135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[02:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka það sjónarmið og þær áherslur sem við viljum draga athygli að í þessari umræðu, að það ber að skoða alla þætti þessa máls í samhengi.

Ef t.d., og ég ítreka það, hæstv. forseti þingsins, verkstjóri Alþingis, væri úr röðum stjórnarandstöðu, ef formenn þingnefnda væru úr röðum stjórnarandstöðu væri jafnvægið með öðrum hætti. Ég legg áherslu á, og við gerum það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að það beri að skoða þetta stóra samhengi hlutanna.

Þegar allt kemur til alls eru markmið okkar hin sömu og við leggjum áherslu á allt þetta, að við getum náð saman ef við gefum okkur tíma. Og út á það ganga okkar tillögur, að stjórnarmeirihlutinn og meiri hlutinn hér á Alþingi fallist á þá sanngirniskröfu okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skjóta gildistöku þessara laga á frest. Við vildum helst geyma þessa umræðu. Best væri að stöðva umræðuna núna, fresta henni og klára málið í þingbyrjun eftir hátíðar.