135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um kvótakerfið.

[13:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki ágreining við hæstv. forsætisráðherra um að íslenska þjóðin og ríkið hafi rétt til að stýra fiskveiðum með einhverjum hætti. Okkur greinir hins vegar á um að þetta álit leiði ekki til þess að að taka þurfi sérstakt tillit til þess, m.a. með lagabreytingum. Ég held að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, og ekki verði undan því vikist.

Staðan í málinu í dag er einfaldlega sú að alþjóðastofnun hefur komið því á framfæri við okkur á löggjafarþinginu og íslensku ríkisstjórnina að núverandi lagasetning standist ekki jafnræðisreglu og ekki ákvæði um að allir fái að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa sér. Þetta tel ég það mikið atriði að það verði ekki undan því vikist að fara í endurskoðun laga. Ég er þess vegna ósammála svari hæstv. forsætisráðherra.