135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:29]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér fer fram 3. umr. um lagabálk um breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun aldraðra. Þetta er í raun lítill bandormur sem hefði átt að vera í þeim stóra bandormi sem tengist breytingum á Stjórnarráðinu. Nú er 2. umr. og atkvæðagreiðslu lokið og ég kem inn í umræðuna núna, þar sem ég var fjarverandi í opinberum erindum á meðan 2. umr. fór fram, til að koma sjónarmiðum mínum að í málinu.

Ég tel að allar breytingar á Stjórnarráði Íslands og allar meiri háttar kerfisbreytingar innan stjórnkerfisins þurfi að vanda vel. Það er eðlilegt að slíkt ferli taki nokkurn tíma. Mér hefði fundist æskilegt að koma breytingum á skipan Stjórnarráðsins á fyrir síðustu kosningar og það hefði borið meiri svip af samstöðu og yfirvegun þegar kemur að verkaskiptingu milli ráðuneyta. Það er alveg ljóst að það var kominn tími til þess að fara í heildræna endurskoðun á verkaskiptingu milli ráðuneytanna. Í öllum flokkum hafa komið fram hugmyndir um öflugt atvinnuráðuneyti. Það hefur líka verið sterk krafa hjá bæði öldruðum og öryrkjum að færa mál þeirra hópa yfir til félagsmálaráðuneytisins því að það beri ekki að líta á öldrun og fötlun sem sjúkdóma heldur miklu frekar sem félagsleg viðfangsefni. Það er gert með þessum breytingum sem samþykktar voru í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., að fara í þá tímabæru uppstokkun að færa öldrunarmál og félagslega þjónustu fatlaðra yfir til félagsmálaráðuneytis.

Ég styð hjartanlega þá hugmyndafræði sem þarna liggur að baki. Ég skil vel kröfu aldraðra og öryrkja og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum stutt þá hugmyndafræði í stefnumótun okkar og framtíðarsýn. En mér þykir sárt að sjá að unnið skuli að þessari verkaskiptingu á þann hátt sem hér er gert. Ég tel að það að leggja fram þetta frumvarp og afgreiða með gildistöku í fyrsta lagi 1. september, en þá er ætlað að nýja stofnunin taki til starfa, hefði gefið öllum þeim sem þurfa að koma að þeirri miklu vinnu sem eftir er tíma til að vanda uppskiptinguna á milli ráðuneytanna. Á þeim tíma mætti vinna úr erfiðum samstarfsverkefnum í sátt og finna góðar lausnir.

Þetta eru mjög vandmeðfarnir málaflokkar þar sem um er að ræða mörg grá svæði. Það er ekki sjálfgefið hvernig þessum verkefnum skuli skipt upp á milli heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytis. Í dag er t.d. tekist á um málefnin, t.d. dvalarheimilin sem enn þá verða á gráu svæði, jafnvel enn frekar eftir að þessi lög taka gildi. Í dag er togast á um hversu mörg hjúkrunarpláss séu á viðkomandi stofnunum og hversu mikla heimaþjónustu sveitarfélögin eigi að veita eða hvenær heilsugæslunni beri að sinna þeim einstaklingum sem heima eru. Það þarf góðar skilgreiningar. Skiptingin er viðkvæm í dag og verður það áfram. Ég hefði kosið að vinna að þessari mikilvægu skiptingu og gefa því betra tíma. Ég vísa ábyrgðinni á þessum vinnubrögðum á hendur ríkisstjórnarinnar. Ég get nú ekki annað en mér finnst þetta miður.

Ég er farin að efast um greiningu fjármálaráðuneytisins, kostnaðargreiningu í umsögnum með frumvörpum, þegar hvert frumvarpið á fætur öðru sem snýr að þessum breytingum á Stjórnarráðinu fær þá umsögn að því fylgi ekki kostnaður. Auðvitað kostar þetta mikið fé. Það vitum við eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar á nokkrum opinberum stofnunum sem hafa verið sameinaðar, t.d. Lýðheilsustöð og fleiri stofnunum. Því fylgir kostnaður, við verðum að horfast í augu við það, þegar breytingar verða innan stjórnkerfisins. Ég leyfi mér að efast um, hæstv. forseti, að ríkisendurskoðandi verði mjög ánægður í úttekt sinni á þessu máli þegar það verður orðið að lögum. Ég efast líka um að það standist stjórnsýslulög eða teljist til góðra stjórnsýsluhátta að afgreiða málin með þessum hætti.

Nú ræðum við um breytingartillögu varðandi 18. gr. þessa frumvarps þar sem sett er inn bráðabirgðaákvæði um nýja stofnun sem á að hafa það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Þessi stofnun á í fyrsta lagi að taka til starfa næsta haust en hér er sett inn ákvæði til bráðabirgða um þessa stofnun sem á þá að fjalla um í sérstöku frumvarpi sem leggja á fyrir á vorþingi. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta: Hver ræður ferð? Er það heilbrigðisráðherra sem ræður ferðinni eða þingið?

Samkvæmt umræddri bráðabirgðagrein á ráðherra að skipa forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Hann getur gert það núna 1. janúar og hið eina sem segir um þennan verðandi framkvæmdastjóra eða forstjóra stofnunarinnar er að hann skuli hafa lokið námi á háskólastigi, en það segir ekkert um á hvaða sviði það skuli vera, hvort það er í jarðfræði, heilbrigðisfræðum eða viðskiptafræði. Forstjórinn á að ráða aðra starfsmenn og síðan ætlar ráðherra að skipa fimm menn í stjórn og skipa formann stjórnar. Ráðherra ætlar að setja stjórninni erindisbréf en hins vegar kemur ekkert fram um að þessi forstjóri og þessi stjórn skuli sitja þar til lög um stofnunina taki gildi. Það á bara að skipa þennan forstjóra til fimm ára og því spyr ég hæstv. forseta: Hver ræður för?

Setjum nú svo að afgreiðsla þess frumvarps sem kemur fram um hina nýju stofnun verði á þann veg sem Alþingi ákveður og ekki alveg í anda hæstv. ráðherra. Hvað verður þá um forstjórann? Eða verður þetta þannig að hæstv. ráðherra muni 1. janúar ganga þannig frá öllu að frumvarp um þessa nýju stofnun verði algjörlega sniðið að nýjum forstjóra og þeim sem hann skipar? Hvert verður hlutverk Alþingis varðandi þá nýju stofnun? Verðum við eingöngu stimpill, afgreiðslustofnun, fyrir hæstv. ráðherra?

Ég tel að full rök hafi verið fyrir því að vísa afgreiðslu málsins frá í heild sinni, eins og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðu við afgreiðslu málsins. Niðurstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknar var á þá leið, með góðum rökstuðningi, að vísa ætti málinu frá fyrir það hvað það er í heildina illa undirbúið. Nú hefur málið verið afgreitt með 18. gr. innbyrðis og við leggjum fram þá breytingartillögu, málinu til bjargar, að 18. gr. falli brott. Það væri auðvelt fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa frumvarpið sem hann mun leggja fram varðandi þessa nýju stofnun. Þannig hefur verið unnið að málum áður varðandi samningu frumvarpa, þ.e. að skipa nefnd til þess að undirbúa og semja frumvarpið. Hægt væri að ráða starfsmenn til að sinna þeim verkum sem þarf að gera þar til lög hafa verið sett um stofnunina. Það væri eðlilegur gangur málsins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur það í hendi sér að skipa verkefnisstjóra og ráða til þess þá sérfræðinga sem hann vill til að undirbúa jarðveginn fyrir nýja stofnun. Það þarf ekki að gerast eins og hér er lagt til, hæstv. forseti.