135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu, ég tel hana vera mjög góða og vona að hún eigi eftir að verða talsverð enn. Það sem ég er að vísa til eru ummæli og yfirlýsingar og tillögur sem fram hafa komið eftir að fjárlög voru kynnt og án þess að viðbótarfjármagn kæmi þar til sögunnar. Ég er að horfa til yfirlýsinga þessara starfsmanna. Ég er að horfa til úttektar Ríkisendurskoðunar. Ég er að hlusta á það sem forsvarsmenn ýmissa deilda á Landspítalanum segja. Við höfum nefnilega líka unnið okkar heimavinnu, það er staðreyndin.

Við heyrum líka frá þeim sjúkrahúsum sem eru í kraganum í kringum Reykjavík að þau telja sig ekki geta sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað að gera með þeim fjárveitingum sem þeim eru skammtaðar. Þetta er staðreynd. Að verið sé að horfa til nýrra og betri rekstrarforma? Hvers vegna halda menn að fyrirtæki tengd lyfjaiðnaði séu að ásælast ritaraþjónustu á Landspítalanum? Til hvers? Til þess að hagnast á því. Upp eru að spretta fyrirtæki í heilbrigðisþjónustunni sem ætla að hagnast á kostnað hins opinbera.

Við ætlumst til þess, skattgreiðendur, að farið sé vel með okkar fjármagn. Þess vegna viljum við fá umræðu um þær kerfisbreytingar sem ráðist er í en við viljum ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra, einkavæðingarráðherra heilbrigðismálanna, fái óútfylltan tékka. Og þess vegna ítreka ég spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Finnst honum eðlilegt að skipaður sé forstjóri og (Forseti hringir.) stjórn í stofnun sem er ekki til án þess að Alþingi fái tækifæri til að ræða þann lagagrunn sem hún á að starfa samkvæmt?