135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[12:45]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég flutti við 1. umr. þessa máls nokkuð ítarlega ræðu sem fékk þó þá umsögn hjá sumum að hún væri fleipur eitt, órökstudd og fleira þannig að ég ætla að gera aðra tilraun til að skýra mál mitt.

Það er greint frá því frumvarpi með þessum lögum að við myndun núverandi ríkisstjórnar hefði verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, gera stjórnsýsluna einfaldari, skilvirkari og þar fram eftir götunum og að lögum um Stjórnarráðið hafi af þeim sökum verið breytt á sumarþingi.

Ég vil halda því til haga enn við þessa umræðu að þessar breytingar má fyrst og síðast og eingöngu rekja til skiptingar ráðuneyta og ráðherrastóla milli samstarfsflokka í ríkisstjórninni í vor þar sem minnsta ráðuneytinu var skipt í tvö örráðuneyti og meira kjöt sett á bein þessara litlu ráðuneyta.

Ákvörðun um þessar breytingar var tekin í maí, fyrirvaralítið, án þess að fyrir lægju skilgreind og rökstudd markmið, án þess að fyrir lægi þarfagreining, kostnaðargreining, stefnumótun og skýr framtíðarsýn varðandi þá málaflokka sem um ræðir. Ekki var gerð tilraun til að bera saman núgildandi skipan og núgildandi árangur þeirra stofnana við breytta skipan samkvæmt frumvarpinu og meta með rökstuddum hætti hvaða áhrif það hefði. Hvergi örlar á slíkum rökstuðningi í frumvarpinu, aðeins á fullyrðingum um meinta samhæfingu, aukna skilvirkni, að kerfið verði auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi o.s.frv.

Ég dreg það stórlega í efa, og fyrir því eru margvísleg þung rök, að þær breytingar sem hér eru gerðar leiði almennt séð til hagræðingar, einföldunar og aukinnar skilvirkni í stjórnsýslunni. Ég undanskil þó þær breytingar sem gerðar eru á Matvælaeftirlitinu þó að ég gagnrýni harðlega framkvæmd mála við þær breytingar og sú gagnrýni er studd af umsögnum umsagnaraðila og gesta sem komu fyrir nefndina.

Það liggur hreinlega fyrir í fjölmörgum umsögnum, faglegum og ítarlega rökstuddum umsögnum forsvarsmanna viðkomandi stofnana, að breytingarnar muni hafa í för með sér þveröfug áhrif og enn fremur að undirbúningurinn og vinnubrögðin séu óvönduð. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að starfsmenn hafa ekki verið hafðir með í ráðum, ekki fremur en þegar í morgun eða í gær var rætt frumvarp til þingskapa. Allt kemur þetta að ofan án samráðs.

Hins vegar er fullyrt í greinargerð með frumvarpinu að samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem hlut eiga að máli. Það er ótrúleg fullyrðing vegna þess að í umsögnum um frumvarpið er staðfest að svo hafi ekki verið. Fullyrðingin um samráð við forsvarsmenn og starfsmenn stofnana er röng.

Þetta er enn eitt dæmið sem ég nefndi hér í ræðu í gær um þingskapafrumvarpið, um óvandaðan undirbúning löggjafar sem leiðir til óvandaðrar, óskilvirkrar löggjafar. Allur undirbúningur er með þeim hætti að það verður að hafa af þessu þungar áhyggjur. Óvönduð lagasmíð leiðir til óvandaðrar löggjafar. Auðvitað var ekkert samráð frekar en fyrri daginn haft við stjórnarandstöðuna og hún var reyndar beitt tveggja þriðju meirihlutavaldi ríkisstjórnarflokkanna á sumarþingi í vor til að knýja þessar breytingar fram.

Það er undarlegt að horfa til þess í þessu máli og í þeim málum sem hafa verið keyrð hér fram með offorsi, vil ég segja, að þær ganga þvert á yfirlýsingar forsætisráðherra um að þverpólitísk samstaða sé forsenda breytinga á Stjórnarráðinu, á þingsköpum og fleira. Þessi fyrirætlan og þessi málsmeðferð gengur líka þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Breytingarnar eru auk þess þvert á stefnu og í hreinni mótsögn við stefnu Samfylkingarinnar um málefnalega samræðu, samráð og lýðræði. Það er fimbulkuldi stjórnlyndis í gangi í þjóðfélaginu enn þá sem hófst að mati hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur 1991 þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra. Það er sami fimbulkuldinn í samskiptum við stjórnarandstöðu, stofnanir og almenning.

Það er alvarleg fljótaskrift á frumvarpinu og vinnubrögðin eftir því óvönduð. Það er líka fráleitt að halda því fram, eins og sagt er í frumvarpinu, að þetta muni ekki hafa í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Reyndar er þegar staðfestur útgjaldaauki, sem kom fram eftir að frumvarpið var hér lagt fram, upp á tæpar 300 millj. kr. sem búið er að gera ráð fyrir í fjárlögum. Það er deginum ljósara að það mun koma til frekari útgjalda. Mér fannst undarlegt að heyra í ræðu hér í vikunni talað um fyrirséð óvænt útgjöld. Ég skil ekki alveg það orðalag, fyrirséð óvænt útgjöld. Það eru slík útgjöld sem er verið að tala um.

Ég vil líka benda á það og hef bent á það í ræðu við þetta frumvarp í fyrri umræðu að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hér, og reyndar í þingskapamálinu líka, ganga þvert á stefnu fyrri ríkisstjórnar um einfaldara Ísland og þá handbók sem gefin hefur verið út um það hvernig eigi að standa að löggjafarsmíð, frumvarpssmíð og löggjöf. Hvernig eigi að byrja, hvernig eigi að starfa frá hugmynd til löggjafar. Það er ótrúlegt að horfa til þess að slík handbók sé gefin út og virðist bara vera til málamynda.

Ég legg til að forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis taki inn málsmeðferðarsögu þessa frumvarps og hvernig staðið hefur verið að frumvarpssmíðinni og meðferðinni hér á Alþingi, taki það inn sem dæmi í þessa handbók sem víti til varnaðar. Hið sama gildir um þingskapafrumvarpið. Það er mjög brýnt að það verði tekið inn í þessa handbók til að sýna hvernig ekki á að vinna.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í einstaka þætti frumvarpsins en ítreka gagnrýni mína frá fyrri umræðu. Ég vil þó benda á varðandi fyrsta, annan og þriðja þáttinn þar sem lagðar eru til breytingar á sveitarstjórnarmálum og flutning sveitarstjórnarmála að eftir það verða veigamiklir þættir sveitarstjórnarmála vistaðir í tveimur ráðuneytum. Það er gagnrýnisvert.

Ég bendi líka á að það hefur verið gagnrýnt harkalega, og með réttu, að flytja ferðamálin að einhverjum litlum hluta til til iðnaðarráðuneytisins. Nú er svo komið í ferðamálum að þau eru vistuð í öllum ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, með einum eða öðrum hætti eins og einhver sagði. Við ferðaþjónustunni blasir afar flókin stjórnsýsla sem er gerð flóknari með þessu. Hvar er þá skilvirknin, hagræðingin, einföldunin, að gera aðgengi almennings að stjórnsýslunni betra? Hvar eru þau markmið? Af hverju er verið að setja svona markmið í frumvarp og svo er gengið þvert gegn þeim?

Það á að flytja alferðir til viðskiptaráðuneytisins. Sú breyting var einróma gagnrýnd af umsagnaraðilum sem lögðu til að þeirri breytingu yrði frestað í eitt til tvö ár. Ekki var hlustað á þær faglegu röksemdir frekar en aðrar í umsögnum. Ég fékk það á tilfinninguna við meðferð þessa máls hjá allsherjarnefnd að umsagnir hefðu verið umsagnanna vegna. Fagleg rök forsvarsmanna stofnana voru að engu höfð. Það er með ólíkindum að senda slík skilaboð til þessara stofnana, skilaboð um að menn hafi beinlínis rangt fyrir sér, að fagleg gagnrýni sé röng. Það er hreinlega fullyrt. Það er hvergi tekið á þessari gagnrýni í umsögn meiri hlutans.

Í fjórða, fimmta og sjötta þætti er fjallað um flutning menntastofnana landbúnaðarins til menntamálaráðuneytisins. Ég rökstuddi sjónarmið varðandi hann í fyrri ræðu minni en aðalatriðið er kannski það að þessir skólar hafa náð að þróast og dafna í nánum tengslum við aðrar stofnanir og fyrirtæki landbúnaðarins og bændur undir yfirstjórn landbúnaðarráðuneytisins. Þar hefur allt gengið vel og dæmi voru nefnd um sænskan landbúnaðarskóla sem fær þá einkunn að hann sé annar besti skólinn í heimi. Hann heyrir þar undir sænska landbúnaðarráðuneytið.

Vilji menn breyta eiga menn ekki að gera það breytinganna vegna. Vilji menn breyta eiga þeir að skoða forsendur þess starfs sem unnið er og spyrja hvað ávinnist. Hvað er til bóta? Hvernig hagnast þessar stofnanir á breytingunni? Engin slík rök eru frammi í málinu, engin úttekt á skólastarfinu eða á flutningi fyrir utan að tvískipta rannsóknafé milli ráðuneyta.

Svo kem ég að fimmta þættinum sem varðar skógræktina. Það er algjörlega skelfilegur þáttur þessa máls. Þar eru allir umsagnaraðilar sammála um að leggjast gegn breytingunni. Þeir vísuðu allir til meints markmiðs frumvarpsins, þ.e. að einfalda stjórnsýsluna og skipa skyldum málefnum undir eina stjórn þannig að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem í hlut eiga verði öflugri og skilvirkari einingar. Það var samdóma álit allra hagsmunaaðila sem leitað var til í skógrækt að hér væri verið að breyta mjög til hins verri vegar.

Menn höfðu bæði uppi þung orð, rökstudd, og fagleg orð með mikilli undiröldu, allir voru sammála um að þarna væri gengið þvert gegn markmiðum frumvarpsins. Samt sem áður berja ríkisstjórnin og allsherjarnefnd höfðinu við steininn og þetta skal keyrt í gegn þvert á þessar umsagnir. Það er ekki hægt að sjá merki einföldunar í þessum málaflokki þegar verið er að kljúfa hann milli tveggja ráðuneyta eins og mælt er fyrir um.

Ég vil líka vekja athygli á því í þessu tilviki að nánast allar nefndir Alþingis sendu frá sér umsagnir til allsherjarnefndar um málið. Yfirleitt var þar um að ræða meirihluta- og minnihlutaálit. Í ýmsum meirihlutaálitum ríkisstjórnarflokkanna kom fram gagnrýni á ákveðna þætti. Það komu fram athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara, sérstaklega á sviði skógræktarinnar. Þessi álit til allsherjarnefndar, bæði meiri hluta og minni hluta einstakra nefnda, voru hundsuð. Það var ekkert mark tekið á hvorki ríkisstjórnarmeirihlutaálitunum né minnihlutaálitum stjórnarandstöðunnar, ekkert.

Og maður spyr: Til hvers voru þau skrifuð? Voru þau eins og umsagnirnar frá fagaðilum skrifuð umsagnanna vegna? Til hvers er verið að biðja um umsagnir stofnana eða fólks úti í bæ eða nefnda Alþingis ef það er ekkert hlustað? Hvað veldur þessu? Auðvitað er ein skýringin á þessu óðagotið sem var á meðferð málsins og hraðinn, hin óvandaða lagasetningarmeðferð.

Það er illt að sitja í allsherjarnefnd og horfa upp á faglega rökstudd sjónarmið frá mörgum aðilum innan skógræktarinnar, stofnunum og öðrum sem ég ber virðingu fyrir, sem hafa unnið að skógræktarmálum í áratugi og vita nákvæmlega hvar skórinn kreppir og hvar ekki, vita nákvæmlega hvar vel er unnið og hvar ekki, og heyra umsagnir sem segja að í uppsiglingu sé stjórnsýslulegt klúður og greinilegt að ekki ríki pólitísk samstaða um þennan flutning og það sé eins konar málamiðlun að kljúfa hann upp í þágu skiptingar ráðherrastóla. Hvað er í gangi? Af hverju á stjórnsýslan að gjalda þess að menn skipti ráðherrastólum? Hér er bara um að ræða einfalda valdbeitingu að ofan.

Í sjötta þætti er fjallað um vatnamælingar og flutning til Veðurstofu sem á svo að breyta í nýja stofnun. Það á auðvitað að vera án kostnaðar þrátt fyrir að það eigi að umbylta stofnuninni og búa til nýja. Þar blasa við vandamál sem snúa að húsnæði og það blasa við önnur vandamál, óvissa og órói meðal starfsmanna. Af hverju eru starfsmenn ekki spurðir? Ég býst við að flestir hafi jafnvel verið sammála því að flytja þessar stofnanir saman. Ég ætla ekki að orða neitt um það, en af hverju eru þeir ekki hafðir með í ráðum? Af hverju þurfa þeir að búa við þá óvissu sem ríkir? Starfsmennirnir telja sig flutta eins og fé á fæti eða eins og dauða hluti. Þessu mun fylgja verulegur kostnaður.

Að því er varðar flutning Matvælaeftirlits undir eina stofnun var almenn ánægja með það hjá umsagnaraðilum, en það var gagnrýnt, þáttur starfsmanna í því máli var enn gagnrýndur og veruleg óvissa ríkir meðal starfsmanna þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Þær umsagnir sem fyrir liggja staðfesta að starfsmenn lifa í algjörri óvissu um framtíð sína, eru ekkert upplýstir og hafa engan viðbúnað getað haft um þær breytingar sem eru samkvæmt frumvarpinu að bresta á. Og hér skiptir auðvitað miklu máli að það er verið að flytja Matvælaeftirlitið til Selfoss sem ég fagna sem þingmaður kjördæmisins en starfsmenn sem búa hér í Reykjavík og hyggja á búferlaflutninga — til þess þarf ærinn tíma og fyrirvara, til þess þarf meira en einn mánuð.

Ég ítreka að það er sérdeilis ámælisvert að kostnaðargreining hafi ekki farið fram. Ég held því fram að niðurstaða í fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé röng og verulegur kostnaður blasi við og muni hlaupa á hundruðum milljóna. Með faglega gerðu kostnaðarmati sem væri unnið í nánu samstarfi við viðkomandi stofnanir hefði auðveldlega verið hægt að greina þennan kostnað sem er fyrirséður, áætla hann a.m.k. með töluvert mikilli nákvæmni svo að skeikaði ekki nema +/-10%.

Það verður að telja miður að þetta frumvarp skuli vera samið í óðagoti skiptingar ráðherrastóla í vor og án samráðs við undirstofnanir og starfsmenn þeirra. Ég gagnrýni það harkalega.

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni og skora á framkvæmdarvaldið að taka þegar upp náið og gott samstarf við starfsmenn og stofnanir og að þegar í stað fari fram ítarleg kostnaðargreining á flutningum þessum.

Eins og einn gesta í allsherjarnefnd sagði eru allar ákvarðanir teknar að ofan. Hér eru vinnubrögðin óviðunandi sem ala af sér óvandaða löggjöf eins og frumvarpið og umsagnir um það staðfesta. Ég harma þessi vinnubrögð verulega.