135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:54]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hver er að tala um óbreytta þjónustu? Þjónusta heilbrigðisstofnana breytist frá einu ári til annars. Það sem verið er að gera hér — ef hv. þingmaður vill hlusta — er að mæta kröfum stjórnenda Landspítalans um að létta af honum verkefnum. Það er verið að tala um Landspítalann sem endastöð heilbrigðisþjónustunnar. Hann er það vissulega. En til þess að gera honum kleift að þjóna kjarnastarfsemi sinni og bæta hana þarf að létta af spítalanum ákveðnum verkefnum. Því er verið að setja aukið fjármagn í sjúkrahúsin í kring til þess að þau geti verið fyrsti staðurinn sem skjólstæðingar þeirra mæta á sínu heimasvæði.

Það er líka verið að auka í heimahjúkrunina. Talað hefur verið um að um 100 manns, 100 aldraðir einstaklingar séu inni á Landspítala sem gætu verið annars staðar. Þess vegna er m.a. verið að bæta í heimahjúkrunina, þrefalda fjármagnið til heimahjúkrunar til að geta sinnt fólkinu heima og með stuðningi. Það er hugsunin í þessu, hv. þingmaður. Það er ekki verið að tala um óbreytta þjónustu, það er verið að breyta ákveðnum áherslum til að gera Landspítalanum betur kleift að sinna hlutverki sínu.

Varðandi heilsugæsluna í Reykjavík, þá hefur forstjóri heilsugæslunnar sagt að þær tillögur sem komu fram og fóru í fjölmiðla hafi ekki verið tillögur framkvæmdastjórnar stofnunarinnar heldur hugmyndir sem flugu á milli starfsmanna. Það er enginn fótur fyrir því að starfsemin verði skert og allra síst varðandi heimahjúkrun eins og ég hef farið í gegnum í ræðu minni.