135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[16:19]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir það sem hann talaði um. Það var eitt atriði sem hann gat um í ræðu sinni líka. Það var um sanngirnismatið. Ég gat ekki skilið annað en að hann væri samþykkur þeim sjónarmiðum sem ég setti fram í stuttri ræðu minni áðan. Ég bjóst við að um það yrði fjallað, þ.e. þau ákvæði sem þar er um að ræða í lagafrumvarpinu í 1. mgr.: „… enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað …“ En í greinargerð frumvarpsins varðandi þetta atriði þá segir:

„Með sanngirni er hins vegar hægt að gera þá kröfu til viðkomandi að hann viti um þá sjúkdóma sem máli kunna að skipta við áhættumatið.“

Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að fá sérstaka skýringu á hvað væri átt við með „sanngirni“ þar sem ég var að vísa til. Þegar í greinargerðinni er talað um að ætla megi með sanngirni að viðkomandi vátryggingartaki viti um þá sjúkdóma sem máli kunna að skipta við áhættumatið. Þá spyr ég líka: Er þá nokkur þörf, miðað við þetta orðalag í greinargerðinni, til að vera að kalla til þriðja aðila sem er ekki aðili að vátryggingarsamningnum og hefur ekkert með hann að gera til þess að gefna viðkvæmar persónulegar heilsufarsupplýsingar um viðkomandi? Það liggur fyrir að það er mat þess sem semur þetta frumvarp að þessi sjónarmið liggi fyrir og ætlast er til þess að þau liggi fyrir miðað við sanngirnismat.