135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að kveinka sér undan umræðum um einkavæðingu. Þar nægir að vitna í orð ráðherrans sjálfs á fundi í Valhöll 30. september síðastliðinn þar sem hann lýsti því fagnandi að nú yrði gengið til verka í heilbrigðisþjónustunni með aðgerðum sem væru meira í ætt við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Við sem höfum kynnt okkur þá stefnu eins og hún hefur birst í ræðu og riti og á flokkssamþykktum vitum hvað það þýðir.

En vegna þess, herra forseti, að hér hafa bæði hv. formaður heilbrigðisnefndar í morgun og í gær hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helgi Hjörvar, ítrekað verið sagt að það hafi ekki verið skorið niður í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þá ætla ég að leiðrétta það enn einu sinni. Það var nefnilega skorið niður í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt gögnum sem framkvæmdastjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu lagði fyrir hv. heilbrigðisnefnd, þá segir hér um greiðslustöðuna að það sé fyrirséður halli á árinu 2007, um það bil 120 millj. kr. og síðan segir: Skert fjárheimild vegna endurgreiðslu halla áranna 2007 og fyrr er 100 millj. kr.

Hvað er skert fjárheimild vegna endurgreiðsluhalla annað en niðurskurður? Þetta er beinn niðurskurður upp á 100 millj. kr. Og það er þess vegna að á næsta ári vantar yfir 500 millj. kr. en ekki þær 400 millj. kr. sem er samanlagður halli áranna frá því fyrir 2003, ársins 2006 og ársins 2007.

Það er alveg ljóst að við höfum áhyggjur af framtíð heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega höfum við áhyggjur af því (Forseti hringir.) að hún er í höndum Sjálfstæðisflokksins.