135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

embættisveitingar ráðherra.

[13:47]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað sjálfsagt að hafa jafnan til athugunar hvaða aðferðum er beitt þegar menn eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins en ég tel ekki að þessi tilteknu þrjú mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni gefi sérstakt tilefni til þess. Við skulum á hinn bóginn fara yfir það í rólegheitum hvort ástæða er til að breyta eitthvað málsmeðferðinni.

Ég vil hins vegar segja að mér finnst óeðlilegt ef einhverjum dettur í hug að t.d. dómarastéttin í landinu eigi að hafa sjálfdæmi um hvaða menn komast nýir inn í þann hóp, að það eigi að búa til einhverja reglu dómara sem geti haft sjálfdæmi um hvaða menn komist í hópinn og hvernig reglan endurnýjar sig eða hópurinn sem þar er um að ræða. Það á að vera þannig að á endanum beri hið pólitíska vald ábyrgðina alveg eins og er í þessu máli. Þannig er stjórnkerfi okkar uppbyggt og er gjörsamlega út í hött að segja að menn eins og ég, sem svara þessari fyrirspurn, höfum tekið afstöðu gegn lýðræðinu í þessu máli. Hvers lags málflutningur er það?

Má ég biðja hv. þingmann um að misbeita ekki (Forseti hringir.) málfrelsi sínu með þeim hætti í ræðustól Alþingis?