135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[16:03]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágætisumræða um frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga. Ég þakka hana. Mörg sjónarmið hafa komið fram í þessu máli og ég get tekið undir mörg þeirra. Ég ætla í stuttu máli að rekja skoðanir okkar framsóknarmanna á málinu í heild sinni, en eins og sést á þeim álitum sem hafa verið lögð hér fram erum við hvorki á meiri- né minnihlutaálitinu. Ég mundi segja að ég væri á meirihlutaálitinu með fyrirvara sem ég mun koma betur að hér á eftir.

Ég tel að þau skref sem hafa verið stigin hér í átt að persónuvernd séu jákvæð. Það var engin krafa um skriflegt samþykki í fyrra frumvarpinu og við framsóknarmenn töldum að ekki hefði verið gætt nógu vel að persónurétti einstaklinga. Í rauninni stóðum við í vegi fyrir að það færi í gegn á síðasta þingi. Þær breytingar sem hér hafa komið fram eru í okkar anda þannig að við erum heldur jákvæð gagnvart þeim.

Hér er farin sú leið að veita svokallað einfalt samþykki þannig að vátryggingartaki þurfi í rauninni að gefa eftir bestu vitund svör við spurningum sem tryggingafélagið telur að það þurfi að spyrja til að meta áhættuna af að veita vátrygginguna. Svo kemur fram að hann þurfi að staðfesta að þær upplýsingar sem hann hefur veitt um sjúkdóma foreldra og systkina séu veittar með samþykki þeirra enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi ekki getað aflað slíks samþykkis. Það er ekki farið alla leið með að afla skriflegs samþykkis frá þriðja aðila en ekki er heldur farin sú leið að vátryggingafélögum sé bannað að spyrja.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Magnússyni sem sagði hér áðan að það vantaði upp á sanngirnismatið í frumvarpinu sjálfu. Það er hlutverk okkar, löggjafans, að setja skýrar reglur þar um. Ég hefði óskað þess að hv. þingmenn sem eru margir hverjir lögmenn hefðu komið inn á það sjónarmið. Ég tel það meginreglu að sönnunarbyrðin eigi að hvíla á tryggingafélögunum í þessum efnum og sakna þess að ekki sé kveðið skýrt á um það í frumvarpinu. Það er þess vegna sem ég hef fyrirvara við meirihlutaálitið.

Ég skildi hv. þm. Jón Magnússon þannig að honum þætti þessi miðjuleið vera sú sísta. Hann vildi annaðhvort banna þetta algjörlega eða þá að það yrði farið í skriflegt samþykki. Ég er samt ekki sammála því að með þessum hætti sé verið að koma í veg fyrir að stór hluti fólks fái tryggingu. Ég held að ef við hefðum náð að útskýra betur hvað má með sanngirni ætla að hægt sé að afla mikilla upplýsinga sé það kannski spurning um að iðgjaldið hækki o.s.frv. en ég held að þetta eigi ekki að koma í veg fyrir að fólk fái vátryggingu.

Hér hefur verið rætt um annars vegar úrskurð Persónuverndar og þann ágreining sem hefur myndast um álit Persónuverndar frá 2005. Hér hefur verið sagt að lögfræðilegur ágreiningur sé á milli Persónuverndar og Fjármálaeftirlitsins. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni, ég tel að þegar um svona persónuverndarmál sé að ræða hafi Persónuvernd úrslitavaldið um þau málefni. Að sjálfsögðu hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með vátryggingafélögum, en að mínu mati á það ekki að koma með álit sitt á persónuverndarlegum álitaefnum. Maður veltir þá fyrir sér hvort aðrar eftirlitsstofnanir ríkisins hefðu ekki líka átt að koma inn í þetta, t.d. Samkeppniseftirlitið.

Ég vara við því þegar menn á háu Alþingi tala um að ástæða þessarar lagasetningar sé lögfræðilegur ágreiningur. Ég hef tekið eftir því að pólitíkusar réttlæta málflutning sinn með því að vísa til þess að það sé lögfræðilegur ágreiningur um hitt og þetta. Það er í sjálfu sér hægt að búa til lögfræðilegan ágreining um öll heimsins mál. Mér finnst það einhvern veginn sísta röksemdin fyrir því að hér sé verið að breyta þessum lögum. Ég tel aftur á móti að löggjöf eins og þessi sé alltaf endurskoðanleg og finnst í sjálfu sér jákvætt mál að gengið sé í átt til meiri persónuverndar en hitt. Ég held að það sé aðalástæðan en ekki þessi lögfræðilegi ágreiningur sem hefur komið upp.

Þau erlendu tryggingafélög sem hér störfuðu — voru tvö, annað þeirra er horfið af markaðnum en hitt hefur hótað því að fara af markaðnum ef þessar breytingar ná ekki fram að ganga — litu algjörlega til álits Persónuverndar. Hins vegar tóku íslensku tryggingafélögin ekki mark á áliti Persónuverndar og hafa í sjálfu sér hagað framkvæmd sinni eins og þeim sýnist. Eftir því sem ég best veit er það þannig að sá sem getur ekki svarað spurningum um sjúkdóma í fjölskyldunni sinni — það er bara já- og nei-kassi — merkir bara x við nei sem í rauninni segir að það séu engir sjúkdómar. Mér finnst jákvætt að það sé komið í veg fyrir þessa framkvæmd. Mér skildist á fundi sem við áttum með þeim sem gáfu umsögn um þetta frumvarp að slík væri framkvæmdin.

Hv. þm. Jón Magnússon vitnaði í talsmann neytenda og sagði, eins og rétt er, að hann væri í umsögn sinni mjög jákvæður fyrir þessum breytingum og teldi þær til bóta, sérstaklega út frá neytendalegum sjónarmiðum, sagði að hér yrði meiri samkeppni á markaðnum o.s.frv. Ég tók ekki eftir að honum hefði snúist hugur þegar hann sat frammi fyrir okkur í viðskiptanefnd. Mér fannst hann vera mjög samkvæmur sjálfum sér og tala í eina átt um að hann væri jákvæður og að hans skoðun breyttist ekki. Nú erum við farnir að túlka orð talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar, en ég held að hann geti útskýrt þau orð best sjálfur. Ég skildi þau öðruvísi en hv. þm. Jón Magnússon.

Hér hefur verið talað um sjónarmið milli Persónuverndar og Fjármálaeftirlitsins. Við erum búin að ræða um umsögn talsmanns neytenda og þá vil ég taka fram að Samtök fjármálafyrirtækja sem eru talsmenn tryggingafélaganna lögðust gegn þessari breytingu. Þau töldu að hér væri gengið of langt í átt til persónuverndar og þrengt að þeirri framkvæmd sem þau viðhafa í dag þannig að þau lögðust gegn þessum breytingum. Ég vil bara að það komi hér sérstaklega fram.

Ég bendi á og tek undir þau sjónarmið sem komu fram áðan hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, ef við færum út í hið skriflega samþykki vakna upp margar spurningar um framkvæmdina og hvort þá safnist ekki upp hjá tryggingafélögum bunki af gögnum um fjölskyldur úti í bæ með persónuupplýsingum og hvort þá yrði ekki bara til einhvers konar gagnagrunnur sem þau mundu nýta sér og nota á þann hátt sem þau teldu best fyrir sig. Þetta er sjónarmiðið í hina áttina, sjónarmið fyrir því að ekki verði gengin sú leið að fara í skriflegt samþykki. Eins og sagði áðan tel að miðjuleiðin sé hin skynsamlegasta í þessu máli.

Ég vil að lokum segja að ég tel þessa lagasetningu til bóta. Mörg álitaefni hafa komið hér fram. Ég held að þetta sé rétt skref. Ég hefði viljað að sanngirnismatið hefði komið skýrar fram í frumvarpinu og ítreka að það er löggjafans að móta reglur og skýra og veita dómstólum leiðsögn í þeim málefnum, en ekki dómsvaldsins að ákveða hvernig túlka eigi frumvarpið.