135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[02:35]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki verið sammála því, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að verið sé að draga úr styrk og möguleikum stjórnarandstöðunnar með þeim breytingum sem við erum að gera hér. Ég tel þvert á móti að með ákveðnum hætti sé verið að færa stjórnarandstöðunni betri hlut í hendur og alla möguleika. Ef menn vilja stunda málþóf eru þeir kostir til staðar eftir sem áður, bara með öðrum hætti, með snarpari og skilvirkari hætti en nú er.

Það er hins vegar mikilvægt að auka möguleika einstakra þingmanna á að koma sínum hlutum áfram, að við virðum einstaklingsfrelsið hér í sölum Alþingis. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn gjörsamlega brugðist, að virða einstaklingsfrelsið í sölum Alþingis, enda orðinn gamall, þreyttur og stjórnlyndur flokkur sem telur eðlilegt að haga hlutum með þeim hætti (Gripið fram í.) sem heppilegast er hverju sinni.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ítrekað vikið að því að sá sem hér stendur hafi talað í 34 mínútur og 27 sekúndur eða þar um bil, (Gripið fram í.) eða 35, já já. Mér fannst einfaldlega tilvalið að nýta þann tíma sem ég hafði þar sem það yrði væntanlega í síðasta sinn áður en fyrirkomulagið breyttist. Hefði ég haft ákveðinn og skertari tíma hefði ég nýtt hann og ekki farið yfir þau tímamörk en komið sömu málefnum, væntanlega betur og skilmerkilegar, til skila af því ég hefði þurft að raða þeim og setja þau betur niður fyrir mig.