135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

innflutningur dýra.

204. mál
[16:52]
Hlusta

Frsm. sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.

Nefndin fékk á fund sinn Arnór Snæbjörnsson, Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Halldór Runólfsson yfirdýralækni og Ingvar Stefánsson frá Svínaræktarfélagi Íslands. Málið fékk umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, yfirdýralækni í svínasjúkdómum hjá Landbúnaðarstofnun og Svínaræktarfélagi Íslands.

Meginmarkmið frumvarpsins er að einfalda stjórnsýslu í tengslum við innflutning gæludýra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra dýrategunda sem eru fyrir hér á landi. Í stað þess að landbúnaðarráðuneyti annist leyfisveitingar er talið rétt í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu að fela yfirdýralækni og Landbúnaðarstofnun að annast þann þátt innflutnings dýra. Jafnframt er lagt til að við lögin bætist skilgreining á hugtakinu gæludýr. Annað meginmarkmið frumvarpsins er að lagfæra skilgreiningu laganna á hugtakinu einangrunarstöð.

Nefndin kannaði sérstaklega þá hlið málsins sem lýtur að innflutningi svína og erfðaefnis þeirra en svínabændur hafa farið fram á að liðkað verði til við innflutning á erfðaefni svína. Samkvæmt gildandi lögum er aðeins heimilt að flytja erfðaefni svína í einangrunarstöð og láta dýr vaxa af því en ekki flytja erfðaefnið til svínabænda að lokinni meðferð í einangrunarstöð. Svínaræktarfélag Íslands hefur látið kanna kosti og galla mismunandi leiða við erfðauppfærslu með tilliti til sjúkdómaöryggis, hagkvæmni og hraða í kynbótum. Í skýrslu dýralæknis í svínasjúkdómum til fagráðs Svínaræktarfélags Íslands frá 31. maí 2006, sem lagt var fyrir nefndina, kom m.a. fram að einn öruggasti kosturinn af þeim sem kannaðir voru væri að flytja inn fryst sæði beint á svínabú. Innflutningur lifandi dýra var talinn lakasti kosturinn.

Yfirdýralæknir hefur hins vegar lagst gegn slíkri heimild með tilliti til sjúkdómaöryggis og þess grundvallar sem lög um innflutning dýra byggjast á. Ég vek sérstaka athygli á því að nefndin beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skipi starfshóp sérfræðinga til að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt, m.a. með tilliti til hugsanlegs innflutnings á erfðaefni, með það að leiðarljósi að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar, og að matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu nægilega tryggð.

Við athugun málsins í nefndinni kom í ljós að hentugra væri að færa gildistökudag laganna til 1. janúar 2008 svo að tími gæfist til undirbúnings áður en lögin tækju gildi og er breytingartillaga í skjalinu þess efnis.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Atli Gíslason, Kjartan Ólafsson, Helgi Hjörvar, Jón Björn Hákonarson, Jón Gunnarsson, Karl V. Matthíasson og Grétar Mar Jónsson.