135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er vonandi ekki stór skaði skeður. Mér er ljóst að tíminn er orðinn afar dýrmætur hér á Alþingi og vona ég að það hafi ekki raskað þingstörfunum illilega þó að ég þyrfti að ná mér í skjal sem ég ætla að mæla fyrir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum breytingartillögu um að hin margnefnda 18. gr. þessa frumvarps falli brott. Ég get vísað til umræðna sem hér hafa orðið allítarlegar um efni þessarar greinar. Það er nokkuð sérstakt satt best að segja því að hæstv. ríkisstjórn er í frumvarpi sínu að fara fram á það við Alþingi, við löggjafann að fá heimild til að stofna ríkisstofnun, ráða henni forstjóra, setja henni stjórn og hefja starfsemi hennar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum og boðar lög og ákvæði um stofnunina, hlutverk hennar og starfsemi síðar. Það er sem sagt verið að fara fram á fullkomið framsal á öllum þessum þáttum til þess að ríkisstjórnin geti stofnað ríkisstofnun með þessum afar óvenjulega hætti.

Nú kynnu menn að segja sem svo að það væri kannski ekki svo mikið í húfi ef um væri að ræða einhver minni háttar viðfangsefni sem ekki skiptu miklu máli og ekki væri mikil pólitík á bak við eða varðaði neina brennandi hagsmuni. En það er nú bara ekki svo í þessu tilviki því að þessi stofnun virðist eiga að fá veigamikið hlutverk hjá hæstv. ríkisstjórn sem innkaupandi á velferðarþjónustu sem margt bendir til að ríkisstjórnin ætli að færa í stórauknum mæli út á einkamarkað og nota þá þessa innkaupastofnun til að versla með þá hluti. Það liggur því í hlutarins eðli að hér er á ferðinni stórt og viðkvæmt mál, pólitískt mál, og það er alveg með ólíkindum að ríkisstjórninni skuli detta í hug að fara fram á það við Alþingi að standa svona að málum.

Það er í samræmi við annað að mönnum finnist þetta eðlilegur framgangsmáti. Þeir sem hafa vanist því að geta umgengist völdin eins og þeir eigi þau einir í framkvæmdarvaldinu og ríkisstjórn, þeim finnst sjálfsagt ekkert að því að bera það upp við Alþingi að afgreiða hlutina svona. Það virðist ekki vera. Ég hef engar sérstakar efasemdaraddir heyrt úr röðum stjórnarsinna til dæmis um að þetta séu bara ekki fullkomlega eðlileg og ágæt vinnubrögð. Þarf að gera þetta svona? Er einhver efnisleg rökstudd ástæða fyrir því að fara þurfi þessa óvenjulegu leið? Nei. Það er algerlega augljóst mál að það eru aðrar og miklu venjubundnari aðferðir við að gera þessa hluti ef menn ætla að gera þá á annað borð, sem eru þær að ósköp einfaldlega undirbúa verkefnið á vegum stjórnsýslunnar, t.d. með skipan stjórnskipaðrar nefndar. Út af fyrir sig væri hægt að afla heimildar í lögum ef menn vildu svo við hafa hvað það varðar að setja það inn í sem heimildarákvæði eða einfalt ákvæði til bráðabirgða að skipuð skuli nefnd til þess að undirbúa lög og starfsemi stofnunar sem eigi að taka til starfa á þessu sviði. Síðan eru þau lög sett með venjubundnum hætti, taka gildi og þá er hægt að ráða starfsfólk og hefja starfsemina.

Hér er byrjað á öfugum enda og það veit einhvern veginn ekki á gott. Það boðar ekki gott og það vekur sérstaka tortryggni þegar haft er í huga hvað undir liggur, hvað er á bak við, að það er sjálf heilbrigðisþjónustan, veigamiklir þættir hennar og beintengd við þau áform ríkisstjórnarinnar, sem liggja alveg fyrir þó að mönnum virðist henta að sverja þau af sér svona af og til, að færa verkefni í stórauknum mæli frá hinu opinbera, jafnvel viðkvæm verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu, og til einkamarkaðarins. Það hefur lengi verið draumur margra. Sjálfstæðismenn hafa lengi horft vonaraugum til heilbrigðisráðuneytisins. Á undanförnum árum hafa alltaf af og til komið upp umræður í Sjálfstæðisflokknum um að nú verði flokkurinn að fara að komast í heilbrigðisráðuneytið, gott ef ekki hefur verið ályktað sérstaklega um það á landsfundum flokksins að nú sé það að verða eitt af stærstu og brýnustu pólitísku viðfangsefnum flokksins að komast inn í heilbrigðisráðuneytið og taka þar til hendinni.

Það er reyndar þannig því miður að í hinum stjórnarflokknum, Samfylkingunni, hafa þessar hugmyndir alltaf verið á kreiki. Varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur ítrekað tekið undir og sett fram sjónarmið í þessa veru. Fyrir ekki löngu síðan var verið að gamna sér með að áherslur forustumanna Samfylkingarinnar stönguðust að vísu svolítið á í þessum efnum. Gott ef það voru ekki fyrrverandi og núverandi formenn Samfylkingarinnar sem menn voru þar að gamni sínu að lesa og orðtaka og benda á það væru eitthvað mismunandi áherslur hvað varðaði það hversu langt menn vildu ganga í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. En það er alveg augljóst að bæði Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað — og þarf ekki um það að ræða — og Samfylkingin eru býsna höll undir þessi sjónarmið. Þetta er boðað að nokkru leyti í stjórnarsáttmála. Ályktanir Sjálfstæðisflokksins náttúrlega liggja fyrir og í vissum mæli Samfylkingarinnar einnig sem hefur búið það inn í snyrtilegar umbúðir og talað um blandaðan rekstur í heilbrigðiskerfinu og að nýta kosti einkaframtaksins þar sem það eigi við og svo framvegis.

Það er líka rétt að minna á, virðulegur forseti, að þessu ákvæði er skotið hér á skjön inn í frumvarp um allt annað mál sem varðar verkaskiptingu ráðuneyta og breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Ástæða er til að hafa það í huga að þar af leiðandi raskar það þeim áformum á engan hátt þó að þetta ákvæði frumvarpsins falli brott. Hæstv. ríkisstjórn er harðákveðin í því að keyra þessa Stjórnarráðsbreytingu sína hér í gegn og gerir það þá að sjálfsögðu. Hún er illa undirbúin því miður og margt er óunnið í þeim efnum, ekki síst á þessu sviði sem hér er undir, þ.e. varðar breytingar á almannatryggingum og færslu verkefna frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytis. Stórir hlutar þeirrar framkvæmdar á ekki að — það á ekki einu sinni að reyna að hefja starfsemina á hinum nýja grunni fyrr en um mitt ár eða 1. september næstkomandi vegna þess ósköp einfaldlega að menn viðurkenna að málið sé ekki tilbúið. Það á engu að síður að afgreiða það hér í þeim anda ríkisstjórnarinnar að þar sé það sem ráði, hennar stólaskiptahagsmunir en ekki viðfangsefni sem í hlut eiga og eru menn þó ekki að leika sér með neina smámuni þar sem eru almannatryggingakerfið, lífeyrismál, skipulag heilbrigðisþjónustunnar og annað í þeim dúr.

Ef hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi yfir höfuð væri á þeim buxum að leita eftir einhverri samstöðu um einhver mál þá mundi náttúrlega blasa við að það væri ákaflega útlátalaust fyrir ríkisstjórnina að fella út þessa 18. grein. Þá mundi minnka og næstum í sjálfu sér hverfa ágreiningurinn um þennan þátt hinnar efnislegu tilfærslu innan Stjórnarráðsins. Því hefur almennt verið frekar vel tekið að málefni aldraðra og félagslegi tryggingaþátturinn í heilbrigðis- og tryggingakerfinu færist yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þá stæði að vísu eftir gagnrýnin á undirbúninginn og hvernig hann er á vegi staddur. En um þennan þátt tilfærslna innan Stjórnarráðsins sem slíkan hefur ekki verið mikill efnislegur ágreiningur. Það er kannski helst að menn hafi áhyggjur af ákveðnum landamærum, af forræði ráðuneytanna, þ.e. hvernig línur verða dregnar upp milli þeirra hvað varðar til dæmis blandaðar stofnanir, hjúkrunar- og dvalarheimili, þátt heilbrigðisráðuneytisins sem eftir stendur inni í stjórnun hjúkrunarheimila hverra rekstrarlega ábyrgð verður hjá félagsmálaráðuneytinu og hlutum af því tagi sem auðvitað eru ekkert einfaldir viðfangs. En það væru ekki stór mál ef að öðru leyti væri ekki búinn til ágreiningur í raun og veru eins og gert er hér með þessu fráleita ákvæði 18. gr.

Herra forseti. Það getur vel verið að það hafi svo sem ekki mikið upp á sig að reyna að færa fram frekari rök fyrir þessu. Það er nú trúlegt að stjórnarmeirihlutinn og liðsmenn hans — sem eru víst einhverjir fleiri ef ég man rétt í þessu máli eins og stundum áður — sé ónæmur fyrir slíku og hyggist afgreiða þetta hvað sem tautar og raular og hvaða rök sem kunna að vera færð fram gegn breytingum. Mér finnst ekki hátt risið á því fyrir Alþingi að láta bjóða sér þetta. Mér finnst svona framsal ákaflega ógeðfellt. Mér finnst það alveg stórmerkilegt ef mönnum finnst það bara ekkert mál að opinber stofnun, að ríkisstofnun sé búin til á grundvelli fullkomins framsals löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins um það hvernig málum skuli skipað inni á þeirri stofnun. Það er mjög merkilegt að menn eigi bara á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í örfáum línum að geta sett á fót opinbera stofnun, stofnað til kostnaðar, ráðið þar forstjóra og stjórn og jafnvel starfsmenn og efnt til rekstrar sem þar ofan í kaupið á ekki að kosta neitt því að það er verið að reyna að bera það á borð fyrir okkur í greinargerð með þessu frumvarpi og áliti Fjárlagaskrifstofu að þetta muni ekkert kosta. Það er ábyggilega alveg nýtt undir sólinni ef hægt er að stofna opinbera stofnun, ráða henni starfsfólk og stjórnendur og hefja rekstur og starfsemi, koma henni fyrir í húsnæði og annað í þeim dúr án þess að það kosti peninga. Ég hef bara aldrei kynnst annarri eins snilld í rekstri og ég vil gjarnan vera í aðstöðu til þess að fylgjast með þeim kraftaverkamönnum sem gera þetta allt saman án þess að það kosti krónu. Það verður að fá mikinn hugsjónamann í forstjórastólinn ef hann ætlar að vinna þetta ókeypis en það hlýtur að vera úr því að það á ekki að kosta peninga. Ekki ætlar stjórnin að taka þóknun og einhvers staðar verður að finna góðhjartaða sennilega auðmenn til þess að bjóða henni ókeypis húsnæði þannig að hún þurfi ekki að borga leigu því ekki má það kosta peninga ef þetta á allt saman ekkert að kosta. Svona er málatilbúnaðurinn, herra forseti. Sá er nú veruleikinn. Þannig er verið að reyna að bera þetta á borð fyrir þingið og það er ekki hátt risið á því. En við erum svo sem að venjast ýmsu þessa dagana.

Ég skil vel framkvæmdarvaldið. Ég skil mjög vel Sjálfstæðisflokkinn að honum finnist nánast að hann geti gert hér það sem honum sýnist. Hann er að verða alveg háskalega vanur því að líta svo að það séu í raun og veru allt saman formsatriði sem lúta að því að koma vilja sínum fram, að um leið og Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið ákvörðun í lýðveldinu Íslandi þá sé það sama sem lög. Hann vandist þessu auðvitað í samstarfi við Framsóknarflokkinn, þann auðsveipa meðreiðarsvein sem sá flokkur var, og gekk á lagið eftir því sem Framsóknarflokkurinn varð meira og meira flak þangað til svo var komið að í raun þurfti Sjálfstæðisflokkurinn ekkert fyrir hlutunum að hafa. Hann gat gert það sem honum sýndist hér og hann vissi að hann átti atkvæðin vís og hann vissi að Alþingi var tiltölulega mjúkur leir eins og verið var að hnoða þá bolta. Því miður, herra forseti, virðist fátt benda til breytinga í þessum efnum.

Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér áfram eins og hann ráði einn á Íslandi og þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Þegar hann hefur tekið ákvörðun eru það orðin lög og auðsveipur samstarfsflokkur og leirmjúkt Alþingi eru bara formsatriði þegar hann þarf að koma sínum ákvörðunum fram. Þetta mál er alveg dæmigert fyrir það að Sjálfstæðisflokknum finnst að hann geti sýnt þinginu hvað sem er, boðið þinginu upp á að færa sér heimildir og framselja vald til að stofna heila ríkisstofnun á grundvelli bráðabirgðaákvæða, ráða henni forstjóra og kjósa henni stjórn og koma með lögin eða frumvarp til laga um málefnið síðar.

Svona illa eru framsóknarmenn búnir að ala Sjálfstæðisflokkinn upp á þessum tólf árum sem þeir voru með honum, af því að ég sé hér hv. þm. Bjarna Harðarson … (BjH: … allir beiða fyrir honum.) Nei, það kann að vera að ekki hafi allir beygt sig fyrir honum. (BjH: Beiða fyrir honum.) Já, ég held að framsóknarmenn ættu síðastir manna að nota það orð, sem eru búnir að vera blæsma í tólf ár.

Því miður er það þannig, herra forseti, og það er ekki gamanmál að ég tengi þetta hiklaust við þessa hluti. Ég sé þetta í samhengi við það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að líta á stöðu sína í stjórnmálum landsins, líta á sig sem ríki í ríkinu og sem svo að ákvarðanir hans séu í raun sjálfkrafa orðnar lög á Íslandi. Það er skiljanlegt að vissu marki, að flokkur sem verið hefur í ríkisstjórn í 16 ár og er að leggja inn á fimmta kjörtímabilið í röð með ákaflega auðsveipum samstarfsaðilum, flokkur sem hefur komist smátt og smátt upp með það að veikja Alþingi og heggur enn að rótum þeirrar stöðu sem stjórnarandstaða hefur þó haft til þess að veita aðhald, finnist að hann ráði landinu einn. Það er alveg skiljanlegt. Það þarf sjálfsagt sterk bein til að þola svo góða daga langrar valdasetu og auðsveipra samstarfsaðila.

Ekki voru kratagreyin til mikilla vandræða fyrir Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu 1991–1995. Þeir voru reyndar stundum heldur hægri sinnaðri en Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur á þeim árum. Þá var nýfrjálshyggjuhægrikratisminn á hápunkti í evrópskum stjórnmálum og það barst hingað. Helstu forustumenn krata á þeim árum voru ákaflega hægri sinnaðir og nýfrjálshyggjusinnaðir. Þeir voru á undan, ef eitthvað var, í að velta kostnaði yfir á notendur í velferðarþjónustu. Muna menn það ekki? Jú, þeir lögðu upp í einkavæðingarleiðangurinn með Sjálfstæðisflokknum. Framsókn varð svo aðalverkfærið á árunum þar á eftir, aðalverkfærið, mokaði dálítið inn í klefann hjá sjálfri sér að vísu. Það fóru nokkrar kolaskóflur þangað líka þegar framsókn var að moka en hún var aðalverkfærið hjá Sjálfstæðisflokknum.

Það má hrósa Sjálfstæðisflokknum fyrir hvað hann hefur verið ótrúlega útsjónarsamur í að láta aðra gera hlutina fyrir sig, láta samstarfsflokkana vaða flórinn og koma málum Sjálfstæðisflokksins áfram. Framsókn puðaði við það meira og minna í tólf ár að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins. Einkavæða og … (Gripið fram í: Virkja.) já, virkja og mætti nefna fleiri hluti. Hvernig endaði það? Hvað kostaði það Framsókn, aumingja vesalings gömlu Framsókn? Meira en helming fylgisins. Þingflokkurinn fór úr 15 og niður í 7 menn. Það var dýrt fyrir Framsókn að vera verkfæri Sjálfstæðisflokksins í tólf ár en þeir létu sig hafa það samt og nú er Samfylkingin tekin við. (BjH: Og fleiri langaði.) Fleiri langaði? (BjH: Fleiri langaði.) Til að verða verkfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn? (BjH: Já.) Ja, Samfylkinguna, já, það er rétt. (Gripið fram í.) Samfylkinguna langaði, það liggur fyrir, því að hún er þar. Ég þekki enga í mínum ranni sem langaði til að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eins og Framsóknarflokkurinn gerði á sínum tíma … (BjH: Segja satt.) og kannski mun Samfylkingin gera. (BjH: Þú átt að segja satt.)

Við börðumst nú fyrir því, hv. þingmaður, eins og ég geri ráð fyrir að hann viti, hann hefur eitthvað fylgst með kosningabaráttunni væntanlega, að búið yrði til bandalag, svokallað kaffibandalag stjórnarandstöðuflokkanna. Við lögðum mikið á okkur í þeim efnum og drógum þann vagn í veigamiklum mæli. Við lögðum grunninn að stjórnarskiptum með sigri. Ég held að það sé ekki mikið upp á okkur að bera í þessum efnum. Hv. þingmaður ætti ekki að vera að reyna að bera það upp á aðra sem Framsókn sjálf var að vonast til að yrði, að hún fengi að vera áfram í náðarfaðmi, mér liggur við að segja náfaðmi íhaldsins, því að þetta var að ganga af Framsókn dauðri.

Auðvitað getur Framsókn þakkað líf sitt því að það tókst ekki að framlengja líf ríkisstjórnarinnar eitt kjörtímabil í viðbót. Þá hefði Framsóknarflokkurinn sennilega ekki lifað það af. Hann á þó einhverja lífsvon núna. Hann er nokkurn veginn jafngrátt leikinn og Alþýðuflokkurinn var eftir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í viðreisnarstjórninni, eins og menn muna sem eitthvað kunna í stjórnmálasögunni, þegar hársbreidd munaði að flokkurinn þurrkaðist út og það meira að segja ekki í fyrstu kosningunum eftir samstarfið, (PHB: Hvaða mál er þetta?) heldur næstu þar á eftir.

Ég bendi hv. þingmanni á að fylgjast með þingstörfunum. Því var lýst yfir af forseta hvaða mál væri verið að taka fyrir. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur greinilega ekki tekið nógu vel eftir og það er dapurt, annars er hv. þingmaður yfirleitt samviskusamur og sinnir skyldum sínum. Ég er sem sagt að ræða dagskrármálið, frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingum. Ég er að ræða þá undarlegu stöðu sem borin er upp í þessu máli, sem er til marks um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lítur á hlutina. Þá á ég bara það eftir af þessari reifun að velta því fyrir mér hverju sæti að Sjálfstæðisflokkurinn metur stöðuna svo í dag að hún sé óbreytt að þessu leyti, hún sé jafnvænleg og hún hafi áður verið í samstarfi við Framsóknarflokkinn og þar áður Alþýðuflokkinn sáluga, að þeir geti gert það sem þeim sýnist gagnvart samstarfsaðilanum í ríkisstjórn og að sjálfsögðu að það sé formsatriði að rúlla hlutunum hér í gegnum Alþingi og það megi bjóða Alþingi hvað sem er, sem er bullandi framsal á löggjafarvaldi sem ég hélt að hv. þm. Pétur Blöndal væri ekkert mjög hrifinn af.

Er það ekki framsal á framkvæmdarvaldi að ætlast til að fá frá þinginu heimild til að stofna opinbera stofnun, ráða henni starfsfólk, setja henni stjórn, hefja starfsemi hennar og koma svo seinna með lagaákvæði um hana? Hvað segir hv. þm. Pétur Blöndal um það, er þetta í réttri röð? Ef það eiga að gilda lög um þessa stofnun á annað borð á auðvitað að setja þau fyrst. Samfylkingin hefur sem sagt engar athugasemdir við þetta gert og stendur að málatilbúnaðinum með Sjálfstæðisflokknum. Það finnst mér segja þá sögu að Samfylkingin leggist í sama farið og fyrri samstarfsaðilar Sjálfstæðisflokksins gerðu. Samfylkingin lætur sig hafa það að búa til þingmeirihluta með Sjálfstæðisflokknum fyrir málum af þessu tagi sem bera öll einkenni valdhroka og yfirgangs gagnvart Alþingi. Annars bæru menn ekki svona lagað upp. Annars dytti mönnum ekki í hug að fara fram á það við Alþingi að standa svona að málum.

Virðulegur forseti. Það verður auðvitað að hafa það ef meiri hlutinn kýs að afgreiða málið svona. Við höfum þá að vísu ekki að séð það síðasta af þessu máli og eigum væntanlega eftir að fá það inn á nýjan leik í formi frumvarps. En þá verður munurinn sá að þá hefur ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið tekið sér vald til þess að hefja starfsemina, koma henni í farveg og skipa með tilteknum hætti og auðvitað verður frumvarpið sem kemur til Alþingis sniðið í samræmi við það. Þegar búið verður, á grundvelli þessa undarlega bráðabirgðaákvæðis, að búa stofnun, ráða henni fólk, hefja þar rekstur, setja henni stjórnendur o.s.frv., hvernig finnst mönnum líklegt að stjórnarfrumvarpið um stofnunina muni þá líta út? Það verður sniðið að því sem framkvæmdarvaldið er búið að gera. Þetta verða lög eftir á, um aðgerðir sem framkvæmdarvaldið hefur þegar gripið til. Það finnst mér kórónan á sköpunarverkinu ef lagasetningin fer að þróast þannig að fyrst taki framkvæmdarvaldið ákvarðanir, hefji einhverja starfsemi eða gerir einhverja hluti og þegar það er komið í gang sé smíðað frumvarp á grundvelli þess sem framkvæmdarvaldið hefur gert og það borið fyrir Alþingi til staðfestingar eftir á, til staðfestingar á því hvernig framkvæmdarvaldið vill hafa hlutina en samt bundna í lögum. Ég held að þetta sé lagasetningarferli sem menn mundu ekki láta bjóða sér í öðrum og þroskaðri þjóðþingum sem vandari eru að virðingu sinni en hægt er að segja um Alþingi Íslendinga, þá gömlu stofnun. Það er heldur dapurlegt, herra forseti, að niðurstaðan er sú að þetta frumvarp er á sinn hátt til marks um niðurlægingu Alþingis, sérstaklega á undanförnum árum, á svona undanförnum einum og hálfum áratug hefur það mátt taka málum af þessu tagi.

Okkar tillaga, til að ég ljúki því, virðulegur forseti, og ljúki þar með máli mínu er sú að 18. gr. frumvarpsins falli brott. Hún á ekkert skylt við efni annarra þátta málsins og hefur engin áhrif á megintilgang frumvarpsins sem er verkaskipting innan Stjórnarráðsins. Að fella greinina brott væri örlítil viðleitni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til þess að skapa frið, a.m.k. um þennan þátt málsins við lokaafgreiðslu. Mér segir svo hugur að við eigum hvort sem er næg átök eftir á næstu mánuðum og missirum sem tengjast umræðu og skoðanaskiptum um grundvallarskipulag og fyrirkomulagsatriði í heilbrigðisþjónustunni. Það teiknar allt til þess að heilbrigðismálin verði eitt af allra stærstu málum þessa kjörtímabils, sérstaklega ef hæstv. ríkisstjórn ætlar, líkt og hæstv. forsætisráðherra kallaði það, að taka til hendinni. Hann boðaði það í ræðu 30. september í Valhöll, sem menn geta horft á á netinu ef þeir vilja. Fari menn inn á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins blasir við rammi með formanninum. Þar er hægt að kveikja á honum og þá drynur á manni erkibiskups boðskapur um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og orkukerfinu og að nú hugsi menn sér gott til glóðarinnar með Samfylkingunni, að taka til hendinni í þessum efnum.

Þau mál mun að sjálfsögðu bera hingað inn með einum eða öðrum hætti, eins og ónefndur bóndi hérna handan við voginn mundi kannski orða það. Auðvitað hlýtur þingið að láta það til sín taka. Það kemur væntanlega í formi frumvarpa sumpart. En við í stjórnarandstöðunni munum heldur ekki láta kyrrt liggja ef ríkisstjórnin veður í einkavæðingu og kerfisbreytingar af því tagi til að þjóna pólitískri lund sinni fremur en faglegum markmiðum.

Virðulegur forseti. Tillaga okkar er að 18. greinin falli brott úr frumvarpinu.