135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:44]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, skv. 82. gr. laga nr. 30/2004 segir svo í 2. mgr.:

„Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal áður en þeirra er aflað liggja fyrir skriflegt, upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um.“

Það er það og ekkert minna sem ég tel að eigi að vera og þurfi að vera þegar upplýsinga er aflað um jafnviðkvæm persónuleg atriði og hér er um að ræða hjá þriðja aðila sem er ekki aðili að viðskiptasamningi. Það er þar sem við erum að koma inn í svo óeðlilega og sérstæða hluti. Við erum að tala um einstakling sem kemur samningssambandi þess sem ætlar að taka vátrygginguna ekkert við. Við gerum kröfu á þennan þriðja aðila, hinn víðkunna grandalausa þriðja mann um að hann gefi upplýsingar um eitthvað sem er kannski mjög viðkvæmt fyrir hann. Hvað ef hann segir nei? Hvað þá? Hvaða heimildir hefur tryggingafélagið þá til að segja: Jæja, þá er ég bara ekki tilbúið til að gefa þér vátryggingu, góði minn?

Hvar koma þá upplýsingarnar, og það er eitt af því sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður meiri hluta og talsmaður meiri hluta viðskiptanefndar, tjáði sig ekki um, hvar og hvernig túlkum við það ákvæði í lagagreininni þar sem fjallað er um sanngirni? Hvar er um það að ræða?

Af því að hv. þingmaður spurði mig svo greinilega og ítrekað og þrisvar sinnum í ræðu sinni: Á hvaða leið er hv. þm. Jón Magnússon? Hann spurði reyndar er hann með þessari leið eða hinni leiðinni? Ég skal svara þingmanninum afdráttarlaust. Ég er á frjálslyndu leiðinni. (Forseti hringir.)