135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Sultartangavirkjun.

[13:55]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti, þingheimur, gleðilegt ár.

Fram kom hjá Landsvirkjun í gær að raforkuframleiðsla við Sultartangastöð liggi niðri og hafi fyrri spennirinn bilað þann 1. nóvember, eða fyrir 80 dögum síðan og seinni á aðfangadag, eða fyrir þremur vikum. Fyrirliggjandi viðgerðaráætlun gerir ráð fyrir að annar spennirinn komist í rekstur í lok febrúar og hinn í lok apríl næstkomandi. (Gripið fram í.) Samanlögð orkuframleiðsla Landsvirkjunar er 1.900 megavött og nú hafa 120 megavött dottið út eða tæp 7% með þessari bilun í Sultartangavirkjun, sem var gangsett árið 2000.

Á heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að stöðin sé ein af nýjustu aflstöðvum Landsvirkjunar. Ég vil í því sambandi minna á umræður á vormánuðum árið 2000 er virkjunin var í byggingu, er forsvarsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands lýstu því yfir að Sultartangavirkjun væri faglegur ruslahaugur. Vanir íslenskir rafiðnaðarmenn sem höfðu starfað við uppsetningu á fleiri en einni virkjun sögðu að Sultartangavirkjun væri faglegur ruslahaugur, hún sé í raun ónýtt drasl, svo ég vitni beint í orð forsvarsmanna Rafiðnaðarsambandsins á þeim tíma.

Hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson gaf út skýrslu, þskj. 405, í desember á síðasta ári og í kafla 4.1.1. í þeirri skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 9. gr. raforkulaga ber Landsnet ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skal tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu.“

Því er fyrirspurn mín til hæstv. iðnaðarráðherra:

Hefur Landsvirkjun sent hæstv. iðnaðarráðherra skýrslu, greinargerð eða minnisblað vegna frávika í Sultartangavirkjun frá 1. nóvember síðastliðnum?

Og jafnframt, þar sem Landsnet ber ábyrgð á gæðum raforkukerfisins:

Hefur Landsnet sent iðnaðarráðuneytinu eða hæstv. iðnaðarráðherra skýrslu, greinargerð eða minnisblöð vegna þessa, eða hafa einhver samtöl átt sér stað milli ráðuneytis og umræddra fyrirtækja?