135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

embættisveitingar ráðherra.

[13:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég harma svar hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu. Ég harma að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki tekið afdráttarlausa afstöðu með lýðræðinu og með faglegum og málefnalegum vinnubrögðum og gegn misbeitingu pólitísks valds. Það er nöturlegt en kemur ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn og forusta hans séu svo heillum horfin í eigin valdavef að hagsmunir almennings um óháða og ekki síst sjálfstæða dómstóla komi þeim ekki við. Þeim þykir sjálfsagt að framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið sameinist í Valhöll.

Í frægri Borgarnesræðu formanns Samfylkingarinnar var m.a. vikið að því að fólki þætti nóg komið af því hvernig gæðum og embættum ríkisins væri úthlutað til flokksfélaga og gæðinga, svo vitnað sé orðrétt í ræðuna. Það er því ekki síður nöturlegt að aðrir skuli ana út í spillingarfenið með Sjálfstæðisflokknum og einkum er ömurlegt að horfa upp á Samfylkinguna, Jafnaðarmannaflokk Íslands, lúta í gras og kyssa vöndinn.

Í ljósi þess hve opinberar stöðuveitingar eru vandmeðfarnar og vekja oft harðar deilur, eins og forsætisráðherra vék að, og valda kærum spyr ég hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) aftur hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að settar verði skýrar reglur og jafnvel lög um verkferla, um meðferð (Forseti hringir.) og þýðingu hæfnismats við ráðningar í opinberar stöður þannig að geðþóttavaldi ráðherra verði settar nauðsynlegar skorður.