135. löggjafarþing — 46. fundur,  14. des. 2007.

þingfrestun.

[18:02]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna þakka hæstv. forseta fyrir gott samstarf á haustþingi. Ekki síst vil ég þakka fyrir gott samstarf við okkur þingflokksformenn.

Sú ánægjulega breyting hefur orðið á þinghaldinu síðustu ár að starfsáætlun þingsins hefur gengið eftir í öllum meginatriðum. Undir forustu forseta Alþingis hafa nú verið stigin frekari skref í átt til þess að styrkja þinghaldið, löggjafarstarfið og pólitíska umræðu.

Um þessi markmið öll eru allir alþingismenn sammála og ég er þess fullviss að þannig verði á málum haldið að allir hafi fullan sóma af og ekki hvað síst Alþingi sjálft.

Ég þakka forseta hlý orð í garð okkar alþingismanna og óska honum og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þá vil ég færa starfsfólki Alþingis þakkir fyrir góða aðstoð við okkur þingmenn og ánægjulegt samstarf á árinu og óska því gleðilegrar jólahátíðar.

Ég bið hv. alþingismenn að taka undir góðar óskir til hæstv. forseta og fjölskyldu hans og starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]