135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna þessi nafngift, sölumiðstöð, verslunarmiðstöð? Það er til að leggja áherslu á þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að færa beri heilbrigðisþjónustuna inn í einkarekstrarform eftir því sem kostur er, þar sem fram fari verslun og viðskipti. Þarna býr ákveðin hugsun að baki og menn vilja ganga lengra í þá átt en í því kerfi sem við höfum núna. Þetta boðaði hæstv. forsætisráðherra m.a. í Valhöll í haust og við lásum um það í fjölmiðlum. Ég vona að ráðherrann og ríkisstjórnin kannist við eigin orð og þá einnig athafnir.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera viðstaddur umræðuna. Hann bendir á að 3. umr. við afgreiðslu fjárlaga sé lokið. Það er alveg rétt. En við 2. umr., í 5 mínútna ræðu minni þá óskaði ég eftir því að forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra yrðu viðstaddir 3. umr. (Gripið fram í.) Ég óskaði ekki eftir nærveru þeirra vegna þess að ég tók til máls mjög seint um nótt. En það kemur dagur eftir þennan dag og við erum að fjalla um framtíð heilbrigðisþjónustunnar og þess vegna vildi ég heyra sjónarmið hæstv. ráðherra.

Varðandi Vilhjálm Egilsson, fyrrverandi hv. þingmann, þá get ég upplýst það að Vilhjálmur Egilsson er einstaklingur sem ég met mjög mikils. Hann er meira að segja vinur minn. En við erum mjög á öndverðum meiði í stjórnmálum og m.a. um hvernig skipuleggja eigi velferðarþjónustuna og þar með heilbrigðisþjónustuna í landinu.

Þær aðferðir sem beitt er í nefnd sem hann veitir forstöðu um sparnað og niðurskurð á Landspítalanum eru mér ekki að skapi. Það er gamla reglustikuniðurskurðaraðferðin. Við höfum heyrt viðbrögðin frá forsvarsmönnum þessara deilda. Það er ástæðan fyrir því að ég tala um að menn fari um sjúkrahúsið (Forseti hringir.) með niðurskurðarsveðju og það er enginn útúrsnúningur.