135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

uppgjör fjármálafyrirtækja í evrum.

[14:01]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er mikill órói á íslenskum fjármálamarkaði, óstöðugleiki í skráningu íslensku krónunnar og hún er of hátt skráð að flestra mati. Þetta hefur verið áhyggjuefni lengi. Langt er síðan að ljóst var að fyrirtæki mundu sækjast eftir því að gera starfsemi sína upp í öðrum gjaldmiðli, fyrst og fremst í evru. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf að t.d. fjármálafyrirtæki, bankarnir, hafi áfram höfuðstöðvar sínar hér á landi. Það hlýtur öllum að vera ljóst.

Fjármálaráðherra hefur þegar synjað a.m.k. einu íslensku fyrirtæki um að gera starfsemi sína upp í evrum, þ.e. Landic Property. Þetta kom fram í gær. Kæra frá Kaupþingi liggur á borði hæstv. ráðherra sem kærir þá niðurstöðu ársreikningaskrár að setja fyrirtækinu óaðgengileg skilyrði samfara því að færa bókhald sitt í evrum. Seðlabankinn gaf neikvæða umsögn um málið.

Því er haldið fram að framkvæmdarvaldið túlki lögin um ársreikninga þröngt og í raun eigi fyrirtækin rétt á að færa sig yfir í annan gjaldmiðil hafi þau meginstarfsemi sína erlendis í erlendum gjaldmiðli.

Þegar þær fregnir bárust fyrst að Kaupþing hefði uppi áform um að gera þessa breytingu þá sagðist hæstv. fjármálaráðherra vera því hlynntur. Hann fagnaði þeirri yfirlýsingu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann ætli að taka þá áhættu að missa stórfyrirtækin úr landi og neita að horfast í augu við staðreyndir með því að hafna líka Kaupþingi um að gera upp í evrum?

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að ég velti því fyrir mér hvort formaður bankastjórnar Seðlabankans geti gefið hlutlæga umsögn um mál sem varða þau tvö fyrirtæki sem hér um ræðir, þegar forsagan er höfð í huga.