135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sala Landssímans og ráðstöfun á söluandvirði hans hefur verið ein hryggðarsaga. Fyrst var Landssíminn seldur með grunnnetinu og öllu saman þvert gegn vilja þjóðarinnar og síðan hefur verið að tekist á um það hvernig uppfylla megi þau loforð og væntingar sem gefin voru við sölu Landssímans um ráðstöfun fjárins og svikið á hverju ári. Þetta er þriðja árið sem flutt er frumvarp eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti hér um breytingar á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssímans.

Fjármagn átti að fara til eflingar fjarskipta í landinu með stofnun Fjarskiptasjóðs en sú framkvæmd er í fullkomnu skötulíki og tímasett loforð og fyrirheit sem gefin voru um eflingu fjarskipta og jafnrétti í fjarskiptamálum landsmanna hafa öll verið svikin og enn er allt í óvissu um framhaldið þar.

Þetta frumvarp er um ráðstöfun á fjármagni til ákveðinna vegaframkvæmda og til framkvæmda við Háskólasjúkrahús og Árnastofnun sem verið er að breyta. Ég er sammála hv. þingmanni í því og sagði það strax við samningu laganna um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands að þau væru óþingræðisleg og brytu gegn lögum um stjórnarskrá, lögum um fjárreiður ríkisins. Og enn er verið að flytja frumvarp um breytingar á ráðstöfun fjár, ríkisfé á næsta ári, sem er alveg hárrétt hjá þingmanninum að á að vera samkvæmt fjárlögum og þetta fjármagn átti að fara til ríkisins eins og annað fé en ekki þverbrjóta (Forseti hringir.) fjárreiðulögin með því að flytja þetta frumvarp sérstaklega.