135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[14:00]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er ótrúlegt að við skulum ekki hafa tíma til að ræða mál eins og þetta. Það er ótrúlegt að við skulum vera að flýta okkur í frí þar sem við höfum fjórar eða fimm vikur í frí yfir jólin. Reyndar nýtist það ekki öllum sem frí, menn þurfa að vinna eitthvað þó að ekki sé þingfundur að ýmsum málum, heimsækja sín kjördæmi og annað í þeim dúr. En við höfum nógan tíma til að ræða þessi mál.

Það er dálítið sorglegt að þeir sem vilja koma frumvarpinu í gegn skuli ekki gefa sér tíma til að fara í málefnalegar umræður um það, efnislegar umræður. Það er sorglegt að horfa upp á að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir skuli ekki treysta sér til þess að fara í alvöruumræður.

Það er engin sátt um þetta fiskveiðistjórnarkerfi og verður ekki. Við vitum að 85% af þjóðinni eru á móti þessu kerfi og halda að það sé hægt að búa til sátt um að afhenda þúsund milljarða, til þess að leyfa mönnum að veðsetja, leigja og selja nýtingarréttinn á fiskinum í sjónum — þúsund milljarðar er verðmæti útgefins kvóta á Íslandsmiðum. Það verður engin sátt um að fá einhverjar 400–500 millj. kr. í ríkissjóð fyrir sameign þjóðarinnar. Það er langur vegur frá.