135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[14:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir greiningu hv. þingmanns á útliti mínu.

Ég ætla að reyna að bregðast aðeins við athugasemdum hans. Auðvitað reyna vátryggingafélög að hafa iðgjöld í samræmi við áhættu. Iðgjöldin eru hærri eftir sem það er líklegra að viðkomandi einstaklingur verði fyrir einhvers konar skaða sem tryggingafélög þurfa að mæta.

Reykingamenn þurfa að borga meira fyrir tryggingu. Það er dýrara að fá tryggingu ef maður hefur hættulegan lífsstíl, er í áhættuhópi vegna ofþyngdar o.s.frv. Það að tryggingafélögin standa frammi fyrir vanda af því að þeir sem eru líklegir til að verða fyrir skaða kaupi sér frekar tryggingu breytist ekki með þessu frumvarpi. Tryggingafélög standa alltaf frammi fyrir þeim vanda að það sé hugsanlega líklegra að sá hópur sem metur það sjálfur að hann sé líklegri til að verða fyrir tjóni tryggi sig kannski frekar. Það er bara vandi trygginga í eðli sínu. Tryggingafélögin reyna að mæta þeim vanda með því að dreifa áhættunni og meta viðkomandi einstakling.

Hins vegar hefur löggjafinn dregið ákveðin mörk. Við bönnum t.d. að tryggingafélögin skikki menn í erfðarannsóknir. Að sjálfsögðu fengju tryggingafélögin betri mynd af áhættu við að tryggja viðkomandi með því að senda hann í erfðarannsókn. Við segjum samt: Það eru ákveðin mörk. Mörkin eru t.d. þar.

Það að við séum að setja strangari reglur en annars staðar í Evrópu finnst mér fagnaðarefni vegna þess að hér erum við að taka tillit til persónuréttar þriðja aðila, ættingja. Þeir eiga ættingja. Móðir mín hefur þann rétt að ég sé ekki að básúna gagnvart tryggingafélagi að hún hafi verið haldin einhverjum sjúkdómi ef svo væri. (Gripið fram í.)

Mér finnst hér vera á ferðinni framsýn löggjöf. Við eigum ekki að hafa það sem röksemd í sjálfu sér að þótt eitthvert fyrirbæri sé með einhverjum hætti í öðrum löndum eigum við að hafa það nákvæmlega eins. Við eigum að vera framarlega í baráttunni fyrir persónurétti, um persónuvernd. Við eigum að vera stolt af því að við séum á undan öðrum ríkjum (Forseti hringir.) í að tryggja þetta einfalda samþykki þegar um er að ræða jafnviðkvæmar upplýsingar og (Forseti hringir.) heilsufarsupplýsingar.