135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Sultartangavirkjun.

[13:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hef auðvitað eins og aðrir fylgst með fregnum af því sem þarna hefur gerst. Hv. þingmaður spyr hvort Landsnet og eftir atvikum Landsvirkjun hafi sent iðnaðarráðuneytinu upplýsingar, skýrslu eða eitthvað annað, hvað þetta varðar. Því er til að svara að svo er ekki.

Landsvirkjun er samkeppnisfyrirtæki sem ber ekki skylda, að svo stöddu, til þess að senda sérstakar skýrslur um þetta. Landsnet hefur lögum samkvæmt, eins og hv. þingmaður vitnaði til úr skýrslu iðnaðarráðherra, skyldu til að tryggja afhendingaröryggi. Um leið og sú staða kemur upp í dreifikerfinu og raforkuframleiðslunni að hugsanlega þurfi að taka upp skömmtun, ef þær aðstæður koma til en það hefur að sjálfsögðu ekki þurft núna, þá er það lagaleg skylda Landsnetsins að grípa til þess. En Landsnet hefur ekki að óbreyttum lögum sérstaka tilkynningarskyldu til ráðuneytisins varðandi þetta.

Hv. þingmaður spyr hvort einhver samtöl hafi átt sér stað milli mín og Landsnets um þetta mál. Því er til að svara að ég á fund á morgun með Landsneti og þessi staða er eitt af þeim atriðum sem ég tek upp á þeim fundi.