135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að seinka eigi framkvæmdum vegna þess að undirbúningurinn sé skemur á veg kominn en áætlað var og þar á meðal er Landspítalinn tilgreindur.

Við vitum öll að núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur viljandi sett uppbyggingu Landspítalans í frestun. Hann er að fara yfir allar ákvarðanir sem þar hafa verið teknar á fyrri stigum með það í huga að til greina komi að breyta þeim. Þetta kemur fram í skriflegu svari hæstv. ráðherrans sem dreift var hér fyrir stuttu. Ríkisstjórnin sjálf er að setja þá framkvæmd í frestun.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þm. Pétur Blöndal þar sem ég veit að hann situr í heilbrigðisnefnd Alþingis og er í öðrum stjórnarflokknum, hvort honum sé kunnugt um að taka eigi einhverjar aðrar ákvarðanir en einungis þessa frestun varðandi Landspítalann af því að einhver þrýstingur er uppi núna um að byggja á Vífilsstaðalóðinni þar sem annaðhvort á að rísa einhvers konar einkarekin stöð eða eitthvað sem hugsanlega verður einkavætt í framtíðinni. Hvað vitum við á þessu stigi? Vegna þess að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt ályktun um að að fara ætti út í frekari einkavæðingu á orkusviði, og á sviði menntamála og heilbrigðismála. Í ályktuninni stendur „einkavæðing“, ekki einkarekstur heldur einkavæðing. Ég vil því gjarnan spyrja hv. þingmann hvort svona hræringar séu í gangi einhvers staðar í samfélaginu.