135. löggjafarþing — 46. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:49]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sannfærð um að það mál sem við erum að samþykkja hér sé til bóta og ég held að við munum furða okkur á því að allt til ársins 2007 hafi þingmenn getað komið upp í 2. umr. og talað endalaust, eins lengi og stætt var. Ég held að við munum ekki skilja mikið í því eftir nokkur ár þannig að það er gott að við erum að taka skref inn í nútímann.

Ég hef ríka réttlætiskennd og þess vegna vil ég sérstaklega koma því á framfæri við lokaafgreiðsluna að hæstv. forseti Alþingis hefur staðið sig vel í þessu máli. Hann hefur sýnt lipurð og reynt að leiða menn saman. Sú gagnrýni sem hefur komið fram á hann úr þessum stól er ekki réttmæt. Þetta segi ég þó að ég komi úr öðrum flokki og skipi mér ekki í fylkingu með Sjálfstæðisflokknum. Hæstv. forseti Alþingis á hól skilið fyrir það hvernig hann hefur (Forseti hringir.) haldið á þessu máli. Ég segi já.