135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:52]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að þakka nefndinni sérstaklega fyrir að vinna hratt og vel í þessu máli og skila því prýðilega frá sér til þingsins. Ég vil taka skýrt fram að hér er að sjálfsögðu verið að banna notkun erfðafræðilegra upplýsinga í tryggingastarfsemi eins og annars staðar er gert og hv. þm. Jón Magnússon nefndi áðan. Lagt var upp með að ná málamiðlun milli tveggja sjónarmiða sem voru hvort í sína áttina og harkalega var deilt um eftir lagasetninguna á sínum tíma, þ.e. 82. gr. sem kvað á um afmörkun heimilda til að krefjast upplýsinga til mats á áhættu vátryggingartaka. Ég held að sú niðurstaða sem hér er fengin sé ásættanleg.

Ég velti því mjög fyrir mér, þegar frumvarpið var samið nú í sumar og haust, hvort fara ætti þá leið að banna algerlega að afla upplýsinga um heilsufar þriðja aðila en það hefði haft mjög miklar afleiðingar á tryggingamarkaðinn. Það var alveg einboðið og lá fyrir að forsendur fyrir rekstri erlendu tryggingafélaganna, sem bjóða persónu- og líftryggingar, hefðu verið brostnar. Hluti þeirra var farinn út af markaði og önnur ætluðu út af markaði ef þetta yrði ekki skýrt. Þar að auki er algerlega óþolandi og óboðlegt að svo sé skilið við lagasetningu frá hinu háa Alþingi að harkalega sé deilt um það og túlkunin fari í tvær áttir, ekki síst þegar um jafnviðkvæmt og viðamikið mál eins og 82. gr. er að ræða. Annaðhvort hafa tryggingafélögin ótakmarkaða heimild til að afla upplýsinga um heilsufar þriðja aðila og sjúkdómasögu fjölskyldna og allt hvað er eða þau hafa þá heimild alls ekki ef við kjósum að túlka greinina þannig af því að það er ekki sérstaklega tekið fram í greininni. Menn geta valið sér vígstöðuna eftir því hvort sjónarmiðið þeir aðhyllast, persónuverndarsjónarmiðin eða hagsmuni og sjónarmið tryggingafélaganna.

Sjálfsagt vilja tryggingafélögin flest hver hafa þetta algerlega takmarkalaust, þ.e. að engar takmarkanir eða skorður séu settar við upplýsingaleit þeirra og áhættumat um hinn vátryggða, svo sem um sjúkdómasögu fjölskyldna. Tryggingarekstur er þess eðlis að margir þættir koma þar við sögu, það er lífsstíll viðkomandi og því miður þarf að taka tillit til fjölskyldusögu að einhverju leyti. Auðvitað vildum við öll að það væri ekki gert og ekki væri verið að spá í það við áhættumatið hver sjúkdómasaga í fjölskyldum manna væri en veruleikinn er hins vegar sá að það eru ákveðnar forsendur fyrir rekstri tryggingafélaganna að þau hafi heimild til að leita ákveðinna upplýsinga. Ég tel að hér hafi fundist bærileg og nokkuð ásættanleg málamiðlun, tryggingafélögin geti leitað tiltekinna upplýsinga sem liggja fyrir og skilgreint þær skýrt en ópersónugreinanlega, nöfn foreldra eða systkina koma ekki fram. Við þetta eru heimildirnar afmarkaðar eða takmarkaðar og þar með er túlkunarvafinn um 82. gr. úr sögunni. Um leið hafa tryggingafélögin viðunandi stöðu til að afla upplýsinga til að geta haldið áfram rekstri og boðið áfram upp á þessar tryggingar sem ég held að á annað hundrað þúsund Íslendinga hafi tekið. Ég held líka að það sé nauðsynlegt og mikilvægt í flóru trygginga fyrir íslenska neytendur að þessi tryggingafélög séu áfram á markaði. Þá skiptir verulegu máli að Persónuvernd sagði í áliti sínu að sú leið sem hér er lögð til væri í betra samræmi við grunnreglur persónuréttarins en áður hafði verið lagt til, hér væri á ferðinni málamiðlun sem bærileg sátt virtist ná um.

Af því að um málamiðlun er að ræða, þetta er niðurstaða í deilum um tvö ólík sjónarmið, eru að sjálfsögðu ekki allir sáttir. Auðvitað er hægt að deila áfram um margt sem þessu viðkemur, enda er málaflokkurinn víðfeðmur og stór og auðvelt að finna sér þar skotfæri og efni í ýmis átök um ýmis mál. En að svo komnu máli held ég að sú leið sem hér er lögð til sé ágæt, þetta sé ásættanlegt fyrir báða aðila, bæði fyrir Persónuverndina, eins og hún segir sjálf, og fyrir tryggingafélögin, sem þó hefðu viljað hafa þetta takmarkalaust. Þeim finnst að sér þrengt með ákvæðinu sem nefndin bætti inn um að meiri hlutinn leggi til þá viðbót við frumvarpið að vátryggingafélögum verði gert að halda til haga upplýsingum um fjölda þeirra sem synjað er um persónutryggingar á grundvelli heilsufars foreldra eða systkina eða hækkuð iðgjöld vegna áhættumats sem byggist á upplýsingum um þriðja aðila. Nefndin náði saman um að bæta þessu ákvæði inn og fékk þar með til liðs við þá leið sem lögð er til í frumvarpinu þá sem höfðu miklar efasemdir um hana, og það var mjög jákvætt. Auðvitað kjósa tryggingafélögin að þurfa ekki að halda úti slíkri upplýsingasöfnun og þurfa ekki að gera hana opinbera. En ég tel að það sé mjög mikilvægt og það sé þáttur í því að gæta að persónuverndarsjónarmiðunum og fagnaði því ekki síst vegna þess að þá næðist meiri sátt um það mál sem lagt var upp með. Fyrst og fremst var lagt upp með það, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Jón Magnússon, að eyða vafa um hvers konar upplýsingar vátryggingafélagi sé heimilt að nota í áhættumati sínu og að bæta ófullkomna og gallaða löggjöf sem hafði farið frá Alþingi.

Þannig var skilið við 82. gr. að hægt var að deila harkalega um hana. (Gripið fram í.) Jú, jú, það er hægt að fela dómstólum að vinna úr einhverri hrákasmíð frá Alþingi sem ekki hefur verið vandlega unnin eða Alþingi skilið við í einhverju uppnámi af því að ekki náðist pólitísk sátt um málið eða afgreiðsla á viðunandi niðurstöðu. En það er að sjálfsögðu óboðleg leið og við eigum að freista þess til hins ýtrasta að þannig sé staðið að allri okkar löggjöf, og um það er allur þingheimur sammála, að ekki sé deilt jafnharkalega um málið eins og hér var gert, að ekki leiki á því vafi hvað er leyfilegt og hvað ekki í jafnviðkvæmu máli og því sem snýr að rekstri tryggingafélaga og heimildum eða ekki heimildum þeirra til að afla upplýsinga um sjúkrasögu þess er óskar eftir að kaupa sér líf- og sjúkdómatryggingu. Það er óþolandi að minnsti vafi leiki á því hvað tryggingafélagið megi ganga langt og þess vegna var ákveðið í viðskiptaráðuneytinu í haust að freista þess að ná niðurstöðu í þetta deilumál, ná ásættanlegri málamiðlun á milli þessara sjónarmiða þar sem við gættum þess að persónuverndarsjónarmiðum væri haldið til haga um leið og sjónarmiðum tryggingafélaga væri mætt að því leyti að þau gætu starfað hér á markaði.

Ekki er verið að hlaupa eftir óskum eða séróskum eins eða neins. Það er einungis verið að vinna áfram og fullsmíða löggjöf sem ekki hafði verið nægilega vel skilið við. Það hafði risið vafi og deilur um það hvernig túlka ætti 82. gr. laga um vátryggingarsamninga. Eins og hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson og Atli Gíslason nefndu áðan í prýðilegum framsöguerindum hafa Fjármálaeftirlitið og Persónuvernd túlkað ákvæði laganna á tvo ólíka vegu. Með frumvarpinu leggjum við til breytingu á 82. gr. og leitumst þannig við að gera ákvæðið skýrara, á þann veg að ekki verði deilt um það og að talsmenn beggja sjónarmiða geti vel við unað. Að sjálfsögðu er ýtrustu kröfum hvorugs fullnægt enda væri þá ekki um málamiðlun og niðurstöðu í deilum að ræða. Þannig stendur málið einfaldlega.

Ég er mjög sáttur við það hvernig tekist hefur til og ég er sáttur við það hvernig nefndin vann úr málinu. Þær viðbætur sem þar er kveðið á um, að haldið sé til haga tilteknum upplýsingum þannig að við áttum okkur á því, út frá tölfræði, út frá reynslurökum og út frá sögunni, eftir nokkur missiri hvaða áhrif lögin hafa, hvernig þau koma við fólk, almenning, neytendur. Út frá því er hægt að taka afstöðu til þess hvort bæta þurfi löggjöfina enn frekar, út frá reynslunni af þessum lögum. En staðan sem er uppi í dag eftir löggjöfina eins og skilið var við hana síðast er ófullnægjandi. Það er Alþingi ekki til sóma að eftirláta dómstólum að skera úr um það hver vilji löggjafans sé. Það er óásættanlegt og ég held að við getum öll verið sammála um það í prinsippinu. Þetta er málamiðlun sem skýrir ákvæðið. Við erum að fara aðra leið en önnur Norðurlönd þar sem þessar heimildir eru miklu víðtækari, þar sem ekki eru reistar skorður við rétti tryggingafélaganna til að óska eftir upplýsingum um heilsufar þriðja aðila þegar sjúkdómasaga vátryggingartaka er metin. Að því leyti göngum við lengra í persónuverndarátt en önnur Norðurlönd, það hlýtur að vera fagnaðarefni þeim sem eru sérstakir áhugamenn um þau sjónarmið, að því leyti erum við að ganga til baka.

Ég held að sú niðurstaða að þrengja að heimildum að þessu leyti en gera þær ekki víðtækari um leið og við mætum hagsmunum tryggingafélaga þannig að þau sjái sér fært að starfa áfram hljóti að vera meginmál okkar. Það hlýtur að vera mikilvægt að bærileg sátt sé á milli fólks með ólík sjónarmið um alger grundvallarmál í samfélaginu eins og rekstur tryggingafélaga, fjármálastofnana og aðra slíka málaflokka. Hlutverk okkar á Alþingi er að reyna að ná sátt um ólík sjónarmið og það hefur tekist prýðilega hér. Ég er ánægður með það og tel að lögin geti gengið áfram til 3. umr. og þaðan út.