135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, mér finnst eðlilegt að þingmenn noti stjórnarskrárbundinn rétt meðan þeir hafa hann. Það er eðlilegt að menn nýti sér þann ræðutíma sem markaður er hverju sinni og þörf er á. Hitt er annað mál, og um það get ég upplýst hv. þingmann í fullri vinsemd, að ég hefði getað talað innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í nýjum þingskapalögum og farið létt með það. Það hefði hins vegar kostað það að ég hefði þurft að undirbúa mig ofurlítið betur en það er einmitt það sem við í þingskapameirihlutanum gerum kröfu til að þingmenn geri. Ég mun að sjálfsögðu gera það þegar nýju þingskapalögin hafa náð fram að ganga.

Ég er í sjálfu sér ekkert að efast um hver afstaða vinstri grænna er varðandi þessi atriði að öðru leyti. Ég hefði þó vonast til að afstaða þeirra yrði sú að greiða atkvæði gegn frumvarpinu meðan þar er ekki kveðið á um ríkari neytendavernd en gert er, ég hefði satt best að segja vonast til þess. Eins og hv. þm. Atli Gíslason, framsögumaður minni hluta viðskiptanefndar, gat um, er miðað við ákveðið tryggingaiðgjald sem er meðaltalsiðgjald miðað við allar fáanlegar upplýsingar um ævilíkur og annað sem vátryggingafélagið hefur. En vátryggingartakinn hefur hins vegar ekki aðgang að þeim upplýsingum með sama hætti, hann er veikari aðilinn í samskiptum þessara tveggja aðila. Tryggingariðgjaldið er ákveðið með því að vátryggingafélagið hafi ákveðinn hagnað miðað við meðaltalið. Síðan á að leggja viðbótargjald, og verður gert verði frumvarpið að lögum, ef einhverjar sérstakar upplýsingar koma fram um vandamál sem tengjast heilsufari ættingja.