135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[02:30]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir skilmerkilega ræðu. Engin mannanna verk eru óbrotgjörn eða standa til eilífðar og þegar um stofnun eins og Alþingi er að ræða verður stöðugt að leita þeirra leiða sem hagkvæmastar eru til þess að umgjörðin sé þannig að þar sé hægt að vinna með sem skilvirkustum og bestum hætti þjóðinni til heilla. Það erum við að sjálfsögðu sammála um að beri að gera.

Þá er líka spurningin um það með hvaða hætti við þjónum lýðræðinu sem best þannig að lýðræðisleg hugsun, lýðræðisleg sjónarmið og lýðræðisleg umræða geti átt sér stað, virk skoðanaskipti. Á þeim þjóðþingum sem ég hef fylgst með umræðum í fannst mér mjög skemmtilegt og athyglisvert að fylgjast t.d. með snörpum umræðum og skoðanaskiptum í enska þinginu. Það er í þá áttina sem ég vildi gjarnan geta þróað umræðuna í íslenska þinginu. Í stað langra og, að því er mörgum finnst, leiðinlegra ræðna, eins og þeirrar sem ég hélt hér áðan, verði um styttri og snarpari skoðanaskipti að ræða sem almenningur fylgist með af meiri áhuga, auk þess sem þá er verið að fjalla um einfaldari hluti hverju sinni.

Við erum að sjálfsögðu ekki komin á neinn endapunkt og næsta verkefni eftir að þingskapafrumvarpið hefur fengið fullnægjandi afgreiðslu er að halda áfram. Þá er það nefndastarfið sem við þurfum að koma að, breyttri umgjörð um nefndastarfið til að tryggja að verkefni og störf Alþingis verði enn skilvirkari en nú er. Ég vona að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé sammála mér um það.