135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[16:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í framhaldi af ræðu framsögumanns vil ég geta þess að við 1. umr. gerði ég nokkrar athugasemdir við þetta frumvarp, einkum er lýtur að kostnaðarmati og kostnaðaráhrifum af samþykkt þess fyrir sveitarfélögin í landinu. Því var þá heitið af forseta að því yrði komið til viðkomandi nefndar að leita eftir upplýsingum um hugsanlegan kostnaðarauka sveitarfélaganna vegna þessa frumvarps. Ég fæ ekki séð að það komi glöggt fram í nefndarálitinu.

Hér eru hins vegar gerðar nokkrar breytingar og ég vil þess vegna spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hvort nefndin hafi sérstaklega kannað kostnaðaráhrifin fyrir sveitarfélögin í landinu af samþykkt frumvarpsins.