135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni en ég get ekki orða bundist varðandi fullyrðingar hv. þingmanns um meintan niðurskurð á heilbrigðisþjónustunni. Það er öðru nær. Til Landspítalans voru settir 1,8 milljarðar kr. núna í fjáraukalögum til að rétta af halla spítalans. Í fjárlögunum vorum við að samþykkja 1 milljarð ofan á grunn frá síðasta ári sem þýðir að verið er að bæta í fjármagnið til Landspítalans. Á sama tíma er verið að styrkja starfsemi sjúkrahúsanna í nágrenni Reykjavíkur, m.a. til að létta á starfsemi Landspítalans til að hann geti tekið við verkefnum sem gerir honum kleift að sinna kjarnastarfsemi sinni.

Varðandi heilsugæsluna í Reykjavík þá er verið að bæta um 500 millj. kr. í grunninn hjá heilsugæslunni, og er þá horft frá síðasta ári, þar af eru 300 millj. kr. vegna heimahjúkrunar. Það er verið að auka í heimahjúkrunina, þrefalda hana frá 2006–2010. Grunnurinn var 500 millj. kr. árið 2006 en verður 1.400 millj. kr. þegar upp er staðið.

Hvernig í ósköpunun getur svo hv. þingmaður komið hér upp og fullyrt að verið sé að skera niður í heilbrigðisþjónustunni. Það er öðru nær. Það er verið að bæta í til að auka þjónustuna og mæta betur þörfum skjólstæðinga.