135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:02]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst í sjálfu sér ekki koma neitt beint svar við því hvort hv. þingmanni þætti allt í lagi að einkarekstur væri inni í heilbrigðiskerfinu. Ég hef kannski ekki heyrt það fyrir hávaðanum og látunum. Þetta náttúrlega er fullmikið, finnst mér, hér eru míkrófónar sem taka þetta upp.

Við erum t.d. með ágæta stofnun í okkar kerfi sem heitir SÁÁ, við erum með Hlaðgerðarkot og Krísuvík. Þetta eru þrjú samtök sem hafa sérhæft sig í því að hjálpa fólki sem glímir við fíkniefnavanda og áfengismál. Það er líka ákveðin deild á geðsviði Landspítalans sem sér sérstaklega vel um slíkt.

Ég veit í sjálfu sér ekki hvar kostar minnst fyrir þá sem borga en þeir sem greiða fyrir þjónustuna eru náttúrlega skattgreiðendur, hvort sem hún er veitt hjá SÁÁ, Krísuvíkursamtökunum, Samhjálp eða deild 33A á Landspítalanum.

Ég er algjörlega sammála því að þótt fyrirtæki sé rekið á vegum ríkisins þarf ekki að vera samasemmerki á milli þess að þar hljóti að vera taprekstur. Það bara veldur hver á heldur. Það er alveg eins í einkageiranum, mörg einkafyrirtæki hafa farið á hausinn og mörg ríkisfyrirtæki hafa líka verið rekin með undirballans. Það sem skiptir mestu máli er að fólkið í landinu fái góða og fullkomna heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Hún á að vera rekin á sem hagkvæmastan hátt og það á líka að vera gagnrýni í kerfinu, hvort sem það ríkisrekið eða einkarekið.