135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:35]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt í ræðu hv. þingmanns var nokkuð kostulegt og ekki farið rétt með. Þingmaðurinn spurði um tilurð þess að þessum lögum er breytt. Það er einkum tvennt. Annars vegar er ágreiningur um túlkun þessarar greinar laganna sem sett voru á sínum tíma. Það var illa frá þeim gengið á sínum tíma af hálfu löggjafans, algjörlega óviðeigandi lagasetning, og um það er deilt á báða bóga og þau túlkuð til hins ýtrasta í báðar áttir. Ef við göngum út frá því að túlkun tryggingafélaganna sé rétt, þ.e. að það sem ekki er sérstaklega bannað sé leyfilegt, þá er það algjörlega óviðunandi ástand og þá þarf að þrengja verulega að heimildum tryggingafélaganna til að afla upplýsinga um þriðja aðila. Það er kjarni málsins og það er neytendaverndin í þessu frumvarpi.

Þingmaðurinn sagði áðan að hér væri verið að leyfa víðtækari heimildir en á öðrum Norðurlöndum. Það er verið að ganga nákvæmlega í hina áttina. Það er verið að þrengja verulega heimildir vátryggingafélaganna til að afla þeirra upplýsinga sem við ræðum hér, um þriðja aðila, til að meta áhættuna við að tryggja líf- og persónutryggingar þess sem óskar eftir tryggingunum.

Við erum að ganga til baka í átt til sjónarmiða Persónuverndar. Eins og Persónuvernd segir í úrskurði sínum er hún mun sáttari við þetta en núgildandi lög eða þá tilraun sem gerð var til að breyta þeim á sínum tíma. Hér er verið að þrengja að heimildunum og skýra það verulega hvaða heimildir tryggingafélögin hafa. Því er rík ástæða til að breyta 82. gr. í þá veru sem hér gert, eins og formaður nefndarinnar rakti alveg prýðilega áðan og eins framsögumaður minni hluta, hv. þm. Atli Gíslason. Hv. þm. Jón Magnússon fór því nákvæmlega í hina áttina og sneri mjög út úr þeirri stöðu sem uppi er í málinu.