135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:37]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur verið rakið er lögfræðilegur ágreiningur um hvernig beri að túlka þetta og hvort þarna sé um rýmkun eða þrengingu að ræða. Ég tel að með því að heimila þetta og gera að lögum það sem hér er lagt til séum við að leggja miklu meiri hömlur og takmarkanir á vátryggingartaka en eðlilegt er. Að öðru leyti tek ég undir sjónarmið sem hér komu fram en tek samt fram að ég tel að setja hefði þurft skýrari ákvæði um neytendavernd í þessi lög til að eðlilegt væri að samþykkja þau. Mér finnst mikilvægast að við setjum skýr ákvæði um það t.d. að takmarka heimildina til að afla upplýsinga.

Eins og hv. þm. Atli Gíslason gat um áðan gilda fyrir tvær túlkanir tveggja eftirlitsstofnana ríkisins um það hvernig skýra beri núverandi 82. gr. Ég leyfi mér að skýra hana á þann hátt sem ég gerði áðan en ég tel að með henni sé verið að vega að hagsmunum vátryggingartaka. Ég gat þess í ræðu minni að það sem ekki er bannað sé leyfilegt. Það er hin eðlilega og venjulega markaðsstarfsemi sem við byggjum á í þjóðfélaginu, að það sem er ekki bannað sé leyfilegt. Þá er spurningin hversu langt hægt er að teygja núverandi orðalag 82. gr. þar sem segir: „Sé upplýsinga aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum“ — það er ekki bundið hverjir það eru en hins vegar er þetta skýrt skilyrði — „skal áður en þeirra er aflað liggja fyrir skriflegt, upplýst samþykki …“

Og ég legg mikið upp úr því, hæstv. viðskiptaráðherra, að aldrei megi gera minni kröfur en þær að ávallt liggi fyrir skriflegt upplýst samþykki þriðja aðila sem ekki er aðili að viðskiptasamningi um þau atriði sem spurt er um. Alveg eins og gert er t.d. í bankastarfsemi (Forseti hringir.) og víðar.