Ég hefði að vísu kosið að fyrrverandi forsetar Alþingis hefðu komið fyrir nefndina, fyrst og fremst vegna reynslu sinnar — í sjálfu sér skal ég ekki segja hverju það hefði skilað, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að kalla umboðsmann Alþingis fyrir nefndina, það tel ég ekki rétt. Ég tel ekki eðlilegt að umboðsmaður Alþingis sé kallaður fyrir allsherjarnefnd til þess að fjalla um þingsköp Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er í sérstakri stöðu og á ekki að vera í nánari tengingu við Alþingi. Hann skilar skýrslu sinni og gerir Alþingi og allsherjarnefnd grein fyrir málum sem hann vinnur að. Hann á ekki að fjalla um þingsköp Alþingis.

Í ræðu sinni sagði talsmaður minni hlutans, hv. þm. Atli Gíslason, að öðru leyti að þetta væri átakanlegt dæmi um vinnubrögð en forðaðist að víkja að einstökum efnisatriðum frumvarpsins. Í ræðu sinni rakti hv. þm. Siv Friðleifsdóttir undirbúning og aðdraganda að framlagningu frumvarpsins og gerði grein fyrir að margir hefðu komið að málinu og ég gat ekki skilið orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur öðruvísi en svo að þingflokksformaður Vinstri grænna hefði komið að undirbúningi alveg frá upphafi málsins. Ég kalla enn eftir svörum af hans hálfu ef hér er ekki rétt með farið.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni áðan að þau í Vinstri grænum hefðu verið tilbúin til að ná samstöðu um frumvarp til þingskapa. Ég velti fyrir mér hvaða kostir væru í stöðunni. Ég spurðist ítrekað fyrir um hvað þyrfti til en fékk ekki svör við því og vísaði til þess í ræðu minni í morgun. Ég sagði að hér vantaði að fá nákvæmlega fram hvað gera þyrfti til að samkomulag gæti orðið milli allra þingflokka á Alþingi.

Allsherjarnefnd og einstakir fulltrúar í nefndinni teygðu sig mjög langt til að reyna að ná samkomulagi og augljós vilji var þar til að ganga til móts við hugmyndir vinstri grænna þó að þær kæmu fram seint og um síðir.

Hv. þm. Atli Gíslason spurði í ræðu sinni hvort breytingar á þingsköpum styrktu Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu en sagði síðan að svo væri ekki, þvert á móti væri þar verið að draga úr mikilvægi Alþingis. En er það svo? Er það svo að með þingskapafrumvarpinu sé verið að draga úr mikilvægi Alþingis? Er verið að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað Alþingis? Stenst fullyrðing hv. þm. Atla Gíslasonar þegar frumvarpið er skoðað? Er það rétt sem talsmenn Vinstri grænna hafa haldið fram, að lögfesting frumvarpsins mundi veikja stjórnarandstöðuna og gera starf hennar erfiðara?

Ég hlustaði satt að segja með mikilli athygli á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar þegar hann mælti fyrir minnihlutaáliti sínu. Ég beið eftir því að hann fjallaði efnislega um einstakar greinar frumvarpsins og færi yfir með hvaða hætti og hvar þessir hlutir væru sem kæmu framkvæmdarvaldinu svo til góða en drægju úr mikilvægi Alþingis. Ég verð satt að segja að viðurkenna að mér fannst skorta á að þeim hlutum væri fundinn staður.

Í þeim löngu umræðum sem farið hafa fram í dag, í kvöld og í nótt um frumvarpið hafa hv. þingmenn sem tekið hafa til máls fæstir vikið að efnisatriðunum sem eru í frumvarpinu. Ef við skoðum fullyrðingar hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég vék að og efnisatriðin í frumvarpinu, hvar eru þá þeir hlutir sem gera störf stjórnarandstöðunnar erfiðari, auðvelda framkvæmdarvaldinu og styrkja framkvæmdarvaldið gagnvart Alþingi?

Ef við skoðum 1. gr frumvarpsins er verið að fjalla um að þingflokkur sem ekki á fulltrúa í forsætisnefnd skuli samkvæmt ákveðnum tillögum eiga áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hennar. Síðari hluti 1. gr. fjallar um lengingu á þingtímanum og hvernig hann er. Ef eitthvað þarf að ræða varðandi 1. gr. er það fyrst og fremst að hún gerir störf Alþingis skilvirkari, tryggir rétt lítils minni hluta til að geta fylgst með og hafa eftirlit með því sem verið er að gera.

Í 2. gr. frumvarpsins er viðbót og þar segir að þriðjungur nefndarmanna geti óskað eftir því að ráðherra komi á fund þingnefndar í þinghléum. Hvað er um að ræða? Hér er verið að leggja skyldu á framkvæmdarvaldið þar sem löggjafarvaldið getur gert kröfu til þess að framkvæmdarvaldið sinni eðlilegri upplýsingaskyldu og þurfi að mæta á fundi hjá löggjafarvaldinu eða handhöfum löggjafarvaldsins til þess að fjalla um og gefa skýringar. Hvað þýðir það? Verið er að styrkja stöðu Alþingis og gefa stjórnarandstöðunni betri möguleika en ella væri.

Ef við skoðum 3. gr. frumvarpsins, hvað er þá verið að fjalla um? Jú, verið er að setja þá skyldu á hendur ráðherrum að þeir skuli að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda til að fjalla um málaflokka sem undir þá heyra. Með sama hætti er hér verið að leggja aukna skyldu á hendur framkvæmdarvaldsins og auka möguleika löggjafarvaldsins til að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Þvert gegn því sem hv. þm. Atli Gíslason og ýmsir aðrir talsmenn Vinstri grænna hafa haldið fram er hér verið að styrkja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins.

Ef við skoðum síðan 4. gr. er vísað til með hvaða hætti lagafrumvörpum skuli útbýtt og hvenær hægt sé að taka þau til umræðu. Ef eitthvað er þá er um aukna skilvirkni að ræða og tekin af öll tvímæli um hvernig með þau skuli fara. Ekki getur það verið til þess fallið að draga úr skilvirkni í störfum þingsins eða valdið því að störf þingsins séu gerð erfiðari en hlutur framkvæmdarvaldsins meiri.

Í 5. gr. er ákvæði sem fjallar um vandaðri vinnubrögð við umfjöllun og setningu laga þar sem sagt er að ef frumvarp breytist við 2. umr. skuli nefnd fá það aftur til afgreiðslu og skoðunar fyrir 3. umr. Í 6. gr. eru líka ákvæði sem lúta að vandaðri lagasmíð þannig að ekki er það gert á kostnað þess að draga úr þeim hlutum heldur þvert á móti.

Í 7. gr. er fjallað um þingsályktunartillögur, hvenær þeim er útbýtt og ákveðnar starfsreglur í kringum þær. Síðan fjallar 8. gr. um umræður um munnlega skýrslu ráðherra þar sem nánast er kveðið á um með hvaða hætti þær skuli fara fram. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það en segja má að aðrar greinar séu einstaka lagfæringar á því með hvaða hætti þær skuli vera.

Í c-lið 10. gr., og reyndar einnig í 11. gr., er fjallað um með hvaða hætti koma má fyrir umræðum um störf þingsins og eins eru reglur hvað það varðar gerðar skýrari. Ekki er þar með einum eða neinum hætti verið að draga úr möguleikum þingmanna nema að vísað er til þess að það skuli gert á ákveðnum tímum og ekki öðrum.

Síðan er fjallað um ræðutímann í 12. gr. Það er það sem málið virðist snúast töluvert um. Ég vil fyrst geta þess að í 15. gr. er heimildargrein fyrir forseta, að hann geti ákveðið umræður og með hvaða hætti þær skuli vera samkvæmt ákveðnum skilgreiningum. Menn geta kannski fett fingur út í það sjónarmið en það er þá forseti Alþingis sem hefur þetta vald og er ekkert út á það að setja.

Varðandi ræðutímann er spurningin um hvort þar sé um að ræða, og þar vísa ég til 12. og 16. gr., þann umbúnað sem Alþingi skapar sér, með hvaða hætti málin eru rekin. Ég get ekki séð að þar sé verið að rýra kosti löggjafarvaldsins til hagsbóta fyrir framkvæmdarvaldið.

Þetta eru þau efnisatriði sem ég vildi minnast á, virðulegi forseti, sem lagafrumvarpið fjallar um. Ég fæ því ekki séð hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu sem hv. þm. Atli Gíslason rakti hér áðan, að verið sé að veikja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera störf stjórnarandstöðunnar erfiðari. Þvert á móti sé ég ekki annað, eins og ég hef rakið, en að hér sé að öllu leyti verið að styrkja störf löggjafarvaldsins, gera lagastarf skilvirkara og betra en nú er og auka möguleika lítils minni hluta. Það sem þá steytir á er spurningin um ræðutímann.

Ég staldraði akkúrat við það þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og hann vísaði til þess hvernig hlutirnir gerðust í þjóðþingum sem okkur eru skyldust. Allt í einu vék hann að öðrum hlutum og taldi að okkur hefðu ekki verið kynntar þær reglur í allsherjarnefnd sem um það giltu.

Það er nú ekki alls kostar rétt því að bæði stjórnarskrár- og þingskapalög annarra Norðurlanda voru kynnt. Ef við skoðum þingskapalög þau sem fyrir liggja og gilda á hinum Norðurlöndunum sést að við erum tengdust danskri lagahefð. Þar af leiðandi liggur ljóst fyrir að dönsku þingsköpin eru skyldust frumvarpi okkar.

Hjá okkur vantar að vísu inn í þá þætti sem varða nefndarstarfið en eru í dönsku þingsköpunum. Ef vikið er að ræðutímanum er eftirtektarvert að ræðutími í þjóðþingum á Norðurlöndum — eða ef við tökum Danmörku sérstaklega þá hefur flutningsmaður tíu mínútur við 1. umr., aðrir þingmenn fimm. Í annarri umferð hefur flutningsmaður fimm mínútur en aðrir þingmenn þrjár. Þeir hafa hins vegar sérreglur um lengri ræðutíma hjá ráðherrum.

Í 2. umr. hefur framsögumaður tíu mínútur en aðrir þingmenn hafa fimm mínútur og þrjár mínútur. Sama regla er í 3. umr. þannig að í danska þjóðþinginu er ræðutíminn mun styttri en í okkar tilviki.

Það sem mér fannst skipta máli og ég lagði áherslu á í allsherjarnefnd var að ræðutíminn yrði styttur frá því sem gert er ráð fyrir í þingskapafrumvarpinu sem fyrir liggur. Hvernig þá? Í fyrsta lagi varðandi 1. umr. um frumvörp til þess að þeir þingmenn sem leggja mikla vinnu í að semja frumvörp og koma þeim fram, geti mælt fyrir þeim og komið þeim til nefnda.

Það eru margir þingmenn sem flutt hafa frumvörp og mæla ekki fyrir þeim á því þingi sem frumvörpin eru lögð fram. Það er óviðunandi, það er skerðing á málfrelsi. Það er skerðing á því að um eðlilega umgjörð sé að ræða fyrir þingmenn til að koma málum sínum fram og við það getum við ekki sætt okkur.

Ég taldi því nauðsynlegt og eðlilegt að við 1. umr. væri reynt að ná fram meiri skerðingu á ræðutíma en hér er gert ráð fyrir, einmitt í þessum tilgangi. Reyndar var upplýst að ræðutíminn við 1. umr. væri um 40% alls ræðutíma, ef ég man rétt. Það kom mér nú reyndar nokkuð á óvart að svo mikill hluti ræðutímans væri í þeirri umræðu en það sýnir að rétt er að leggja sérstaklega til styttingu hvað það varðar. Þar er fyrst og fremst verið að leggja fram mál og eftir það eiga að fara fram málefnalegar umræður og vinna í nefndum.

Það var í danska þjóðþinginu en í norska þjóðþinginu er um enn þá takmarkaðri ræðutíma að ræða. Þar má enginn taka oftar til máls en þrisvar sinnum. Talað er um að mál megi almennt ekki fara fram yfir 30 mínútur í heildina. Þar er forseta þingsins veitt víðtæk heimild til þess að ákveða og gera tillögur um ræðutíma og takmarkanir.

Í Svíþjóð er enn þá takmarkaðra aðgengi hvað það varðar. Þar verður að koma fyrir fram með tillögu og leggja hana fram ef þingmenn ætla að taka til máls. Þegar þetta er skoðað liggur fyrir að Alþingi Íslendinga sker sig úr að þessu leyti, við höfum langrýmsta ræðutímann fyrir þingmenn. Ég hef misnotað tímann nú þar sem ég er búinn að tala í hálftíma sem það er samt sem áður ekki nema brot af því sem ýmsir aðrir þingmenn hafa notað sér.

Við erum í sérflokki hvað ræðutímann varðar meðal þjóðþinga sem ég hef kynnt mér. Hann er mun lengri og auk þess eru heimildir þingmanna til að tala úr ræðustól á Alþingi meiri en almennt gerist. Þess vegna get ég ekki fallist á að það sé skerðing á málfrelsinu eða möguleikum stjórnarandstöðu sem hér um ræðir t.d. til þess að halda uppi málþófi.

Ég get alveg viðurkennt rétt til þess að halda uppi málþófi vegna þess að það kann að vera nauðsynlegt og rétt í ákveðnum tilvikum. Menn mega hins vegar ekki misnota það. Það kann að vera alveg réttlætanlegt. Eins og bent hefur verið á er það eitt af þeim fáu vopnum sem stjórnarandstaðan hefur í höndunum gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á þjóðþingum Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar eiga sæti mun fleiri þingmenn en á Alþingi Íslendinga en þar er ræðutíminn samt sem áður mjög skertur.

Hv. þm. Ellert B. Schram vék að því í ræðu sinni áðan að menn hefðu sjö mínútur til að tala á Evrópuþinginu og rakti síðan í ágætri ræðu ýmsa hluti sem komið hefðu upp, enda um að ræða langa en að vísu slitna þingsögu.

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að stytta ræðu mína þótt af mörgu sé að taka til viðbótar miðað við þær umræður sem farið hafa fram en ég spyr: Hvernig stendur á því að við skulum ekki hafa getað tileinkað okkur starfsreglur eins og gilda í þjóðþingum með mjög langar lýðræðishefðir eins og á hinum Norðurlöndunum? Dettur einhverjum í hug að í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð sé brotið sé gegn málfrelsinu vegna þess að þar eru settar ákveðnar reglur um ræðutíma? Að sjálfsögðu ekki.

Staðreyndin er sú að hér er að mestu leyti um eðlilegar breytingar að ræða, breytingar sem eru til þess fallnar að setja betri umgjörð og starfsreglur um Alþingi. Þær eru til þess fallnar að auka veg Alþingis, ef eitthvað er, og gera störf þess skilvirkari. Þess vegna styð ég heils hugar frumvarpið sem fyrir liggur um breytingu á þingsköpum með þeim breytingartillögum sem allsherjarnefnd gerir að tillögu sinni.

Ég ítreka að ég hefði viljað ganga lengra. Ég hefði viljað taka til umfjöllunar reglur um starfsnefndir Alþingis og skerða ræðutíma enn frekar, sérstaklega við 1. umr. um lagafrumvarp til að gera störf Alþingis enn skilvirkari. Ég lít þannig á að vönduð lagasetning komi frá Alþingi Íslendinga fyrst og fremst með því að þingmenn hafi tíma, tækifæri og umgjörð í starfsnefndum Alþingis til að fara yfir málin með vönduðum hætti, með samræðum sín á milli og með því að kalla til fagfólk til að fá fram öll mikilvægustu sjónarmiðin varðandi þá lagasetningu sem um er að ræða. Það er það sem ég legg höfuðáherslu á í þessu sambandi.

Eins og þingskapafrumvarpið liggur fyrir — af því ég er nú einn af þeim sem er í hinum ofurstóra þingskapameirihluta — fæ ég ekki annað séð en að tillögurnar sem lagðar eru fram séu til bóta þó að vissulega þyrfti meira að koma til. Við gerum það þá í næstu atrennu.