135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um kvótakerfið.

[13:53]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að ágreiningur sé um þetta mál, eins og hv. þingmaður lýsti, sérstaklega af hálfu Frjálslynda flokksins.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins mun fara yfir þetta mál. Mér er kunnugt um að það verður efnt til fundar í henni í vikunni til að fara yfir allar hliðar þessa máls og kalla til helstu sérfræðinga um það og það er eðlilegt. En það er óeðlilegt að rjúka upp til handa og fóta og kalla eftir lagabreytingum að óathuguðu máli.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að við fyrstu sýn sýnist mér ekki að þetta álit kalli á neinar sérstakar lagabreytingar af okkar hálfu. Hins vegar er eðlilegt að við förum yfir þetta mál í heild sinni með tilliti til þess sem þarna segir og með tilliti til þess sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.