135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:05]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumönnum meiri og minni hluta viðskiptanefndar fyrir umfjöllun þeirra um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og gat hvorki fylgt meiri né minni hlutanum tel ég mig knúinn til að gera grein fyrir afstöðu minni.

Málið virðist til komið vegna þess að ákveðinn hluti tryggingamarkaðarins þrýstir á um slíka lagasetningu. Það er ekki til komið vegna þess að löggjafinn sem slíkur hafi talið einhverja knýjandi nauðsyn á því að gera breytingar á 82. gr. vátryggingasamningalaganna heldur vegna þess að fram kemur ákveðin skýring sem ákveðinn aðili markaðarins telur eðlilegt að túlka með ákveðnum hætti.

Í fyrsta lagi tel ég að löggjafinn eigi ekki að hlaupa eftir slíkum hlutum. Löggjafinn setti fyrir stuttu ágæt lög um vátryggingarsamninga. Mismunandi túlkun hefur komið fram á ákveðnu ákvæði í 82. gr. Hv. talsmaður meiri hluta viðskiptanefndar gerði grein fyrir því í nefndaráliti sínu að það væri þá spurning um að eyða þeirri réttaróvissu sem hefði skapast. Þá spyr ég: Hvernig fara menn að í þessu samfélagi vilji þeir eyða réttaróvissu þegar löggjafinn hefur sett lög? Fara menn til löggjafans vegna þess að tvær eftirlitsstofnanir hafa skilað mismunandi áliti og gera kröfu um að lögum verði breytt, lögum sem sett voru eftir mjög vandaða málsmeðferð? Eða láta þeir hlutina ganga eftir þeim leikreglum sem þjóðfélag okkar byggist á? Og hvaða leikreglur eru það? Hvernig eyða menn réttaróvissu? Menn láta dómstólana skera úr um það hvað sé eðlileg og rétt túlkun í viðkomandi máli. Ég verð að segja, hv. þm. Atli Gíslason, að það gengur ekki að segja að maður treysti einni eftirlitsstofnun ríkisins umfram aðra vegna þess að sú eftirlitsstofnun hafi með ákveðna hluti að gera sem hinni komi ekki við. Þetta er einfaldlega, hv. þingmaður og hæstaréttarlögmaður, röng lögskýring.

Þegar um það er að ræða að mismunandi álit kemur frá opinberum aðilum, opinberum eftirlitsstofnunum, verða menn í sjálfu sér að vega og meta þau álit. Menn geta ekki tekið annað álitið og sagt: Af því að það kemur frá þessari stofnun hlýtur það að vera rétt, og taka það gersamlega gagnrýnislaust eins og guð hafi sagt það. Og ég ítreka að réttaróvissu eyðum við með því að bera mál undir dómstóla en ekki með því að krefjast þess að Alþingi breyti ákveðnum lögum eftir óskum ákveðins aðila markaðarins. Það gengur ekki upp.

Við skulum hafa í huga að í grundvallaratriðum er viðskiptasamband í vátryggingarsamningi á milli tveggja aðila, vátryggingartaka og vátryggingafélags. Ekki koma aðrir aðilar að því samkomulagi. Með því lagafrumvarpi sem hér er um að ræða, og þeim lögum sem við höfum, er öðrum og óskyldum aðilum viðskiptasambands blandað inn í það án þess að þeir hafi nokkuð með það að gera, án þess að þeir njóti einhvers af því — þeir geta hins vegar beðið skaða af því. Ég tel því mjög mikilvægt að við förum hægt um þær dyr sem hér er verið að ganga inn um og gætum að hagsmunum annars vegar vátryggingartakans og hins vegar þeirra aðila sem eiga að veita upplýsingar um heilsufar sitt og aðra hluti — ég sé ekki að með eðlilegum hætti sé rétt að gera kröfu um að þeir veiti þær upplýsingar.

Eins og ákvæði 82. gr. er í dag þá segir, með leyfi forseta:

„Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal áður en þeirra er aflað liggja fyrir skriflegt, upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um.“

Þarna er ekki verið að tilgreina einhverja sérstaka aðila heldur eingöngu verið að fjalla um það að komi til þess að upplýsinga sé aflað frá öðrum — miðað við orðalag ákvæðisins er verið að vísa til þess að þetta sé alger undantekningarregla, það sé undantekning að upplýsinga sé aflað frá öðrum en vátryggingartaka. Eins og orðalagið er hér getur vátryggingafélagið óskað eftir upplýsingum sem þýðingu hafi fyrir mat á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin óháð því hvernig sjúkdómur þeirra hefur greinst. Þarna er verið að fjalla um það að ákveðnir einstaklingar komi inn í og heimilt sé að fara fram á og óska eftir upplýsingum frá ákveðnum einstaklingum sem eru í skyldleikasambandi við þann sem óskar eftir vátryggingunni.

Það vill þannig til að ef ég óska vátryggingar þá kemur systur minni það ekkert við eða föður mínum eða ömmu. Þau eru ekki aðilar að því samningssambandi sem ég óska eftir að fara í. Það er með öllu óeðlilegt að löggjafinn sé að knýja á um það að systir mín, móðir mín, faðir minn, afi eða amma, eða önnur skyldmenni, séu skyldug til að gefa upplýsingar sem þeim eru e.t.v. viðkvæmar vegna þess að markaðsaðilarnir krefjist þess. Og ég verð að segja, með fullri virðingu, hv. þingmaður, Atli Gíslason og vinstri grænir, að mér finnst það mjög undarlegt ef þeir ætla að samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir vegna þess að verið er að hlaupa eftir sérstökum óskum hluta markaðarins sem að mínu viti eru í andstöðu við hagsmuni vátryggingartaka, en ég kem að því síðar í máli mínu.

Það er verið að blanda inn óskyldum aðilum sem hafa ekkert með málið að gera. Af hverju á löggjafinn að leggja þá skyldu á skyldmenni mín að það hvort ég fái vátryggingu sé undir því komið hvort þau veiti mér heimild til að afla ákveðinna upplýsinga um heilsufar sitt? Hvað ef þeir hlutir eru viðkvæmir og skyldmenni vátryggingartaka vill ekki upplýsa þá? Í hvaða stöðu er þá sá sem óskar vátryggingar? Fær hann vátrygginguna eða fær hann hana ekki? Að því er vikið í lagafrumvarpinu að enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis. Með hvaða hætti og hvernig er sanngirnismatið í þessu sambandi? Hvar liggur það? Er einhvers staðar í umfjöllun þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi, í framsögu eða í nefndaráliti eða í öðrum lögskýringargögnum, vikið að því hvað átt er við með þessu orðalagi? Ég get ekki fundið að þar séu tekin af þau tvímæli sem eðlilegt væri að krefjast.

Hv. þm. Atli Gíslason vék réttilega að því í ræðu sinni áðan að iðgjaldið er áætlað út frá almennum reglum. Það er miðað við meðalævilíkur og tryggingariðgjöld eru miðuð við það. Hvernig á að fara með þetta? Aðilar sem komu fyrir nefndina við umfjöllun þessa máls voru spurðir um það hvort tryggingariðgjöld mundu þá hugsanlega lækka hjá þeim sem væru ekki í sérstökum áhættuhópum eða hvort þau mundu hækka hjá hinum. Við þessu fengust engin afgerandi svör og það sem ég helst skildi var að meðaltalsiðgjaldið yrði það sama miðað við meðaltalsævilíkur, heilsufar og annað í þeim dúr, en hugsanlega yrði sett hærra iðgjald á þá sem væru í einhverjum sérstökum erfðafræðilegum áhættuhópum. Viljum við leggja slíkum reglum og sjónarmiðum lið á Alþingi? Viljum við hafa það þannig að sá aðili markaðarins sem er tvímælalaust sterki aðilinn á markaðnum njóti algerra forréttinda, í fyrsta lagi með hvaða hætti hann gefur fólki kost á að taka tryggingar og í öðru lagi að hann geti skammtað sér hærri iðgjöld en eðlilegt er og gert er í dag? Ég get ekki séð að það séu sjónarmið sem við eigum að fara eftir eða taka tillit til.

Ég vil vekja athygli á því að Alþýðusamband Íslands skilaði vandaðri umsögn í þessu máli. Í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Sú breyting sem frumvarpið hefur tekið frá því það síðast var til umræðu er ekki til bóta. Nú er gert ráð fyrir því að vátryggingartaki skuli, ef hann getur, afla formlegs samþykkis foreldra sinna og systkina til þess að veita vátryggjanda viðkvæmar persónuupplýsingar um þau. Í greinargerð er vísað til þess eyðublaðs sem geri ráð fyrir að þessum spurningum sé svarað um ættingjana í heild en engin ákvæði þar að lútandi eru í frumvarpinu sjálfu. Ekkert er fjallað um afleiðingar þess ef einn eða fleiri ættingja er mótfallinn upplýsingagjöf en augljóst er að upplýsingar um hópinn í heild geta auðveldlega falið í sér upplýsingagjöf um viðkvæmar persónulegar upplýsingar …“

Þá segir að öðru leyti í áliti og í bréfi Alþýðusambands Íslands af þessu tilefni, með leyfi forseta:

„Vátryggjandi hefur allt aðra og sterkari stöðu en vátryggingartaki og því mun þeirra upplýsinga sem vátryggjanda er heimilað að óska eftir alltaf verða aflað, hvað sem öllu líður.“

Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í áliti Alþýðusambands Íslands og ég vitnaði í.

Í sama bréfi vísar Alþýðusamband Íslands til 83. gr. laga um vátryggingarsamninga og álítur að það verði að teljast að það veiti vátryggjanda nægilega tryggingu fyrir að tryggingataki veiti þær upplýsingar sem hann getur og best veit og ég tek undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

Í umsögn Læknafélags Íslands sem barst nefndinni segir, með leyfi forseta:

„Í því frumvarpi sem nú er lagt fram er gerð tilraun til að koma til móts við sjónarmið félagsins. Að mati félagsins er enn of skammt gengið til að vernda stjórnarskrárbundinn rétt aðstandenda vátryggingartaka, um friðhelgi einkalífs, með því að ekki er tryggt með fullnægjandi hætti að fyrir liggi upplýst samþykki þeirra.“

Læknafélagið gerir kröfu til þess og telur eðlilegt og ég tek undir með Læknafélaginu hvað þetta varðar, að ekkert minna en upplýst samþykki getur komið til greina þegar um slíka hluti er að ræða sem hér er verið að tala um, þ.e. viðkvæmar persónulegar heilsufarsupplýsingar sem á að veita án þess að upplýst samþykki liggi fyrir. Ég efa það, ágætu alþingismenn, að þessi löggjöf eins og hún er orðuð hér standist ákvæði um persónuvernd eins og þau hafa verið ákveðin af fjölþjóðasamningum sem við erum bundin af.

Í fleiri atriðum víkur Læknafélagið að sjónarmiðum sem eru mjög gild varðandi það sem hér skiptir máli og mælir gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég ítreka að Læknafélagið telur að of skammt sé gengið hvað þetta varðar. Það er hægt að vísa í umsagnir ýmissa aðila sem komu fyrir nefndina. Talsmaður neytenda hafði sent bréf þar sem hann lýsti sig samþykkan málinu en á fundi hjá nefndinni var ekki hægt að skilja hann með öðrum hætti en hann væri á móti samþykki þessa frumvarps. Hið sama kom fram í umsögn Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin telja eðlilegt að vátryggingafélag meti það á grundvelli upplýsinga um væntanlegan vátryggingartaka sjálfan hvort það vilji tryggja hann og þá fyrir hversu hátt iðgjald. Telja samtökin of langt gengið að heimila vátryggingafélögum að óska eftir upplýsingum um sjúkdóma í fjölskyldu vátryggingartaka.“

Neytendasamtökin leggjast því gegn samþykki frumvarpsins. Sama gerði talsmaður neytenda eftir því sem ég gat best skilið hann á fundi nefndarinnar þó að jákvætt bréf varðandi samþykki laganna lægi fyrir, fyrir fram í umsögn hans en á fundi með nefndinni var um annað að ræða. Ég gat heldur ekki skilið fulltrúa frá viðskiptaráði öðruvísi en þeir væru á móti því að þessi lög yrðu samþykkt.

Ef við skoðum þær upplýsingar sem við höfum varðandi það hvaða reglur gilda í nágrannalöndum okkar þá kemur m.a. fram að í Bretlandi er það ófrávíkjanleg regla að ekki má beita vátryggingartaka neinum þrýstingi til að undirgangast erfðarannsóknir eða afla slíkra upplýsinga sérstaklega. Í Danmörku er tryggingafélögum heimilt að afla upplýsinga hjá tryggingartaka um bæði heilsufar hans sjálfs og nákominna ættingja, þ.e. foreldra og systkina. Þær takmarkanir sem í þessu efni gilda eru af tvennum toga en samkvæmt persónuverndarlögum er tryggingafélögum aðeins heimilt að afla þeirra upplýsinga sem þýðingu hafa við slíkt áhættumat. Við erum í sjálfu sér ekki með slíkt ákvæði í því frumvarpi sem hér liggur fyrir þannig að það vantar inn í það. Það er ekki verið að tala um upplýsingar sem byggja á erfðaeiginleikum sem eiga ekki eða sem koma ekki til greina samkvæmt þessu í dönsku lögunum eftir því sem ég best get skilið þau.

Í Svíþjóð eru rúmar heimildir til að spyrja tryggingartaka um heilsufar með þeim undantekningum að erfðaupplýsingar má ekki nota vegna trygginga sem eru undir ákveðnum viðmiðunarfjárhæðum. Það er sem sagt miðað við að fjárhæðin þurfi að vera töluvert há til að hægt sé að byggja á þeim hlutum sem við ætlum að fara að setja í lög á Íslandi án nokkurra takmarkana. Í Svíþjóð tel ég það vera eðlilega neytendavernd, að gæta að hagsmunum hins venjulega neytanda með því að hafa þá ákveðna viðmiðunarfjárhæð til þess að ákveðinna víðtækari upplýsinga sé ekki aflað en um hann sjálfan, bara viðkomandi vátryggingartaka.

Í Noregi er lagt almennt bann við því að einstaklingar eða lögaðilar hagnýti sér erfðafræðilegar upplýsingar en bannið gildir eingöngu við töku vátrygginga. Tryggingafélögunum í Noregi er hins vegar heimilt að spyrjast almennt fyrir um heilsufar fjölskyldu tryggingartaka án þess að upplýst samþykki liggi fyrir. Í sjálfu sér gildir sama regla hér núna að óbreyttum lögum. Tryggingafélögin hafa sömu heimildir samkvæmt vátryggingarsamningalögunum og gilda í norsku lögunum. Hvaða nauðsyn ber þá til að breyta hér og heimila vátryggingafélögunum víðtækari möguleika til upplýsingaöflunar en gildir á norska tryggingamarkaðnum? Eða á sænska tryggingamarkaðnum eða á danska tryggingamarkaðnum? Af hverju á Alþingi Íslendinga í því skyni að eyða meintri réttaróvissu eins og hér hefur verið haldið fram, að hlaupa upp til handa og fóta og lögfesta jafngallað frumvarp og hér liggur fyrir? Þá ítreka ég að það vantar í fyrsta lagi þann grunn að gera kröfu til þess að það liggi ætíð fyrir upplýst samþykki þess sem er að veita viðkvæmar persónulegar upplýsingar og það er ekki hægt að samþykkja að um neitt minna sé að ræða.

Í öðru lagi skortir á að það sé með einhverjum hætti sett verndarákvæði fyrir neytandann í þessu sambandi, vátryggingartakann, þannig að það sé hugsanlegt að veita víðtækari heimild vátryggingafélaga til að afla upplýsinga ef um háa og óvenjulega tryggingu er að ræða en ekki hina almennu venjulegu tryggingu á markaðnum þar sem iðgjaldið miðast við það sem almennt gerist, lífslíkur, ævilíkur, sjúkdómalíkur o.s.frv. sem menn þekkja. Mér finnst mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við höfum þessi atriði í huga við afgreiðslu málsins. Ég hefði kosið að hv. viðskiptanefnd hefði tekið sér meiri tími til þess að kanna þessa hluti, farið í gegnum þau ákvæði sem gilda í nágrannalöndum okkar og sett þau ákvæði inn í þetta lagafrumvarp. Ef það er vilji til þess að koma fram breytingum sem gæta hagsmuna neytandans í þessu sambandi þá væri það æskilegt, af því að tvímælalaust er neytandinn alltaf veikari aðilinn í samskiptum sínum við vátryggingafélagið.

Ég get líka vísað til þess sem kom fram í umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga en þar segir, með leyfi forseta:

„Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga álítur nú gerðar breytingar til bóta. Engu að síður er enn til staðar í frumvarpinu heimild til að veita upplýsingar um heilsufar þriðja aðila án samþykkis viðkomandi. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ítrekar því andstöðu sína við því að þessi heimild verði veitt með samþykki frumvarps þessa.“

Ég bendi á, virðulegi forseti, að ég hef vísað til umsagna neytendasamtakanna, umsagnar Alþýðusambands Íslands og umsagnar Læknafélags Íslands og allir þessir aðilar leggjast gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt.

Ég ítreka, og það er mjög mikilvægt að við ruglum ekki markaðsstarfsemina með setningu sérstakrar löggjafar sem færir umgerðina út fyrir það sem eðlilegt er á markaðnum. En það er verið að gera og er að hluta til búið að gera með samþykki vátryggingarsamningalaganna eins og þau eru. Þar er gengið svo langt og ítarlega eins og hægt er að hugsa sér vegna þess að viðskiptasambandið er á milli vátryggingartaka og vátryggingafélags. Ekki á milli vátryggingartaka og pabba eða mömmu eða náinna skyldmenna, eða á milli vátryggingafélags og ömmu hugsanlegs vátryggingartaka.

Með tilliti til þess að ágætur vinur minn, hv. þm. Ellert B. Schram, gerist nú þreyttur nökkvat þá skal ég stytta mál mitt samkvæmt ósk hans. Í lokin vil ég draga saman og benda á í fyrsta lagi það grundvallaratriði í rétti sem er að það sem ekki er bannað er leyfilegt. Þar af leiðandi geta vátryggingafélögin óskað eftir öllum hlutum, beðið um alla hluti aðra en þá sem þeim er ekki bannað að biðja um eða einhverjar reglur gilda um að þeir geti ekki óskað eftir. Í 83. gr. vátryggingarsamningalaganna segir, með leyfi forseta:

„Hafi vátryggingartaki eða vátryggður sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. 82. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð.“

Í 1. gr. 82. gr. segir:

„Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat á áhættunni. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka“ — það er ekki verið að tala um að þeirra sé aflað hjá einhverjum öðrum, beint hjá vátryggingartaka — „eða eftir atvikum vátryggðum sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins.“

Við höfum þau ákvæði í íslenskum lögum í dag, að samkvæmt vátryggingarsamningalögunum þá ber vátryggingartaka að veita þær upplýsingar sem hann telur, sem hann veit, sem hann má ætla að hafi þýðingu eða gildi varðandi vátryggingu hans. Ef hann dregur eitthvað undan þá á hann á hættu komi til tjónsatburðar sem hann er tryggður fyrir, að vátryggingafélagið segi: „Við erum undanskildir ábyrgð vegna þess að þú gerðir ekki fullnægjandi grein fyrir þessum áhættuþætti sem þér var kunnugt um þegar þú tókst vátrygginguna.“ Þannig er það í mörgum tilvikum í þeim vátryggingum sem hér um ræðir vegna þess að upplýsingaskyldan og víðtæk upplýsingaskylda hvílir á vátryggingartaka við töku vátryggingar, mjög víðtæk upplýsingaskylda. Ég held því fram að það eigi að vera nægjanleg vernd fyrir vátryggingafélögin að hafa jafnrúmt orðaða heimild í vátryggingarsamningalögum og nú ræðir um, án þess að þurfa að gera sérstaka kröfu til þess og heimila að afi, amma, pabbi, mamma og ýmsir aðrir séu skyldaðir til að bera ábyrgð á vátryggingu þess sem ætlar að taka vátrygginguna í hvert skipti.

Með því að samþykkja þetta frumvarp er að mínu viti verið að vega að hagsmunum vátryggingartaka. Það er verið að torvelda fólki að taka tryggingar. Ef foreldrar neita þá fær viðkomandi ekki tryggingu. Þá kemur til skoðunar sanngirnismat. Hver metur það? Það liggur fyrir að þá er upplýsingaskyldunni ekki fullnægt samkvæmt því lagaákvæði sem hér er verið að leggja til, viðkomandi fær hugsanlega ekki tryggingu vegna þess að systir eða bróðir neitar að gefa samþykki sitt við því. Þá liggur líka fyrir að rennsli í umsóknarferlinu verður miklu erfiðara og stór hópur vátryggingartaka lendir í erfiðleikum vegna þessara ákvæða. Í þriðja lagi er verið að útiloka stóran hóp frá því að fá vátryggingu. Það er líka mikilvægt atriði.

Þeim sem vilja taka trygginguna finnst að það sé rík ástæða til að geta tekið tryggingu. Þeir telja að þeir hafi hagsmuni af því að taka þá vátryggingu sem um er að ræða og löggjafinn á að auðvelda það ferli. Það á að auðvelda viðskiptin, það á ekki að standa í vegi, það á ekki að setja fyrirfarandi tálmanir gegn því að eðlileg, greið og sanngjörn viðskipti geti átt sér stað á markaðnum. Það er hlutverk löggjafans að gæta þess að setja reglur sem tryggja hagsmuni beggja, vátryggjanda og vátryggðs og gæta þess að sá sem er að taka trygginguna, vátryggingartakinn, er veikari aðilinn í þeim samskiptum. Þess vegna á ekki að setja þá skyldu á herðar hans að afla upplýsinga hjá þriðja aðila eða að þeirra sé aflað með einhverjum hætti.

Í fjórða lagi er ekki hægt að gera kröfu til neins annars eða minna en þess, að fyrir liggi upplýst samþykki hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið nokkur atriði, ég hef gert grein fyrir því að með því að lögfesta það ákvæði sem hér er lagt til erum við að fara töluvert aðra leið en gildir í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í Svíþjóð og Noregi. Ég tek það fram að neytandinn í þessu sambandi hefur ekki sömu vernd og hann hefur t.d. í Svíþjóð og Noregi. Í Noregi gilda töluvert aðrar og þrengri reglur, í Svíþjóð er um rýmkun að ræða ef um sérstaklega háa tryggingu er að ræða.

Virðulegi forseti. Þess vegna segi ég: Það er mikilvægt að nefndin taki þetta frumvarp aftur til sín, kanni betur þær reglur sem gilda um neytendavernd vátryggingartaka í þessu sambandi á hinum Norðurlöndum til að við séum ekki að setja fyrirfarandi tálmanir fyrir neytendur til að fá vátryggingar á eðlilegu verði.