135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[14:06]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á málflutning hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og að tala með þeim hætti að útgerðin í landinu og sjávarútvegurinn hafi ekki orðið fyrir áfalli við niðurskurð þorskkvótans. (GMJ: Það er enginn að tala um það. Það er fullt af fólki sem hefur orðið fyrir áfalli líka.) Já, það kemur auðvitað ekkert í staðinn fyrir þessi 60 þús. tonn sem þurfti að skera niður. Það er algjörlega ljóst. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hv. þingmaður fékk sinn tíma hér í stólnum en ég vil bara segja að þeir tímar koma að við getum rætt þetta hér í sölum Alþingis með skipulegri hætti en verið hefur við þessa umræðu.

Þegar að því kemur vil ég hvetja hv. þingmann til þess að leggja fram stefnu Frjálslynda flokksins í einhverju skiljanlegu formi og sýna fram á að sjávarútvegur á Íslandi geti lifað við þær tillögur sem hann hefur í sjávarútvegsmálum. Ekki hafa mjög margir séð ljósið í þeim tillögum, ef hann getur fært rök fyrir þeim væri gaman að sjá það hér í þingsölum. Sjávarútvegur á Íslandi hefur orðið fyrir miklu áfalli. Þær tillögur sem við leggjum fram til þess að lækka frekar veiðigjaldið fyrir útgerðirnar skipta verulega miklu máli fyrir rekstrarumhverfi hans.