135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[16:15]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski varasamt að vísa í munnleg ummæli einstaklinga sem koma fyrir nefndina. En ég skrifaði hjá mér á minnisblað að talsmaður neytenda hefði verið á móti og formaður Neytendasamtakanna sem tjáði sig þar á eftir hefði tekið undir, sagst sammála talsmanni neytenda um að of langt væri gengið.

Í skriflegu svari Neytendasamtakanna segir einmitt að Neytendasamtökin telji eðlilegt að vátryggingafélag meti það á grundvelli upplýsinga um væntanlega vátryggingu hvernig þetta sé og þarna sé of langt gengið. Það var þess vegna sem ég gat um það, án þess að það hefði í sjálfu sér einhverja sérstaka efnislega þýðingu eða að ástæða sé til að gera að umtalsefni.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gat um það í ágætri ræðu sinni áðan að ég hefði talað um tvær leiðir á ystu mörkunum, þ.e. annars vegar að banna eða að um væri að ræða skriflegt upplýst samþykki frá þriðja aðila sem ekki væri aðili að vátryggingasamningi. Það er í raun það sem ég tel að eigi að gera.

En, með tilliti til þess flokks sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson tilheyrir, þá hefði ég nú líka áhuga á hinni leiðinni, eða þriðju leiðinni sem einu sinni var vinsæl og oft orðuð hér í þingsölum, þ.e. að við hefðum ákveðnar takmarkanir varðandi upplýsingagjöf þannig að ekki yrðu veittar upplýsingar frá þriðja aðila um heilsufar utan ákveðinnar upplýsingaskyldu sem hvílir alltaf á vátryggingartaka, nema að um sérstakar óvenjulega háar fjárhæðir væri að ræða. Það var það sem ég var að vísa til.

Síðan varðandi Persónuvernd og hvort álit hennar hafi einhverja þýðingu þá spyr ég: Er það ekki dómstólanna að kveða úr um það? Verðum við ekki að miða við það að dómstólarnir úrskurði ef ágreiningur er á milli eftirlitsstofnana? (Forseti hringir.)