135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er víst útúrsnúningur alveg eins og orðskrípið verslunarmiðstöð sjúkdóma er útúrsnúningur og rangnefni og sölumiðstöð sjúkdóma. Þetta eru allt saman einhver orðskrípi sem eru búin hér til til þess að draga upp dökka mynd. Og næst sér maður fyrir sér, eða hv. þingmaður lýsir því yfir að fyrrverandi þingmaður Vilhjálmur Egilsson gangi um niðurskurðarsveðjuna í verslunarmiðstöðinni. Er það ekki, eitthvað í þeim dúr?

Af hverju er ekki hægt að ræða þessi mál á málefnalegum forsendum, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Af hverju þarf að vera að snúa út úr þessum hlutum svona? Af hverju get ég ekki fengið að njóta málfrelsis míns hér úr ræðustólnum fyrir sífelldum frammíköllum hv. þingmanns? Sem metur málfrelsið svo mikils eins og við höfum orðið vitni að að undanförnu, að málfrelsi einhverra manna hér er miklu meiri virði en annarra.

Nei, virðulegi forseti. Því miður þá er þessi umræða af hálfu hv. þingmanns á villigötum, eins og mér þykir nú leiðinlegt að þurfa að segja það. Ég er alveg viss um það að við gætum átt gott samstarf um margvísleg málefni á sviði heilbrigðismálanna. Það þýðir ekki að ganga til slíkrar vinnu með fána útúrsnúninga á lofti þar sem gert er lítið úr viðleitni manna til þess að láta gott af sér leiða á þessu sviði.